*

mánudagur, 17. júní 2019
Týr
18. mars 2019 12:04

Dómur um dómara

Margir átta sig ekki á því að dómurinn beinist ekki síður að bæði Alþingi og dómsvaldinu

Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra hefur stigið tímabundið til hliðar vegna málsins.
Haraldur Guðjónsson

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) hefur eðlilega vakið sterk viðbrögð hjá mörgum, enda er þar í raun vegið að gervöllu dómskerfi landsins. Af pólitískri hentisemi hafa margir beint spjótum sínum að Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, sem nú hefur stigið til hliðar, en virðast ekki átta sig á því að dómurinn beinist ekki síður að bæði Alþingi og dómsvaldinu.

                                                                        * * *

En þá eru menn líka að ganga út frá því að dómurinn sé réttur. Týr fellst ekki á það og fagnar því að íslensk stjórnvöld áfrýi honum til yfirdeildar MDE. Dómurinn byggðist á því að tvö mjög smávægileg formleg frávik, sem þegar hefur verið fjallað um fyrir íslenskum dómstólum og þóttu engu varða, verði til þess að ógilda skipun (þá væntanlega allra) dómara Landsréttar og geri dóma fjögurra þeirra marklausa. Það er einstaklega hæpið, eins og fram kemur í minnihlutaáliti dómsins, og víðtækar afleiðingar dómsins í engu samræmi við tilefni.

                                                                        * * *

Dómaraskipanin í Landsrétt var lögum samkvæmt, en þó að mönnum finnist að ráðherrann hefði átt að leggjast í sjálfstæða athugun á umsækjendum, fremur en að byggja á mati dómnefndar, og að Alþingi hefði átt að kjósa um þá 15 sinnum, frekar en í einu lagi, þá er af og frá að það hafi kippt lagalegum stoðum undan Landsrétti. Hæstiréttur kvað í maí síðastliðnum upp þann úrskurð að skipan Landsréttardómaranna væri lögmæt og að fyrrnefndir hnökrar á málsmeðferð hefðu ekkert vægi.

                                                                        * * *

Rót vandans í þessu er sú sama og endranær varðandi dómaraskipan, en í dómstólalögum er dómnefnd um umsækjendur, þar sem dómarar ráða ferðinni, gefin heimild til þess að útnefna einn umsækjenda hæfastan og ráðherra gert örðugt að hrófla við því, þannig að í raun hefur nefndin, sem að öðru leyti er fullkomlega ábyrgðarlaus, tekið sér völd langt umfram það sem stjórnskipan landsins og góð lýðræðisvenja gerir ráð fyrir.

                                                                        * * *

Rkisvaldinu er skipt í þrjár greinar, til þess að setja því mörk og að þær veiti hver annarri aðhald. Þetta fyrirkomulag stríðir gegn því og veitir dómurum öll áhrif um það hverjir skuli skipaðir í dómstóla landsins, hver fái þar framgang og hver ekki. Það er afleitt, því þeir eiga einmitt ekki að hlutast til um það, eigi dómsvaldið að hafa eitthvert aðhald. Best færi á því að ráðherra skipaði dómara (án umsókna) með tilliti til hagsmuna og þarfa dómskerfisins, en að aukinn meirihluta þyrfti á Alþingi til þess að staðfesta þá.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is