*

miðvikudagur, 20. október 2021
Týr
17. júlí 2017 11:14

Dómharka vinstrimanna

Getur verið að það vefjist fyrir vinstri flokkunum að konur komist áfram á eigin verðleikum og þurfi ekki kynjakvótana, sem þeir boða og bjóða svo stíft?

Haraldur Guðjónsson

Á föstudag vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá kröfum tveggja lögmanna um ógildingu ákvörðunar Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um að leggja ekki til að þeir yrðu skipaðir í stöðu dómara við nýjan Landsrétt. Í dómsorðinu sagði að sú dómkrafa væri svo andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað að ekki yrði lagður á hana dómur. Ekki er það nú góður vitnisburður um lögvísi umsækjendanna, svona alveg burtséð frá því hversu vel fer á því að leiða misfarsæla lukkuriddara eftirhrunsins í dómarasæti.

***

Rót málsins er að meirihluti Alþingis samþykkti í byrjun júní tillögur dómsmálaráðherra um skipan 15 dómara við hinn nýja Landsrétt. Alþingi samþykkti tillöguna með 58% greiddra atkvæða þótt ríkisstjórnarmeirihlutinn sé aðeins 51%. Þeir 22 þingmenn, sem greiddu atkvæði gegn öllum tillögum ráðherrans, voru þingmenn VG, Samfylkingar og Pírata.

***

Þeir greiddu hins vegar líka atkvæði gegn þeim 11 dómaraefnum, sem dómnefnd hafði gert tillögur um, og var einnig að finna í tillögum ráðherrans. Það ber vott um nokkra dómhörku og fjölgar ekki kostunum í stöðunni þegar menn eru bæði búnir að lýsa yfir andstöðu við flestar tillögur dómnefndar og allar tillögur ráðherrans. Því við verðum að trúa að stjórnarandstöðuþingmennirnir hafi greitt atkvæði málefnalega, en ekki bara til að góla úr skotgröfunum eða að hygla „sínum mönnum“? Seisei nei, það er af og frá.

***

Samt kom það spánskt fyrir sjónir að vinstri flokkarnir skyldu umhugsunarlaust greiða atkvæði gegn dómaratillögum ráðherrans, þegar litið er til þess að ólíkt tillögu dómnefndar voru kynjahlutföll jöfn í tillögum Siggu. Í febrúar lögðu vinstri flokkarnir enda alla áherslu á að kynjahlutföll í Landsrétti yrðu jöfn.

***

Kannski var meinið það, að í tillögum sínum vísaði dómsmálaráðherra ekki til sérstakra kynjasjónarmiða, heldur kynnti einfaldlega þá niðurstöðu sína, að konur í hópi umsækjenda væru ekki síður hæfar en karlar. Getur verið að það vefjist fyrir vinstri flokkunum að konur komist áfram á eigin verðleikum og þurfi ekki kynjakvótana, sem þeir boða og bjóða svo stíft?

Týr er skoðunarpistill sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 13. júlí 2017.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.