*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Leiðari
13. nóvember 2020 14:45

Covid-rússíbaninn

Viðskiptablaðið rifjar upp allar þær sveiflur vona og væntinga sem einkennt hafa heimsfaraldurinn hingað til.

Með tilkomu boðaðs bóluefnis standa vonir til þess að miðbær Reykjavíkur geti litið nokkurnveginn svona út næsta sumar.
Haraldur Guðjónsson

Síðastliðinn mánudag kynntu lyfjarisinn Pfizer og líftæknifyrirtækið BioNTech bóluefni gegn SARS-CoV-2, kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Í gær bárust svo fregnir af því að Evrópusambandið hefði tryggt sér allt að 300 milljónir skammta af bóluefninu, en aðild Íslands að EES-samningnum tryggir Íslandi hlutdeild í því.

Jafnvel er talað um að sökum smæðar muni það hreinlega ekki taka því að senda hingað til lands jafn marga skammta á haus og til stærri landa, heldur gætum við fengið einhvern lágmarksfjölda sem yrði mun hærra hlutfall þjóðarinnar.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir fregnirnar gefa tilefni til mikillar bjartsýni og faraldurinn verði að öllum líkindum kveðinn í kútinn á næsta ári. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur ekki alveg jafn djúpt í árinni, en segir að Pfizer hefði tæplega gefið út tölur um 90% virkni nema fyrir þeim væri góður grunnur, og reynist þær réttar sjáum við fram á endalok faraldursins. Hann segir þó mikilvægt að vera undir það búinn að bóluefnið virki ekki jafn vel og fyrstu niðurstöður gefa til kynna.

Hagsmuna- og greiningaraðilar segja fréttirnar afar jákvæðar fyrir atvinnulífið, og þá sér í lagi ferðaþjónustuna, sem beðið hefur í von og óvon eftir fréttum af því hvenær hún geti tekið til starfa að ráði á ný. Nú sé kominn nokkuð skýr tímarammi, sem bæði hvetji fyrirtæki til að þrauka fram á næsta sumar og eins lánveitendur og stjórnvöld til að veita þeim svigrúm til þess.

Gangi björtustu vonir eftir og Ísland fái nægan fjölda bóluefnisskammta til að mynda hjarðónæmi á undan öðrum löndum, mætti jafnvel auglýsa Ísland sem sérstakan Covid-lausan og ónæman áfangastað. Þar þurfi ferðamenn hvorki að hafa áhyggjur af því að smitast né smita, geti teygt vel úr sér í víðáttumikilli íslenskri náttúrunni eftir alla inniveruna, og ef þeir svo kjósa, þrátt fyrir ónæmið, forðast þá mannmergð sem einkennir marga vinsælustu ferðamannastaði heims.

Viðskiptablaðið tekur undir hvert bjartsýnisorð, og segja má með sanni að fréttirnar séu sérlega kærkomnar nú í skammdeginu þegar líða fer að jólum, eftir þá hatrömmu baráttu sem einkennt hefur yfirstandandi bylgju faraldursins. Blaðið kemst þó ekki hjá því að rifja upp allar þær sveiflur væntinga sem einkennt hafa tilkomu þessa ósýnilega vágests hingað til.

Í upphafi árs höfðu fæstir miklar áhyggjur af veirunni og var því spáð að jafnvel þótt hún bærist hingað, riði hún fljótt yfir og hefði óveruleg áhrif í stóra samhenginu. Hún tók svo land hér í lok febrúar, og eftir að hafa dreift sér statt og stöðugt í mánuð, var komið annað hljóð í strokkinn. Umræður sköpuðust jafnvel um að besta ráðið gæti einfaldlega verið að leyfa henni að ríða sem hraðast yfir og skapa hjarðónæmi.

En svo fóru sóttvarnaaðgerðir að bera árangur og faraldurinn gekk jafn hratt niður og hann hafði risið. Við tók covid-laus sumarblíðan og merkja mátti mikla bjartsýni. Fasteignamarkaðurinn tókst á loft eftir stýrivaxtalækkanir vorsins og fyrirtæki tóku að ráða hlutabótastarfsfólk í fullt starf á ný.

Enn varð svo viðsnúningur þegar önnur og/eða þriðja bylgjan, eftir því hvernig litið er á þær, skullu á af krafti með haustinu, og þrátt fyrir enn harðari aðgerðir en í þeirri fyrstu gekk brösuglega að ná þeim niður. Jafnvel var talað um að svo kynni að fara að ógerningur yrði að búa til bóluefni, líkt og með HIV-veiruna, og lifa yrði með kórónuveirunni næstu árin eða áratugina.

Nú hefur tilkoma bóluefnis ofan í hjöðnun síðustu bylgju enn og aftur kúvent stemningunni. Reynslan ætti hins vegar að vera farin að kenna okkur að stilla væntingum í hóf, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar. Þótt enn eigi margt eftir að skýrast betur, er orðið nokkuð ljóst að heimsfaraldur kórónuveirunnar mun hafa víðtæk og varanleg áhrif á marga þætti mannlegs samfélags, bæði til góðs og ills, hvenær sem honum lýkur endanlega.

Stikkorð: bóluefni covid
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.