*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Týr
12. febrúar 2018 10:21

Dómar dómara

Ótækt er að dómarar dæmi í eigin sök og jafngalið að þeir velji sér samstarfsmenn.

Haraldur Guðjónsson

Sirkusinn vegna dómaraskipunar heldur áfram einn mánuðinn enn, eitt árið enn, einn áratuginn enn. Í þessum síðasta þætti deilunnar um dómarana er tekist á um skipan dómara í hinn nýja Landsrétt. Framkvæmdavaldið skipar, svona yfirleitt, þó að þessu sinni hafi löggjafinn átt þar aðkomu, því lögin um hinn nýja rétt gerðu ráð fyrir þeim afbrigðum þegar skipuð væri slík dómaragomma. Á hinn bóginn vill dómsvaldið (eða ráðandi öfl innan þess) sjálft ráða því hverjir veljast til dómstarfa.

                                                                     ***

Það er algerlega ótækt að dómarar dæmi í eign sök og það er jafngalið að þeir velji sér samstarfsmenn. Það er vísasti vegurinn til klíkumyndunar, skjólstæðingakerfis og spillingar í dómskerfinu. Má það þó ekki við miklu í þeim efnum fyrir, í litlu landi með fámenna lögfræðingastétt og enn minna dómskerfi, þar sem frændsemi og mægðir liggja þvers og kruss, allir kollegar kunningjar ef ekki meira.

                                                                     ***

Það hefur því verið grátbroslegt að fylgjast með fréttum af vinnubrögðunum við hæfismötin öll, þar sem menn hafa reiknað út stigagjöf við þriðja aukastaf til þess að skilja milli feigs og ófeigs, þeirra sem eru í náðinni og hinna, en vægi helstu matsþátta svo breytt eftir þörfum háyfirdómararanna hverju sinni.

                                                                     ***

Þessi aðferð er auðvitað einstaklega hæpin, eins og umboðsmaður Alþingis hefur fundið að. Alveg burtséð frá því er merkilegt að við matið er horft til kunnáttu og reynslu af ýmsu tagi, en þar er ekkert rými til frábendingar. Er við hæfi að fólk, sem hefur fengið stórfenglegar afskriftir upp úr hruni, handlangað fyrir kröfuhafa, valdið skjólstæðingum tjóni fyrir afglöp, spillt kosningum eða ámóta, sé sveipað dómaraskikkju, bara ef það er tikkað í nógu mörg önnur box? Miðað við aðferðina yrðu engir slíkir vankantar til þess að dómnefndin mikla drægi af nokkrum umsækjanda stig eða léti umsóknina einfaldlega hljóðlaust í körfuna.

                                                                     ***

Vandinn er sá að aðferðin sjálf er röng. Dómaraembætti kalla á menntun, hæfileika, reynslu og ótal margt fleira, þar á meðal óræða eðliseiginleika á borð við ráðvendni, vísdóm og farsæld, sem engin leið er að slá máli á með neinni reiknireglu, en flest fólk á auðvelt að meta með málefnalegum hætti. Jafnvel dómarar. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is