Sjávarútvegur hefur verið órjúfanlegur hluti af mínu lífi frá blautu barnsbeini. Faðir minn og frændur okkar keyptu Samherja hf. árið sem ég fæddist á tímum mikillar ólgu og óvissu í atvinnugreininni. Í dag eru breyttir tímar enda hefur sjávarútvegurinn verið ein helsta grunnstoð efnahagslífsins um margra ára skeið og átt stærstu hlutdeildina í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan reyndar sótt mjög á sem er afar jákvætt enda nauðsynlegt að hafa margar traustar stoðir í íslensku hagkerfi.

Samherji er í dag á meðal leiðandi sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópu. Þetta er fyrst og fremst vegna þess eigendur fyrirtækisins hafa frá byrjun markað þá stefnu að verja hagnaði fyrirtækisins til uppbyggingar þess. Fiskiskipaflotinn hefur verið endurnýjaður, byggðar hafa verið nýjar vinnslur og fjárfest hefur verið í nýrri tækni í því skyni að tryggja starfsfólki besta aðbúnað sem völ er á. Þá vegur það einnig þungt að hjá Samherja var snemma ákveðið að fyrirtækið yrði sjálfstætt í sölu sjávarafurða. Í þessum tilgangi var fjárfest í sölufyrirtækjum erlendis og sambönd voru byggð upp til að selja beint inn á lykilmarkaði.

Erum leiðandi í veiðum og vinnslu

Íslendingar standa mjög framarlega í veiðum og vinnslu á alþjóðlegum vettvangi. Ekki síst vegna mikillar fjárfestingar. Samherji hefur á síðustu árum endurnýjað fiskiskipaflotann í stórum stíl, eins og áður segir. Nýju skipin eru mun öruggari fyrir skipverja og þá nota þau mun minna af olíu en eldri skipin sem þýðir að kolefnisfótspor þeirra er mun minna. Opinberar tölur sýna að heildarlosun koltvísýrings frá fiskveiðum og fiskeldi dróst saman um 43% milli áranna 1995 og 2016 á sama tíma og losunin tvöfaldaðist í hagkerfinu í heild sinni. Þar vegur endurnýjun skipa hjá íslenskum útvegsfyrirtækjum þungt.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki nýta allan fiskinn og mikil nýsköpun hefur átt sér stað í kringum atvinnugreinina hjá fyrirtækjum sem skapa verðmæti úr aukaafurðum. Í þessum klösum í kringum sjávarútveginn hafa líka orðið til fjölmörg hátæknifyrirtæki og eru mörg þeirra í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Tæki og hugbúnaður í nýju vinnsluhúsi Samherja á Dalvík er gott dæmi. Þar eru á ferðinni nýjar, sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og eru afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og íslenskra hátæknifyrirtækja en þar má nefna Völku, Samey, Frost og Vélfag. Annað dæmi eru vinnsludekk þróuð af Slippnum sem eru í mörgum nýjum skipum Samherja. Hjá íslenskum hátæknifyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn hefur skapast fjöldi nýrra starfa og hafa þau þróað búnað sem mikil eftirspurn er eftir á alþjóðlegum vettvangi. Allt eru þetta jákvæðar birtingarmyndir þess hvað sjávarútvegurinn er öflug atvinnugrein hér á landi og hvað hún skiptir þjóðarbúið í heild sinni miklu máli.

Afhending ferskra sjávarafurða sem eiga uppruna sinn á eyju í Norður-Atlantshafi er í eðli sínu afar krefjandi viðfangsefni. Ein af forsendum þess að svona rekstur skili góðri afkomu er að virðiskeðjunni sé stýrt af sama aðila enda er mikil samkeppni um afhendingu matvæla um heim allan og er sjávarútvegurinn í reynd í beinni í samkeppni við ótengdar greinar um að anna eftirspurn eftir próteini. Lóðrétt samþættur rekstur hefur í þessu sambandi skipt miklu máli hjá fyrirtæki eins og Samherja.

Markaðssetning upprunalands og uppbygging vörumerkja

Forsenda þess að íslenskum útvegsfyrirtækjum vegni áfram vel í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á alþjóðlegum matvælamörkuðum er áframhaldandi fjárfesting í innviðum fyrirtækjanna. Með endurnýjun skipa og uppbyggingu í landvinnslu hefur Íslendingum tekist að ná ákveðnu forskoti á aðrar þjóðir. Sífelld endurnýjun og uppbygging er forsenda þess að hægt verði að viðhalda þessu forskoti. Ég tel að næsta bylgja fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi þurfi í auknum mæli að snúa að neytendum og uppbyggingu vörumerkja.

Nú er í gangi auglýsingaherferðin „ Fishmas “ eftir að íslensk útvegsfyrirtæki sameinuðust undir slagorðinu „ Seafood from Iceland “ í því skyni að auka útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða. Herferðin er afrakstur samstarfs SFS og Íslandsstofu og það verður áhugavert að sjá hvort hún skilar árangri.

Sameiginleg markaðssetning á upprunalandi sjávarafurða og uppbygging vörumerkja fyrir afurðirnar sjálfar er hins vegar sitt hvor hluturinn. Uppbygging vörumerkja skiptir máli enda halda viðskiptavinir tryggð við vörumerki ef þeir tengja þau við gæði. Vörumerki er breitt hugtak og snýst ekki bara um merkið sjálft heldur þau hughrif sem vakin eru í huga viðskiptavinarins og hvaða reynslu hann tengir það við. Þekkt vörumerki eru í sumum tilvikum á meðal verðmætustu eigna fyrirtækja. Ef það á að byggja upp sterk vörumerki fyrir íslenskar sjávarafurðir þá þarf slík uppbygging að óbreyttu að eiga sér stað hjá fyrirtækjunum sjálfum. Það er krefjandi viðfangsefni því metnaðarfull uppbygging vörumerkja er tímafrek og kostnaðarsöm. Um er að ræða ítarlegt ferli sem kallar á nýja þekkingu og störf fólks með sérstaka menntun á þessu sviði. Þetta þarf að útfæra og hugsa út í þaula því það gætu falist mikil verðmæti í sterkum vörumerkjum fyrir íslenskan sjávarútveg ef rétt er staðið að málum. Það eru ekki bara íslensk útgerðarfyrirtæki sem myndu njóta góðs af slíkri verðmætasköpun heldur allir sem starfa í greininni. Það myndi svo að sjálfsögðu hafa jákvæð afleidd áhrif fyrir efnahagslífið í heild sinni.

Höfundur framkvæmdastjóri hjá Samherja.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .