Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á fimmtudag um Alvotech og dómgreind Róbert Wessman. Hér á eftir er stutt brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Hvers vegna þessi mikla trú?

Nú veltir Óðinn því fyrir sér hvers vegna fjárfestar höfðu þessa ofurtrú á Alvotech. 

Sú saga hefur verið lífseig í viðskiptalífinu, og fyrrum eigendur Actavis raunar haldið því fram, að minnsta kosti í tveggja manna tali, að undir lok stjórnartíðar sinnar hjá félaginu hafi Róbert Wessman verið of upptekinn af sínum eigin fjárfestingum í stað þess að reka félagið.

Skemmst er að minnast þess að tæpri viku áður en ríkið tók yfir Glitni banka keypti Róbert persónulega hlut í bankanum fyrir tæpa 6 milljarða króna, sem nam þá 2,5% hlutafjár.  Margir í íslensku viðskiptalífi voru hissa á þessu enda var þetta afar slæm fjárfesting, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á þessum tíma voru líklega 99,7% líkur á að Glitnir banki myndi ekki lifa veturinn af. Er gests augað glöggt?

Viðskiptablaðið fjallaði um tilraunir Alvotech til að fá markaðsleyfið í frétt þann 5. október. Þar sagði:

Stjórnendur lyfjafyrirtækisins Alvotech eru bjartsýnir á að þeim takist að fá tilskilin leyfi frá FDA, matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, þannig að fyrsta lyf félagsins komi út í Bandaríkjunum á tilsettum tíma, í júlí á næsta ári. Í byrjun septembermánaðar upplýsti Alvotech um að FDA hygðist ekki veita Alvotech framleiðsluleyfi fyrr en bætt yrði úr athugasemdum eftirlitsins sem byggðu á heimsókn FDA í verksmiðju Alvotech hér á landi í mars síðastliðnum.
Í samantekt FDA sem birt var um miðjan september er bent á þrettán atriði hjá Alvotech sem snúa m.a. að framleiðsluferlum, aðgerðaráætlunum, hvernig tekist sé á við frávik í framleiðslunni sem og að dæmi væru um að bakteríur og mygla hefðu mælst yfir viðmiðunarmörkum.

Misbjartsýnir greinendur
Í kjölfar tilkynningar Alvotech um athugasemdir FDA lækkaði Andrew Baum, greiningaraðili Citi, verðmat sitt á Alvotech úr 12 dollurum á hlut í 5 dollara á hlut eða um 58% og mælti með sölu á bréfum í félaginu. Alvotech þyrfti að endurheimta traust fjárfesta og útskýra betur afstöðu FDA gagnvart félaginu. Hætt væri við að áfangagreiðslum frá Teva seinki sem gæti seinkað því að félaginu takist að draga úr skuldsetningu félagsins.

Var ástæða til allrar þessarar bjartsýni? Sami greinandi hjá Citi metur það nú svo að aðeins 30% líkur séu á því að félagið fái markaðsleyfi fyrir 1. júlí.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.