Óhætt er að segja að fréttir af fjármálum Markúsar Sigurbjörnssonar forseta Hæstaréttar hafi vakið nokkra athygli. Bæði það sem Helgi Seljan og félagar í Kastljósi á mánudagskvöld og það sem eftir fylgdi í Fréttablaðinu daginn eftir.

Málið var alls ekki nógu vel undirbúið hjá Kastljósi og í því voru ýmis göt og jafnvel misskilningur um grundvallaratriði. Aðalpunkturinn — að dómarinn hefði ekki gert grein fyrir fjárreiðum sínum eins og lög gera ráð fyrir — hafði einfaldlega ekki verið staðreyndur og reyndist síðan rangur. Eitt og annað fleira mætti til tína, en látum duga að nefna það, að í þættinum var ekki rætt við dómarann, sem um ræðir og þess ekki getið að reynt hefði verið að bera fréttina undir hann.

Um Fréttablaðið ætla ég að láta duga að nefna að sú ráðstöfun að birta ökuskírteini dómarans í stað venjulegrar myndar af honum á sér engin fordæmi. Og það var ekki bara eitthvert flipp, það var Andri Ólafsson aðstoðarritstjóri, sem skrifaði forsíðufréttina.

En hvað er hér eiginlega á seiði? Björn Bjarnason (m.a. fv. aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins) segir tilefni birtingarinnar það að tengja hæstaréttardómara við Glitni-banka fyrir hrun í þeim tilgangi að ófrægja þá í þágu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem ráði því enn hvað birtist á forsíðu Fréttablaðsins þegar mál honum tengd eru til meðferðar í dómskerfinu. Hann nefnir og að aðalritstjóri blaðsins sé mágkona verjanda Jóns. Sem vissulega er athygli vert.

En hvað skal segja þegar Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, sem þar réði ríkjum í Baugsmálinu, tekur í sama streng?

Aurum málið er leið upp í Hæstarétt og miðað við fyrri Hrundóma þar má telja líklegra en ekki að fyrrum aðaleigandi 365 (og núverandi maki aðaleiganda) hljóti þar fangelsisdóm. Hans helst von er að ryðja dóminn. Þeir hagsmunir virðist ráða forsíðum Fréttablaðsins þessa dagana.

* * *

Varla hefur farið fram hjá neinum að stjórnarmyndunarviðræður hafa nokkuð teygst á langinn, en það er varla að annað hafi komist að í fréttum vikum saman. Tja, fyrr en eftir að mönnum leiddist þófið, settu stjórnarmyndunina á ís (Píratar fengu umboðið og hafa aðallega notað tímann til þess að semja við sjálfa sig um framhaldið, sýnist manni!). Um leið var þingið kvatt saman til þess að fjalla um blessuð fjárlögin.

Fjölmiðlarýnir var samt frekar hissa þegar hann hlustaði á kvöldfréttir Ríkisútvarpsins á þriðjudag, þar sem Kári Gylfason fór yfir hið markverðasta í fjárlagafrumvarpinu og af því tilefni rætt við formann Vinstrihreyfingarinnar — Græns framboðs, sem hafði það helst til málanna að leggja að ekki væri búið að „fjármagna“ helstu áhugamál hennar.

Látum nú vera hið augljósa, að Alþingi segir sitt síðasta orð með fjárlögum. Einhverjar þingsályktanir um samgöngumál ganga þeim ekki framar. Hvað þá einhverjar pólitískar áherslur eða uppáhöld, hvort sem í hlut eiga stjórnarþingmenn eða stjórnarandstæðingar. Fjárlögin eru lokaheimildin um greiðslur úr ríkissjóði og ganga jafnvel fyrri lögum framar.

En hitt er erfitt að skilja hvers vegna formaður eins stjórnmálaflokks var fenginn í kvöldfréttir til þess að tjá sig um fjárlagafrumvarpið öðrum fremur. Og ekki látið svo lítið að ræða við fjármálaráðherra um málið. Frekar sérstakt.

* * *

Annars þarf ekki fréttir af fjárlagafrumvarpinu til þess að almenningur verði þess var að verið sé að véla um fjármuni þeirra. Fjölmiðlar — og þar er Ríkisútvarpið í algerum sérflokki — fylltust á svipstundu af „fréttum“ um yfirvofandi neyðarástönd hér og þar í þjóðfélaginu, en viðkomandi stofnanir reynast fyrir ótrúlega tilviljun allar vera háðar fjárveitingum úr vösum skattgreiðenda.

Nú má vel vera (fyrir einhverja aðra ótrúlega tilviljun) að þetta sé allt satt og rétt. Samt sem áður blasir það við, að viðkomandi fjölmiðlar eru að láta nota sig í baráttu hinna og þessara þrýstihópa eða stjórnenda hjá ríkinu fyrir auknum fjárveitingum.

Látum þrýstihópana vera, þeir eiga hlut að máli, en hafa takmarkaðan aðgang að ákvarðanatökunni og eiga að fá áheyrn. Um stjórnendurna gegnir öðru máli. Þeir eru beinlínis að notfæra sér miðlana til þess að búa til þrýsting á löggjafann og ná því fram, sem ekki tókst eftir hefðbundnum og heiðarlegum leiðum við fjárlagavinnuna.

Fjölmiðlarnir verða að vera gagnrýnni þegar ríkisforstjórarnir hringja grátbólgnir með bænafréttaskot sín til þess að skara eld að sínum kökum.