*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Leiðari
5. júlí 2019 12:43

Diet frjálslyndi

Það að sykurskattur sé yfirhöfuð til umræðu á Alþingi er til marks um að forræðishyggja sé talin æskileg, ef ekki sjálfsögð.

Haraldur Guðjónsson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýverið í ríkisstjórn hugmyndir sínar um að leggja sérstakan skatt á gosdrykki og sælgæti. Gagnrýni hefur komið fram og rök gagnrýnenda svo sterk og augljós að það sætir furðu að málið skuli vera til umræðu. Það að skatturinn sé korter í að verða að veruleika er óskiljanlegt.

Gagnrýni á skattinn hefur mátt sín lítils gagnvart áróðri fylgismannanna sem flestir eru opinberir starfsmenn. Áður en farið er í langferð er gott að vita til hvers ferðin er farin, sér í lagi þegar lagt er á óþekktar slóðir þar sem ótal sprungur leynast undir drifhvítu og sléttu yfirborði hins góða ásetnings. Er ferðalagið áhættunnar virði og er það líklegt til að skila árangri? Að sama skapi er ágætt að huga að grunninum áður en ráðist er í að taka efnislega afstöðu til mála og velta upp spurningum á borð við: Er forræðishyggja æskileg? Á ríkisvaldið að stýra neyslu í gegnum skattkerfið?

Fyrsta spurningin er mikilvæg, en svarið við þessari grundvallarspurningu ræður úrslitum um hvort ástæða sé til að fara með málið lengra. Hvað þá eyða í það dýrmætum tíma Alþingis og kostnaðarsömum tíma stjórnsýslunnar. Það að sykurskattur sé yfirhöfuð til umræðu á Alþingi er til marks um að innan stjórnsýslunnar og meðal þingmanna sé forræðishyggja talin æskileg, ef ekki sjálfsögð. Og það er áhyggjuefni. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi og flestir, ef ekki allir, þingmenn kenna sig við frjálslyndi. Það er mikil gæfa og ekki sjálfsagt. Sykurskattsmálið bendir hins vegar til þess að merking orðsins kunni að vera að gleymast. Grundvöllur og uppruni frjálslyndis er andstaðan við hvers kyns forræðishyggju og gildir þá einu hvort hún sé grundvölluð á forsendum trúar eða hagræðingar. 

Lykilatriðið sem oft vill gleymast í þessari gamalkunnu deilu frjálslyndis og forræðis er að afstaða með frjálslyndi er ekki það sama og andstaða við markmið forræðissinnans. Ásetningur og markmið þeirra er nær ávallt góð og fögur. Auðvitað er offita ekki góð og sykur er óhollur. Auðvitað er betra að sleppa því að reykja tóbak og drekka áfengi. Auðvitað er betra að börn hreyfi sig mikið frekar en lítið o.s.frv. En er sykurskattur á valdar vörur líklegur til að hafa tilætluð áhrif á takmarkaðan hluta sykraðra vara? Í þessu eins og fleiri málum er fræðsla líklegri til árangurs. Gosneysla hefur dregist saman á síðustu árum vegna fræðslu fremur en skattlagningu. Sama má segja um áfengisdrykkju ungmenna og reykingar sem hafa hríðfallið á síðustu árum eftir fræðsluátak.

Frjálslyndi felst í andstöðu við að valdi, þvingunum og stýringu sé beitt til þess að ná markmiðunum og þá sér í lagi valdi ríkisins. Ástæðurnar á bakvið þessa afstöðu eru fjölmargar (áhugasömum er bent á mannkynssöguna) en í tilfelli sykurskattsins, sem virðist svo léttvægur, er sennilega mikilvægast að skerpa á fótfesturökum og mikilvægi þess að grunnreglur á borð við „saklaus uns sekt er sönnuð“ og friðhelgi einkalífsins séu höfð að leiðarljósi.

Ef gengið er út frá því að rétt sé að beita sköttum og valdi til að stýra borgurunum, hvar liggja mörkin? Er þá ekki rétt að skattleggja fólk eftir hreysti og kjörþyngd? Mikið sjónvarpsáhorf er óhollt og ber því ekki að skattleggja sjónvörp sérstaklega? Og hvað með hveiti og fitu, er það ekki líka óhollt? Lýðræði hvílir á grunnreglum til að forðast flóðgáttir sem þessar og ekki að ósekju. Mikill kostnaður sem óæskilegur lífsstíll veldur hinu opinbera er oftar en ekki hornsteinninn í rökum forræðissinna og svo er einnig í tilfelli sykurskattsins. Hér eru menn á ákaflega þunnum ís og nægir í því sambandi að benda á að enginn lífsstíll er jafn kostnaðarsamur fyrir hið opinbera eins og langlífi. Ber okkur þá að skattleggja það sérstaklega?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.