*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Huginn og muninn
28. nóvember 2020 10:04

Dáðadrengurinn Dagur B. Eggertsson

Það kom ýmsum á óvart þegar viðtal birtist við borgarstjóra um árangur Reykjavíkur í baráttunni gegn Covid.

Haraldur Guðjónsson

Það vakti athygli fjölmarga þegar viðtal birtist við borgarstjórann Dag B. Eggertsson þar sem hann talaði um þann mikla árangur sem Reykjavík hefur náð í baráttu sinni við faraldurinn. Var meðal annars á það bent að borgarstjórinn væri menntaður læknir og það hafi „hjálpað honum“ í baráttunni við faraldurinn.

Þessi leyndi þáttur læknisins kom ýmsum á óvart, enda þríeykið verið fyrirferðarmeira í baráttunni gegn veirunni, en ekki hröfnunum. Þeim er enda í fersku minni sú staðreynd að Dagur B. var Hildi Guðnadóttur innan handar við tónsmíðar fyrir Jókerinn og þá var hann innsti koppur í búri handboltalandsliðsins í Peking 2008, knattspyrnuliðanna allra á EM 2009, 2013 og 2016 og HM 2018.

Í báðum tilfellum hjálpaði bakgrunnur hans í læknavísindum mikið til. Sömu sögu má að sjálfsögðu segja af því þegar Vilborg Arna fór á hæsta tind veraldar, það var auðvitað færni læknisins að þakka. Hann er með öðrum orðum hetjan sem Ísland þarf en ekki sú sem við eigum skilið.

Þessi talning hetjudáða borgarstjórans er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Það sem gerir hana enn merkilegri er að þetta afrekar hann allt á meðan hann leggur hjólastíg í götu einkabílsins, eyðir biðlistum í leikskóla og passar að rekstur borgarinnar sé betri en hann hefur nokkru sinni verið. Svei þeim sem draga það í efa að afkoma borgarinnar sé með besta móti og fyrirtæki hennar og stofnanir séu fyrirmyndarfélög með frábæra skuldastöðu.

Staða borgarinnar er raunar svo góð að sveitarfélagið hefur farið þess á leit við ríkið að hún fái á þriðja tug milljarða króna í framlög frá því á þessu ári og því næsta. Að sjálfsögðu hefur læknapróf Dags „hjálpað honum“ hér sem endranær og ekki dettur honum í hug að eigna sér þessi afrek frekar en þau fyrri sem nefnd voru til sögunnar. Geri aðrir betur!

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.