*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Andrés Magnússon
13. maí 2018 13:43

Dómadagsvitleysa

Nýr dómur sýnir fágætan skilning á vinnubrögðum fjölmiðla — sneypuför RÚV.

Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur staðfesti á fimmtudag síðastliðinn sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Sigmundi Erni Rúnarssyni, dagskrárstjóra á Hringbraut, sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði á hendur honum vegna ummæla um sig á Hringbraut, en þar sagði m.a. að hann væri talinn „íslenskur eiturbarón í Suður-Ameríku“.

Í dómi Hæstaréttar sagði að umfjöllun Hringbrautar hefði byggst á frétt Ríkisútvarpsins (RÚV) um málið, líkt og tekið hefði verið fram. Hann hefði ekki haft ástæðu til að efast um að RÚV (og ABC Color, eitt helsta dagblað í Paraguay, sem RÚV vísaði til) hefðu gætt grundvallarreglna við gerð frétta sinna.

Þetta er réttur dómur, en í honum kemur raunar fram fágætur skilningur dómstóla á vinnubrögðum fjölmiðla.

                              ***

Málaferli Spartakusar voru þó langt í frá svo einföld, því hann stefndi RÚV fyrir sömu sakir. Þá brá hins vegar svo við, að RÚV samdi við hann utan réttarsala um greiðslu 2½ milljón króna bóta vegna fréttarinnar, án þess að játa sök.

Það samkomulag vakti bæði athygli og verulega gagnrýni, ekki síst af hálfu fjölmiðlamanna. RÚV vildi hins vegar ekki greina nánar frá efni samkomulagsins og bar við trúnaði við Spartakus.

Fréttablaðið undi ekki þessum svörum, gekk fram fyrir skjöldu og kærði RÚV til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem úrskurðaði fyrir mánuði að RÚV mætti ekki leyna samkomulaginu og fallist var á rök Fréttablaðsins um að það mætti ekki vera samningsatriði hvort fréttaflutningur sé réttur eða rangur. – Hafi fréttin verið röng, þá verði að upplýsa almenning um það og draga fréttina til baka með auðmjúkri afsökunarbeiðni. En hafi fréttin verið rétt og vinnubrögðin í stakasta lagi, þá hljóti fréttastofan að standa við fréttina og láta vera að borga umfjöllunarefninu stórfé (mun meira fé en sennilegt má telja að hann gæti vænst með sigri í meiðyrðamáli).

                              ***

Þetta var einstök sneypuför fyrir Ríkisútvarpið og fréttastofu hennar, meðal annars í ljósi málalykta Sigmundar Ernis. Umfram allt er þó trúverðugleiki fréttastofunnar stórskaddaður, að ekki sé minnst á dómgreind yfirstjórnar RÚV. Sú staðreynd að fréttastofan kaus að kaupa sig frá því að verja fréttina í réttarsölum sýnir að hún taldi sig hafa sagt ranga frétt, vildi þó hvorki leiðrétta hana, draga hana til baka né játa á sig mistök. Vildi bara borga, brosa og beita þá þöggun sem dirfðust að spyrja út í málið!

Það væru einstaklega vond viðbrögð hjá hvaða fyrirtæki sem væri. Fyrir fjölmiðil, sem á allt sitt undir trausti almennings, ber að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan, þá er það fullkomlega galið. Næstum jafngalið og að fréttastjóri og útvarpsstjóri hafi ekki lagt fram uppsagnarbréf, því þetta snýr að grunngildum fjölmiðla og sérstökum tilgangi Ríkisútvarpsins.

                              ***

Þó ofangreint sé aðalatriði málsins, þá er það margslungnara en svo. Það varðar líka stjórnun og ábyrgð í rekstri opinberra í eigu og þágu almennings. Einu gildir þó það sé opinbert hlutafélag (ohf.), það er eftir sem áður í eigu almennings og rekið á ábyrgð hans. Það á raunar sérstaklega við um RÚV í ljósi þess hversu oft skattgreiðendur hafa þurft að hlaupa undir bagga með því. Reyndar mætti segja að þetta mál dragi vel fram brotalamirnar í því rekstrarfyrirkomulagi, þar sem ábyrgðin er óljós, stjórn fyrirtækisins veik og taumhald eigenda ekkert. Menntamálaráðherra hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki sé tímabært að endurskoða formlega umgjörð Ríkisútvarpsins, auk þess sem ábyrgð stjórnenda hlýtur að koma til tals.

Um þátt þeirra í málinu er þó flest á huldu enn. Ætli Ríkisútvarpið áfram að sveipa sig þagnarhjúpi mun það þó aðeins gera illt verra og gera inngrip ráðuneytisins (og síðar Alþingis) óhjákvæmileg. — Svo óvenjuleg fjárútlát kalla á skýringar hjá hvaða fyrirtæki sem væri og þær eiga beint og milliliðalaust erindi við eigendurna, almenning.

