*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Týr
18. apríl 2017 10:03

Dauðakippir Samfylkingarinnar

Hver ætlar að sinna krötunum þegar Samfylkingin er við það að leggja upp laupana?

Haraldur Guðjónsson

Samfylkingin fékk árið 2003 rétt rúmlega 30% fylgi í alþingiskosningum, þá undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Össur var felldur í formannskjöri árið 2005, flokkurinn fór í ríkisstjórn árið 2007 og sat samfellt til ársins 2013. Sem kunnugt er veitti flokkurinn ríkisstjórn forystu árin 2009-2013 – en það mætti segja að frá þeim tíma hafi leið flokksins legið samfellt niður á við. Frá því að Össur var felldur sem formaður hafa fimm einstaklingar leitt flokkinn, í flestum tilvikum niður á við.

* * *

Oddný G. Harðardóttir var óvænt kjörinn formaður flokksins á síðasta ári og leiddi flokkinn, eða gegndi a.m.k. formennsku í flokknum, í kosningunum síðasta haust.

* * *

Fyrir kosningarnar sl. haust varð Oddný hins vegar uppvís að fádæma kjánaskap þegar hún tók þátt í hinum svokölluðu Lækjarbrekkufundum sem leiddir voru af Pírötum. Til upprifjunar þá boðuðu Píratar alla vinstri flokkana á sinn fund í þeim tilgangi að mynda ríkisstjórn – fyrir kosningar. Sem betur fer mistókst sú tilraun, rétt eins og stjórnarmyndarviðræður sem leiddar voru af Pírötum eftir kosningar.

* * *

Nokkrum vikum áður hafði Oddný og Samfylkingin notað barn í pólitískri auglýsingu til að útskýra fyrir fávísum landanum hvað kvótakerfið væri ósanngjarnt. Allt þetta bar merki örvæntingar og þarna skorti alla pólitíska forystu. Hvorki formaðurinn né flokkurinn hafði nokkra stefnu til að bjóða fólki upp á og það að ætla að sænga hjá Pírötum var ekki heillandi fyrir þá aðila sem þó gátu hugsað sér að kjósa flokkinn. Enda kusu hann afar fáir.

* * *

Nú nýlega tók Oddný þráðinn upp á ný þegar hún biðlaði til sósíalista að taka ekki þátt í nýjasta gjörningi Gunnars Smára Egilssonar með því að ganga í nýstofnaðan Sósíalistaflokk Íslands heldur ganga til liðs við Samfylkinguna. Sósíalistar allra sveita áttu þannig að sameinast í Samfylkingunni - aftur.

* * *

Til að nefna enn eitt dæmið um brenglað raunveruleikamat Samfylkingarinnar hafa þeir þrír þingmenn sem eftir eru lagt fram þingsályktunartillögu þar sem þeir leggja til að endurreisa Þjóðhagsstofnun, 15 árum eftir að hún var lögð niður. Týr hefur áður fjallað um tilgangsleysi þess að endurvekja gamla og óþarfa stofnun og því óþarft að gera það hér.

* * *

Og enn má finna dæmin. Þegar fjallað var um nýlega skýrslu rannsóknarnefndar um einkavæðingu Búnaðarbankans fann núverandi formaður Samfylkingarinnar helst hjá sér þörf til að fjalla um það í þinginu hvort ekki væri rétt að nota orðið þungunarrof í stað fóstureyðingar. Talandi um tengslarof við raunveruleikann.

* * *

Allt stórskotalið Samfylkingarinnar, ef þannig má að orði komast, féll út af þingi í síðustu kosningum. Nú eru eftir þrír þingmenn og Samfylkingin minnsti flokkurinn á Alþingi. Flokkurinn þurrkaðist nánast út og það er ekkert sem bendir til þess að hann nái sér nokkurn tímann á strik á ný. Allavega er enginn af núverandi þingmönnum flokksins að fara að reisa hann við.

* * *

Týr hefur svo sem engan áhuga á því að nudda salti í sárin en það er engu að síður ástæða fyrir því að um þetta er fjallað hér. Líklega er eftirspurn eftir því sem kalla mætti norrænn jafnaðarmannaflokkur hér á landi – krataflokkur eins og við höfum þekkt hann í gegnum tíðina. Kratarnir vilja jöfnuð en þeir gera sér líka grein fyrir því að atvinnulífið þarf að fá að blómstra til að sá jöfnuður skapist. Kratarnir hata ekki Bandaríkin og Ísrael, þeir vita að Evrópusambandið er ekki upphaf og endir alls þess sem gerist í heiminum og þeir kæra sig lítið um nýjustu dramatíkina á Facebook eða á vefmiðlum. Þeir vilja öruggan vinnumarkað, öruggt samfélag og öruggt velferðarkerfi. Kratarnir eru í dag landlausir og þeir hafa engann áhuga á því að starfa með æsingarmönnunum í Pírötum eða tilgerðarlegum sósíalistum Gunnars Smára.

* * *

En þá er eftir spurningin, á meðan Samfylkingin er í dauðakippunum – hver ætlar að sinna krötunum?

Athugasemd.

Pistlinum hefur verið breytt. Sjá athugasemd ritstjóra

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.