*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Týr
14. febrúar 2021 12:57

Dómari missir kúlið

Þagnarmúr hæstaréttardómara rofnaði skyndilega um nýliðna helgi þegar Hæstiréttur sýknaði Jón Steinar Gunnlaugsson.

Þagnarmúr hæstaréttardómara rofnaði skyndilega um nýliðna helgi þegar Hæstiréttur sýknaði Jón Steinar Gunnlaugsson í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, höfðaði gegn honum vegna ummæla sem Jón Steinar lét falla í bók sinni Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun.

                                                              ***

Eftir að Benedikt tapaði málinu á þriðja dómsstigi missti hann kúlið eins og sagt er og fór mikinn í fjölmiðlum. „Jón Steinar er angi af þeirri ógeðfelldu og öfgafullu umræðu sem á undanförnum árum hefur einkennt samfélagið bæði hér og víða annars staðar og fer langt út fyrir öll velsæmismörk,“ sagði Benedikt í samtali við Fréttablaðið. Þá sagði hann einnig að Jón Steinar hefði um langt skeið reynt að „grafa undan dómstólum landsins og leitast við að rýra traust þeirra“ og fyrir það vildi hann draga hann til ábyrgðar. Benedikt kallaði eftir eftir „opinni umræðu um stöðu dómsvaldsins“, þó ekki um réttarfarsmál heldur „hvernig betur megi verja það gegn niðurrifi af þessu tagi“.

                                                              ***

Það er undarlegt markmið forseta Hæstaréttar að vilja „draga menn til ábyrgðar“ fyrir að fjalla öðruvísi um réttarkerfið en með þeim hætti sem honum þóknast. Nú hefur Jón Steinar, í ræðu og riti, varpað fram spurningum og gagnrýni á réttarkerfið í tæp 40 ár. Menn geta verið sammála eða ósammála honum með einstaka þætti og fært rök fyrir því, en Týr hefði haldið að það væri réttarkerfinu – og þeim sem innan þess starfa – bæði hollt og gagnlegt að ræða og takast á um réttarfar og lögfræðileg málefni.

                                                              ***

Hæstaréttardómarar hafa fram til þessa reynt að verjast allri gagnrýni á störf sín með þögninni einni saman. Af tvennu illu er kannski skárra að þegja heldur en að hlaupa í tilfinningalegu uppnámi í fjölmiðla. Forseti Hæstaréttar ætti öllu jafna að hafa burði til að takast á um réttarfarsmál í ræðu og riti eins og Jón Steinar hefur gert í áratugi.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.