*

föstudagur, 18. september 2020
Leiðari
29. júní 2017 11:07

Burt með Fjármálaeftirlitið

Réttast væri að fela Seðlabankanum fjármálaeftirlit á nýjan leik, segir í forystugrein Viðskiptablaðsins

Haraldur Guðjónsson

Í liðinni viku gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) út skýrslu um Ísland. Þar var fjallað lofsamlega um efnahagsuppbyggingu liðinna ára, en það voru áhyggjur skýrsluhöfunda af Fjármálaeftirlitinu, sem mesta athygli vöktu

AGS áréttaði fyrra álit sitt frá 2014, að Fjármálaeftirlitið skorti bæði tennur og sjálfstæði, og hamraði á því að brýnt væri að stjórnvöld settu eftirlit með fjármálageiranum í algeran forgang. Þrátt fyrir að vissulega hefði ástandið breyst til batnaðar með innleiðingu rammalöggjafar og regluverks Evrópusambandsins á þessu sviði, væru enn margvísleg göt í eftirlitinu, sem ekki hefði verið stoppað í.

Sérstaklega var nefnt að Fjármálaeftirlitið skorti víðtækar valdheimildir til þess að setja bindandi reglur og fyrir vikið væri það ófært um að rækja ýmsar skyldur sínar. Jafnframt hefðu stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að endurskoða lögin um FME. AGS nefndi þetta ekki sem almenna, fræðilega athugasemd, heldur var bent á, að athugun á hæfi kaupenda í Arion banka væri sérstakur prófsteinn á FME, en við einkavæðingu bankanna skiptu gæði eigenda meira máli en verð og skjót sala. Engum dylst sú harða gagnrýni, sem í þeim orðum felst.

Ekki er það þó allt frábært sem AGS leggur til málanna. Þannig væru stórauknar og hömlulausar heimildir FME til eigin reglusetningar ekki í góðu samræmi við íslenska stjórnvenju og réttarhefð, eins og Seðlabankinn hefur margrekið sig á. Það má líka spyrja hvaða þrek FME hefði til þess að framfylgja slíkum reglum þegar í harðbakkann slær. Íslendingar þekkja það af biturri reynslu, að á ögurstundu þurfa eftirlitsaðilar að geta brugðist við af ógnarafli og það án fyrirvara eða frestunar. FME hefur hvorki völd, tæki, reynslu né þekkingu til þess.

Viðskiptablaðið tekur undir það, að endurskoða þurfi lögin um FME. Og gott betur, það er ástæða til þess að huga að allri lagaumgjörð og samkeppnisumhverfi fjármálageirans í landinu, sem mætti vera miklu betri. En þar með er ekki sagt að hún þyrfti að vera meiri. Frá bankahruni hefur starfsmannafjöldi FME farið úr 66 í 118 og starfsmenn Seðlabanka úr 116 í 185. Þeim virðist ekki ætla að fækka þó að höftin séu að mestu horfin og bankakerfið eitt hið best fjármagnaða í heimi. Það skortir því ekki mannauðinn, en dettur einhverjum í hug að eftirlitið sé helmingi betra og öruggara og áður? Nei, enda er það ekki markmiðið að hafa sem flesta starfsmenn á fóðrum. Eftirlitið á að vera hæfilegt og það þarf að vera vandanum vaxið.

Einfaldast er því að endurskoða lögin um Fjármálaeftirlitið með það fyrir augum að leggja það niður. Reynslan af því er ekki góð. Það reyndist ekki vandanum vaxið á bóluárunum og vanmáttugt í bankahruninu. Í eftirmálum hrunsins gat það ekki varist spilltum forstjóra og þrátt fyrir gríðarlega útgjaldaaukningu og innri uppbyggingu fer því fjarri að FME njóti þeirrar tiltrúar, sem stofnuninni er nauðsynleg. Jafnvel þótt litið sé hjá öllu því, er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að það hafi á sínum tíma verið mistök að taka eftirlitið úr Seðlabankanum og setja í sérstaka stofnun.

Réttast er að fela Seðlabankanum fjármálaeftirlit á nýjan leik. Innan bankans er þegar til mikið af nauðsynlegri þekkingu til þess, yfirsýnin er meiri og hann hefur þá vöðva, sem stundum er nauðsynlegt að hnykla. Viðskiptablaðið hefur iðulega fundið að stjórnarháttum í Seðlabankanum; hann kann ekki alltaf að fara vel með valdið og hefur jafnvel beitt valdi án þess að hafa það. En hann er samt betur til þess fallinn að annast fjármálaeftirlit en Fjármálaeftirlitið. Það er löngu fullreynt á þá stofnun.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. júní 2017.

Stikkorð: FME Seðlabanki
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.