*

laugardagur, 20. júlí 2019
Leiðari
1. apríl 2017 18:17

Bull & þvæla

Gallinn er sá að þessi frétt er della og ekki reist á neinu nema þessu eina tísti læknisins um deyfingarnar.

Menn voru ekki seinir að draga þá ályktun að margir hafi fagnað sigrinum vel og einstaklega innilega.
Haraldur Guðjónsson

Fæðingarlæknir við Landspítalann læddi á mánudag út athugasemd á Twitter um að nú, nákvæmlega 9 mánuðum eftir að Íslendingar slógu Englendinga út úr 8-liða úrslitum EM í fótbolta, hefði verið sett met í mænudeyfingum þar á spítalanum. Menn voru ekki seinir að draga þá ályktun að margir hafi fagnað sigrinum vel og einstaklega innilega: „Íslendingar spólgraðir eftir sigurinn í Nice“ setti Stefán Árni Pálsson fram í varfærnislegri fyrirsögn í Vísi, en Hörður Snævar Jónsson dró aðeins úr á fótboltavefnum 433: „Íslendingar graðir eftir sigurinn á Englandi“.

Þessi lostafulla sigurvíma hinna stynjandi víkinga spurðist skjótt út um heimsbyggðina þar sem alls kyns fjölmiðlar sögðu fréttir af fótboltafæðingarsprengjunni íslensku; bæði á íþróttasíðum, mannlífssíðum og fréttasíðum, froðufellandi æsifréttasneplar jafnt og ríkisfjölmiðlar með stjarfaklofa.

Gallinn er sá að þessi frétt er della og ekki reist á neinu nema þessu eina tísti læknisins um deyfingarnar. Þar kom hins vegar ekkert fram um þunganir, fæðingar eða annað það er hönd á festir í því samhengi, en tölfræði um samfarir Íslendinga hinn 27. júní í fyrra liggur ekki á lausu.

Fjölmiðlarýni sýnist að Jakob Hákonarson á vefritinu Nútímanum hafi fyrstur kannað hvað hæft væri í þessu og hann plaffaði þessar fréttir samviskusamlega niður með því gamla og góða trixi vandvirkra blaðamanna, að hringja bara og spyrja. Við þá eftirgrennslan kom í ljós að á Landspítala höfðu fæðingar aðeins verið í meðallagi undanfarna daga og með minna móti norður á Akureyri. Og heimsfréttin tóm tjara.

***

Fjölmiðlarýnir hnaut um skrýtna „frétt“ í Pressunni. Þar skrifaði Kristján Kristjánsson um bílastæðavörð í Bristol, sem varð milljónamæringur eftir 25 ára starf, en í fyrirsögninni var nefnt að „hugvitssemi hans [hefði] kætt marga“. Innihaldið snerist svo um að maðurinn hefði villt á sér heimildir og stungið öllum stöðugjöldum í eigin vasa, en lifði nú vellystingum á sólarströnd eftir aldarfjórðungssvik. Já, haha. En svo var loks klykkt út með lykilatriði fréttarinnar:

Við tökum þó fram að ekki er vitað hvort þessi saga er sönn eða hreinn uppspuni en segja má að hér sé um flökkusögu að ræða en hún hefur farið á kreik öðru hvoru undanfarin ár. En hvort sem hún er sönn eða uppspuni einn þá er ekki annað hægt en að brosa út í annað yfir henni.

Blaðamaðurinn vissi með öðrum orðum að fréttin var þvættingur, en skrifaði hana samt með þessum furðulega fyrirvara um að hún gæti verið sönn! En það þarf ekki annað en að slá Bristol Zoo Parking inn í Google til þess að komast að hinu sanna í málinu.

Er nema von þó almenningur viti ekki vel hverju megi treysta í fjölmiðlum þegar svona þvæla er birt sem frétt?

***

Hugsanlega finnst mönnum minna skipta að ganga úr skugga um að svona skemmtifréttir séu sannar og réttar en þegar meiri alvörumál eiga í hlut. Af hverju að láta staðreyndir trufla góða sögu og allt það. En þá eiga menn bara að segja slíkar skemmtisögur í kjaftadálkum og gæta þess að enginn haldi eitt augnablik að þær séu fréttir. Tja nema kannski nú á laugardag.

***

Hér var í síðustu viku fjallað um fréttir af ruslflokki verðbréfa. Þar hafði Kjarninn riðið á vaðið með ranga frétt um að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor’s hefði lækkaði lánshæf­iseinkunn eins kaupenda hlutafjár í Arion banka niður í ruslflokk, daginn eftir að kaupin í bankanum voru kynnt. Þetta var rangt, vogunarsjóðurinn sá var lækkaður úr efsta í næstefsta flokk hávaxtaflokks, sem stundum er nefndur ruslflokkur.

Þessa frétt átu svo aðrir miðlar hver upp eftir öðrum: Vísir, Stundin, Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Í þeirri röð. Enginn þeirra miðla virðist þekkja til lánshæfisflokkunar og eftir að Kjarninn fór rangt með virðist enginn þeirra hafa kannað það neitt frekar, hvorki heimild Kjarnans, sem hafði þetta rétt, né frumheimildina á vef sjóðsins eða S&P.

Nú, einni og hálfri viku síðar, hefur enginn þessara miðla hirt um að leiðrétta rangfærslurnar. Nú eru þetta ekki falskar fréttir, heldur rangar fréttir og lélegar; ófagur vitnisburður um metnaðarleysi og fúsk. Þegar miðlar hirða ekki um að leið- rétta það, sem rangt er með farið, þá þýðir það aðeins eitt: þeim er slétt sama um hvað er rétt og hvað er rangt. Það er skárra en að flytja vísvitandi rangar fréttir, en ekkert mjög miklu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.