Gísli Marteinn Baldursson var greinilega mjög hugsi um síðustu helgi. Eins og oft áður deildi hann þankagangi sínum en það gerði hann að þessu sinni með „laufléttu“ byltingartísti.

Sagði hann að í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú ættu sér stað væri mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga og vitnaði því næst í Þórberg Þórðarson sem ritaði: „Það eru andstæðingar byltinganna, sem gera þær blóðugar, en ekki byltingarmennirnir.“ Þetta féll í frekar grýttan jarðveg og þótti mörgum sem þarna væri lítið gert úr fórnarlömbum manna eins og Stalíns og Maó.

Á mánudagsmorgun komu loks kurlin til grafar og Twitter-samfélagið áttaði sig á hvaða byltingu Gísli Marteinn var að boða. Þá sagði hann að baráttan um borgina hæfist á fundi á Kex, þar sem oddvitar flokkanna ræddu bíllausan lífsstíl á miðvikudaginn.

Hrafnarnir efast ekki um að bíllausi lífsstíllinn sé ofarlega í huga reiðhjólafólks í vesturhluta borgarinnar en óttast að hin raunverulega bylting verði fyrir utan Kex, þar sem fundargestir munu berjast um bílastæði.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .