Allir áhugamenn um skapandi reikningsskil bíða spenntir eftir ársreikningi Reykjavíkurborgar 2022 sem birtur verður í mars. Sem kunnugt þá var afkoma Reykjavíkurborgar sögð vera langt fram yfir væntingum fram að síðustu borgarstjórnarkosningum og fæli í raun í sér tímamótaafrek við rekstur sveitarfélaga. Síðan féllu Pótemkíntjöldin. Allir sem vilja sjá að fjárhagurinn er rjúkandi rúst.

Hrafnarnir telja að staðan sé í raun verri en það og velta fyrir sér hvernig framsetningin verður í uppgjöri síðasta árs. Veigamikla skýringu þess að afkoma samanlagðs A og B-hluta borgarinnar leit ágætlega út í uppgjöri fyrstu níu mánaða ársins má finna í matsbreytingum á eignum Félagsbústaða. Þó svo að félagið standi ekki í því að kaupa og selja íbúðir bókfærir það eignir sínar á gangvirði en ekki kostnaðarverði. Þannig námu matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða um tuttugu milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í útkomuspá Reykjavíkurborgar um reksturinn 2022 sem birt var í nóvember er gert ráð fyrir að matsbreytingar Félagsbústaða muni skila um 28,9 milljörðum. Ljóst er að erfitt verður að kokka upp þessa rúmu átta milljarða sem vantar upp á heildarvirði matsbreytinga samkvæmt útkomuspá. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur farið lækkandi.

Eins og fram kemur hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun í vikunni hefur vísitalan lækkað um 1,4% síðustu þrjá mánuði og 0,5% sé horft til síðustu sex mánaða. 28 milljarða hækkun á eignasafni Félagsbústaða á árinu 2022 samsvarar ríflega 23% hækkun á fasteignaverði á árinu 2022. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 17,4%. Áhugavert verður að fylgjast með hvort fasteignir Félagsbústaða séu metnar verðmætari en aðrar fasteignir á höfuðborgarsvæðinu við uppgjör ársins 2022.

Fleiri bókhaldsbrellur gætu orðið borgarbúum dýrkeyptar. Eins og fram kemur í ársuppgjöri Landsvirkjunar seldi félagið hlut sinn í Landsneti til ríkisins fyrir um 44 milljarða í fyrra. Orkuveita Reykjavíkur á tæplega sjö prósenta hlut í Landsneti og byggt á verðmiðanum í sölu Landsvirkjunar til ríkissjóðs er er eignarhluturinn Orkuveitunnar um 4,5 milljarða virði. Eignarhluturinn er hins vegar færður til bókar á um 6 milljarða í ársreikningi Orkuveitunnar árið 2021. Miðað við verðmiðann í viðskiptum Landsvirkjunar og ríkisins er eignarhlutur Orkuveitunnar ofmetinn um 1,5 milljarða í bókum fyrirtækisins. Kannski ekki skrítið að Orkuveitan sé eini eftirstandandi eigandi Landsnets sem ekki hefur selt sinn eignarhlut til ríkissjóðs líkt og Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða hafa þegar gert.

Skelkaðir skuldabréfaeigendur

Grafalvarleg staða er upplýstum fjárfestum ljós. Það sést best á skuldabréfamarkaðnum en ávöxtunarkrafan á skuldabréfaflokk borgarinnar, RVKN 35, er komin í 8,84% þegar þetta er skrifað. Hrafnarnir velta því fyrir sér hvort að Einar Þorsteinsson nái hreinlega að taka við sem borgarstjóri áður en að Sigurður Ingi Jóhannsson sveitastjórnarráðherra tilnefnir tilsjónarmann í fjármálum vegna stöðunnar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.