*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Jakob Falur Garðarsson
14. júlí 2016 17:01

Demantur í hættu

Beiðni um uppsetningu laxeldis í Jökulfjörðunum sýnir að skipulagsvald utan netalaga ætti að vera í höndum sveitarfélaga.

Horft í átt að Jökulfjarða frá Skutulsfirði. Ísafjarðarbær í forgrunni.
Haraldur Guðjónsson

Fyrir liggur umsókn fyrirtækis um heimild til laxeldis í Jökulfjörðum. Jökulfirðirnir og Hornstrandafriðlandið eru demanturinn í stórkostlegri náttúru Vestfjarða og einn sterkasti segull ferðaþjónustunnar á þessu svæði. Því er með ólíkindum að forsvarsmenn fyrirtækis sem byggir allt sitt á varfærinni umgengni við náttúruna láti sér til hugar koma að fara fram með hugmyndir sem þessar.

Þá er það ekki síður með ólíkindum að Ísafjarðarbær, sem landsvæðið tilheyrir, hefur ekkert með leyfisveitingar fyrir fiskeldi í Jökulfjörðum að gera þar sem fyrirhugaðar kvíar yrðu utan netalaga.

Í nýrri landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári er fjallað um skipulag haf- og strandsvæða. Þó ekki sé fast kveðið að orði þá er dregið fram að taka þurfi til í stjórnsýslunni og minnka árekstra á milli nýtingar- og verndarsjónarmiða.

Þarna er Alþingi í raun að segja að leyfismál vegna fiskeldis séu í ólestri. Ísafjarðarbær og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa barist fyrir skipulagsvaldi utan netlaga árum saman. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur knúið á um að settur verði lagarammi um skipulag og nýtingu strandsvæða og að sveitarfélög fái skipulagsvald að einni sjómílu en nú er miðað við netalög, sem eru 115 metrar frá stórstraumsfjöruborði.

Það að veita svo umdeildar heimildir meðan ekki er búið að setja skýrari ramma um skipulagsmálin má því ekki gerast. Að mínu mati eru framtíðarhagsmunir tengdir friðlandinu svo miklir að ekki kemur til greina að heimila laxeldi á svæðinu. Ef fyrstu áform fá að ganga eftir, má þá næst eiga von á því að sjá fiskeldiskvíar í Hesteyrarfirði, framan við gamla þorpið á Hesteyri, nú eða á Aðalvíkinni eða Hornvíkinni? Firðirnir, t.d. við Ísafjarðardjúp og í Arnarfirði, eru komnir í fulla vinnu, ef svo má segja, fyrir fiskeldið. Og það er frábært að sjá hve miklu lífi þessi atvinnugrein er að hleypa í samfélagið fyrir vestan.

En einhversstaðar verður að draga mörkin. Friðland og laxeldi fer ekki saman.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.