*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Leiðari
26. apríl 2019 16:01

Dautt samkomulag lífgað við

Ekki er annað að sjá að ný verkalýðsforysta hafi fylgt Salek-samkomulaginu sem hún hugðist ganga frá dauðu.

Haraldur Guðjónsson

Þegar nýir verkalýðsforingjar tóku við boðuðu þeir ný vinnubrögð í kjarabaráttunni. Ragnar Þór Ingólfsson sagði Saleksamkomulagið vera dautt þegar hann tók við sem formaður VR í mars 2017. Í byrjun árs 2018 sagði Ragnar Þór að Gylfi Arnbjörnsson, þáverandi forseti ASÍ, vildi troða í gegn „gjaldþrota hugmyndafræði“ um hóflegar launahækkanir gegn vilja félagsmanna. Sólveig Anna Jónsdóttir hjó í sama knérunn þegar hún var kjörin formaður Eflingar ári á eftir Ragnari. „Það er svo augljóst að fólk vildi nýja forystu, nýjar áherslur og nýjar leiðir,“ sagði Sólveig Anna. Það yrði að hækka lægstu laun meira en önnur sem vel að merkja hefur verið áherslan nær undantekningarlaust í kjarasamningum í áraraðir.

Salek-samkomulagið, sem var þyrnir í augum nýrrar forystu, var á milli ASÍ, SA, stjórnvalda og opinberra stéttarfélaga og var undirritað í október 2015. Markmiðið var að reyna að færast nær kjarasamningsgerðinni sem þekkst hefur á Norðurlöndunum. Leggja ætti áherslu á að auka kaupmátt fremur en nafnlaunahækkanir á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. En hver var niðurstaðan?

Drap nýi lífskjarasamningurinn Salek-samkomulagið? Vandséð er að sjá að svo hafi verið. Salek-samkomulagið var fjórþætt sé horft á það sem sneri að almennum vinnumarkaði. Í fyrsta lagi var samið um að launahækkanir tækju mið af svigrúmi samkeppnis- og útflutningsatvinnuvega. Í nýjum kjarasamningum er tenging launahækkana við hagvöxt sem er í sama anda – að hækka ekki laun umfram það sem lykilatvinnugreinar þola. Gangi vel skipta atvinnurekendur og launþegar með sér auknum tekjum þjóðarbúsins.

Í öðru lagi átti að passa að þeir sem væru á taxtalaunum á almennum vinnumarkaði yrðu ekki skildir á eftir öðrum hópum. Það atriði lifir í nýjum kjarasamningum sem felur í sér ákvæði um launaþróunartryggingu. Það á að skila því að taxtalaun verði launaskrið á vinnumarkaði.

Í þriðja lagi átti að tryggja samvinnu stjórnvalda og vinnumarkaðarins með því að efla velferðarkerfið. Stjórnvöld hafa sagt framlag sitt til lífskjarasamninganna vera 80 milljarðar króna á samningstímabilinu. Meðal þess sem nefnt er í Salek-samkomulaginu var að styrkja atvinnuleysistryggingasjóð og fæðingarorlofssjóð. Greiðslur í þá hafa aukist undanfarið ár og bæta á frekar í á næstunni þegar kemur að fæðingarorlofsgreiðslum.

Í fjórða lagi var samið um stofnun þjóðhagsráðs þar sem áttu að sitja fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins til að stuðla að sameiginlegri sýn á vinnumarkaðinn og efnahagslífið. Eftir nokkuð brokkgenga byrjun á þjóðhagsráð þó að lifa áfram eftir kjarasamningana.

Önnur ákvæði sneru að samræmingu milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins, meðal annars með jöfnun lífeyrisréttinda sem lifa áfram og að miklar launahækkanir á almennum vinnumarkaði skiluðu sér í að laun opinberra starfsmanna hækkuðu til að halda aftur af hinu þekkta íslenska höfrungahlaupi. Opinberir starfsmenn eiga enn eftir að semja svo það á eftir að koma í ljós hvernig þeim þáttum samkomulagsins reiðir af.

Ekki er annað að sjá en að þrátt fyrir skarkalann í kjaraviðræðunum hafi hin nýja verkalýðsforysta einfaldlega fylgt þeim línum sem lagt var upp með í Salek-samkomulaginu, sem hún hugðist ganga frá dauðu.

Stikkorð: kjaramál Salek
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.