*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Týr
7. mars 2021 11:32

Dómaraskandall

„Það vakti athygli Týs að einn dómaranna við Landsrétt var Skúli Magnússon“

Haraldur Guðjónsson

Í mars árið 2012 veitti Ingveldur Einarsdóttir, þá dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, húsleitarheimild í nokkrum fyrirtækjum vegna meintra brota útgerðarfélagsins Samherja á lögum um gjaldeyrismál. Eitt af þessum fyrirtækjum reyndist skipasmíðastöð í Póllandi, sem hafði orðið gjaldþrota þremur árum áður, og tengist Samherja ekki með nokkrum hætti. Tvö félaganna voru bresk ráðgjafafyrirtæki sem höfðu engin tengsl við Samherja. Dómarinn virðist ekki hafa sannreynt þau gögn sem Rannveig Júníusdóttir, þá lögfræðingur Seðlabankans, lagði fram til grundvallar húsleitinni. Rannveig er í dag framkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans og Ingveldur er dómari við Hæstarétt.

* * *

Í desember sl. sendi Finnur Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, tölvupóst til vakthafandi dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem þess var krafist að KPMG yrði skylt að veita upplýsingar og afhenda endurskoðunargögn um Samherja og dótturfélög í samstæðu Samherja frá þeim tíma sem Samherji var viðskiptavinur KPMG. Eftir að hafa rætt við saksóknarann í síma, tók Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kröfuna fyrir og kvað upp úrskurð „að saksóknara fjarstöddum“ og án þess að óska eftir nokkrum rannsóknargögnum um málið. Hröð og góð afgreiðsla, þ.e. fyrir saksóknarann.

* * *

Landsréttur hefur nú ógilt úrskurð Héraðsdóm og vísað málinu aftur heim í hérað. Það vakti athygli Týs að einn dómaranna við Landsrétt var Skúli Magnússon, fv. formaður Dómarafélags Íslands. Skúli hefur oft komið dómurum landsins til varnar, til dæmis þegar fjallað var um hlutabréfaeign þeirra dómara sem dæmt höfðu mennina sem töpuðu peningunum þeirra í fangelsi. Skúli og aðrir dómarar gátu þó ekki réttlætt þessi vinnubrögð Ingibjargar, eins og harðorður úrskurður Landsréttar ber með sér.

* * *

Pólitíkin hefur ekki miklar áhyggjur af því hvernig hlerunar- eða húsleitarheimildir eru yfirleitt veittar, þó þar reyni virkilega á réttindi borgaranna. Í þessari viku hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þó varið tveimur fundum í að fjalla um símtal ráðherra við lögreglustjóra á aðfangadag. Vonandi lætur nefndin sjónarmið um fagleg vinnubrögð dómara ekki trufla þá mikilvægu vinnu sína.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.