Þá skiptir í raun litlu hvort rekja megi málið til mistaka, vondra eða óvarlegra vinnubragða á fréttastofu, mats lögfræðinga eða fjármálastjóra, hugleysis yfirstjórnar eða einhvers verra. Almenningur þarf að vita hvað lá þar til grundvallar og hver ber ábyrgðina, burtséð frá því hvernig málið svo lagðist. – Því auðvitað skapaði þetta fordæmi, verður öðrum málsaðilum frétta til eftirbreytni og hefur án nokkurs vafa kallað á meiri tæpitungu í fréttaflutningi, beint eða óbeint. Sem veldur ekki aðeins Ríkisútvarpinu óbætanlegum skaða á ótal sviðum, heldur grefur það undan fjölmiðlun í landinu og upplýsingu almennings.

                              ***

Forsíðufrétt Fréttablaðsins á mánudag var um málaskrá dómstóla, sem svona fyrirfram er ekki beint æsispennandi efni. Fréttin var samt forvitnileg, því útgangspunkturinn var nýlegur dómur, þar sem fallist var á að sérstakur saksóknari hefði mátt leita á náðir Héraðsdóms Vesturlands um hlerunarheimild, því Héraðsdómur Reykjavíkur væri fjölmennur vinnustaður, málaskráin öllum opin og meiri hætta á að hlerunarheimildin spyrðist út.

Í fréttinni var einnig vikið að því að ekki væri unnt að rekja leit starfsmanna eða aðrar aðgerðir, svo sem afritun eða útprentun gagna úr skránni. Það standi þó til bóta með nýju kerfi. Allt tækir fréttapunktar, en þeir standa þó varla undir aðalforsíðufrétt útbreiddasta dagblaðs landsins.

En það gerði fyrirsögnin hins vegar svo sannarlega:

Starfsmenn dómstóla
leka trúnaðargögnum

Í undirfyrirsögn var svo bent á að dæmi væru um að lýsingar á áverkum á kynfærum kvenna væru opnar öllum starfsmönnum dómstóla. Ekki er að efa að það hefur vakið áhuga marga lesenda, sennilega hneykslun líka.

Vandinn er sá að ekkert í fréttinni styður fyrirsögnina. Auðvitað er ekki útilokað að einhverjir starfsmenn leki trúnaðargögnum, en í fréttinni er ekkert dæmi þess rakið. Aðeins þetta með varúðarráðstöfun sérstaks saksóknara, sem er svolítið annað.
Þannig að forsíðufyrirsögnin er ekki aðeins villandi, hún er beinlínis röng.

Ekki bætir úr skák þessi punktur um kynfæraáverka kvenna. Þar var tiltekið að dæmi væru um að þær lýsingar væru opnar öllum starfsmönnum dómstóla, en það voru engin sérstök dæmi nefnd um það. Aðeins hið almenna, að allir starfsmenn dómstóla hafi aðgang að öllu því, sem í málaskránni er. Þar er auðvitað alls kyns viðkvæmar upplýsingar að finna; um alls kyns áverka, nöfn brotaþola jafnt og sakborninga, lýsingar á bæði glópsku og vonsku, heilbrigðisupplýsingar og niðurstöður geðrannsókna, hryllilegar og niðurlægjandi atvikalýsingar úr vitnaleiðslum og þar fram eftir götum.

En af hverju í ósköpunum voru þá upplýsingar af þessu tiltekna tagi dregnar sérstaklega fram? Og sérstaklega tekið fram að dæmi væru um að þær væru öllum opnar? Þar var augljóslega verið að gefa í skyn _ án þess að segja það _ að dæmi væru um að einhverjir starfsmenn dómstóla landsins hefðu leitað slíkra upplýsinga af annarlegum hvötum. Án þess að nokkuð liggi fyrir um slíkt.

Af niðurlagi fréttarinnar má enda ráða að blaðið hafði ekkert fyrir sér um það, annað en orð Helgu Völu Helgadóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem nefndi þær upplýsingar sem dæmi um viðkvæmar upplýsingar í málaskránni, en var ekki að gefa neitt til kynna að óeðlileg ásókn væri í þær af starfsmönnum dómstóla, líkt og látið var liggja að í undirfyrirsögn og dregið fram í upphafi fréttarinnar.

Það er ekki boðlegt að Fréttablaðið villi um fyrir lesendum sínum með þessum hætti og láti að því liggja að einhverskonar staðfesting hafi fundist um bæði spillingu og siðspillingu meðal starfsmanna dómsins. Það er rógur um þá og til þess fallið að rýra traust almennings til dómstóla.

Allt til þess að djassa upp 2. flokks innsíðufrétt á forsíðu, af því að það var rólegur fréttadagur eða eitthvað.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.