Það er stundum sagt að margar hendur vinni létt verk. Það á ekki síður við um hið margslungna verkefni sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir – verðbólguna. Erfitt mun reynast að sporna gegn óhóflegri verðbólgu ef þeir sem vettlingi geta valdið dansa hver í sínu horni, jafnvel hver við sitt lagið.

Þrátt fyrir brattar stýrivaxtahækkanir seinustu misseri hefur ekki tekist að koma böndum á verðbólgu. Það er verulegt áhyggjuefni fyrir þjóðina sem er eftir nokkuð langt tímabil hóflegs vaxtastigs, enn á ný minnt á sársaukafullan kostnað þess að draga úr verðbólgu.

Afgerandi skref

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að hækka stýrivexti um eina prósentu sem þýðir að meginvextir bankans standa í 7,5%. Rök bankans fyrir hækkununum liggja meðal annars í því að verðbólguþrýstingur hafi aukist ásamt því að mælast á breiðari grunni en áður. Þá hafi ekki náðst að berja niður verðbólguvæntingar og raunvextir hafa lækkað frá seinasta vaxtaákvörðunarfundi. Að auki eru vísbendingar um að innlend eftirspurn sé jafnvel enn sterkari en gert var ráð fyrir. Með þessar aðstæður í huga er erfitt að sjá að nefndin hafi átt annarra kosta völ en að taka afgerandi skref í átt að verðstöðugleika.

Verkefni Seðlabankans vandast enn frekar dansi opinber fjármálastjórn og vinnumarkaðurinn ekki í sama takti og bankinn.

Vormánuðir ársins 2021 eru enn í fresku minni flestra, en þá stóðu stýrivextir í 0,75%. Fyrir vaxtalækkunarferlið sem hófst vorið 2019 stóðu þeir hins vegar í 4,5% og í 2,75% skömmu áður en heimsfaraldur skall á. Það er sannarlega skammt stórra högga á milli og hlýr faðmur lágvaxtaumhverfisins virðist nú fjarlægur draumur.

Markmið Seðlabankans er hins vegar skýrt. Lögum samkvæmt ber honum að stuðla að stöðugu verðlagi, það er, að halda árlegri verðbólgu að jafnaði sem næst 2,5%. Helsta verkfæri bankans í þeim efnum eru stýrivextir en þeir mega sín lítils einir og óstuddir gegn verðbólgunni. Að beita vaxtatækinu er vandasamt, enda tekur það tíma fyrir vaxtabreytingar að hríslast um hagkerfið og sú hætta ávallt til staðar að ekki komi í ljós fyrr en of seint þegar of langt er gengið í þeim efnum. Verkefni Seðlabankans vandast enn frekar dansi opinber fjármálastjórn og vinnumarkaðurinn ekki í sama takti og bankinn.

Hið opinbera leggi sitt af mörkum

Það vekur sérstaka athygli að peningastefnunefnd minntist ekki á stöðu ríkisfjármála þó að stutt sé í birtingu fjármálaáætlunar, en vart er hægt að segja að ríkisfjármálin hafi stutt við verðbólgumarkmið að undanförnu.

Sveitarfélög eru alveg sér kapítuli sem flestir hafa afskrifað. Margt jákvætt hefur áunnist í ríkisrekstri á síðustu árum og því ber að fagna. Vel tókst til við að sporna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum af aðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs, kom hagkerfið umtalsvert betur frá áfallinu heldur en óttast var. Halli á rekstri hins opinbera er þó enn nokkur, og meiri en tilefni er til í miklum hagvexti.

Nú þegar þensla er í hagkerfinu og verðbólga á ferð og flugi er æskilegt að hið opinbera leggi sitt af mörkum með því að draga saman seglin, rétt eins og það gaf hagkerfinu byr undir báða vængi í niðursveiflunni.

Peningastefnunefnd viðrar aftur á móti áhyggjur sínar í yfirlýsingu sinni af því að víxlverkun hækkandi launa og verðlags komist á skrið, það gamalkunna stef úr íslenskri hagsögu. Þar sem stutt er í næstu kjarasamningalotu er mikilvægt að komast fyrir slíka þróun.

Samninganefndir hins opinbera, sem ganga frá kjarasamningum á næstu dögum, geta ekki litið fram hjá þunga í skilaboðum Seðlabankans og verða að virða þá línu sem almennur markaður hefur samið um. Sama gildir um fjármálaáætlun og stjórnvöld gætu lagt þung lóð á vogarskálarnar gegn verðbólgu með aðhaldssamari stefnu en nú liggur fyrir. Annað er ígildi falleinkunnar.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023.