*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Týr
16. júlí 2018 18:03

Dómaraskandall

Vandræði með dómaraskipan á Íslandi eru orðin frekar þreytandi og ekki til þess fallin að styrkja dómsvaldið.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður skrifaði á dögunum grein í Fréttablaðið, þar sem hann skaut til hægri og vinstri í umfjöllun um skipan dómara í Landsrétt og bar hana saman við uppnám vegna dómaramála í Póllandi og Tyrklandi, þar sem framkvæmdarvaldið leitast við að ryðja dómstóla landsins. Samanburðurinn er tilhæfulaus og fráleitur, en auðvitað er Villa frjálst að veifa þeim trjám, sem honum henta, í erindrekstri fyrir skjólstæðinga sína. Jafnvel á síðum blaðanna ef verr gengur í dómssölum.

***

Hitt er hins vegar afleitt, að lesa það haft eftir Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, formanni Dómarafélags Íslands, að hún taki undir þetta, að þar með séu „auðvitað viss líkindi, sérstaklega með Póllandi, sem vekja með manni ákveðin hugrenningatengsl“. Það bendir óneitanlega til alvarlegs dómgreindarskorts, hugaræsings eða vísvitandi rangfærslna, sem engum dómara er sæmandi.

***

Vestan úr Bandaríkjunum berast fréttir af tilnefningu á nýjum hæstaréttardómara, en þar gangast menn fölskvalaust við hinu pólitíska eðli þriðju greinar ríkisvaldsins, sem einatt þarf að fást við hápólitísk mál. Gott betur raunar, því ríkisskipanin vestra hvílir öll á mörkum og mótvægi greina ríkisvaldsins, þar sem þær eru skýrt aðgreindar en veita hver annarri aðhald. Þannig er það hins pólitíska forseta að skipa hæstaréttardómara, en þó ekki nema öldungadeildin staðfesti hana og þar gilda fleiri lögmál en hin flokkspólitísku. En dómsvaldið er hið eina, sem ekki hefur neina aðkomu að skipun dómara. Af því að dómarar eiga ekki að hafa sjálfdæmi frekar en aðrir í eigin sök.

***

Þessi vandræði með dómaraskipan á Íslandi eru orðin frekar þreytandi og ekki til þess fallin að styrkja dómsvaldið. Ekki síst vegna frekju dómaranna um að fá að hafa sinn fína klúbb í friði, þar sem lítil klíka fær öllu ráðið. Það eitt gefur mjög ákveðna vísbendingu um að þeir séu óhæfir til þess að gæta laga og réttlætis, vera hinsta vörn borgarans gegn órétti. Væri ekki réttara að fara að fordæmi Bandaríkjamanna um hana, að eftirláta ráðherra að tilnefna, en þó aðeins ef þingið staðfestir með auknum meirihluta? Dómararnir haldi sig hins vegar við það að dæma í réttarsölum í stað þess að vera uppteknir við að handvelja vini sína og þæga undirsáta í lausa stóla dóma landsins.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is