*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Óðinn
17. júní 2019 10:02

Dr. Ragnar Árnason sjötugur

„Á engan er hallað þegar því er haldið fram að fáir íslenskir hagfræðingar hafi náð jafnmiklum frama á fræðasviðinu.“

Haraldur Guðjónsson

Einhver áhrifamesti hagfræðingur landsins, dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, varð sjötugur hinn 6. febrúar síðastliðinn. Á engan er hallað þegar því er haldið fram að fáir íslenskir hagfræðingar hafi náð jafnmiklum frama á fræðasviðinu, en jafnframt borið gæfu til þess að starf þeirra hafi gagnast almenningi í landinu með jafnafdráttarlausum hætti. Bæði til beinnar hagsældar og almennrar velsældar, að ekki sé minnst á góð áhrif á lífríkið við landið.

* * *

Til þess að heiðra afmælisbarnið boðar félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og fleiri aðilar til ráðstefnu í hátíðasal Háskóla Íslands á morgun, hinn 14. júní 2019, kl. 16.00. Umfjöllunarefnið verða úthafsveiðar og hvernig skipuleggja megi þær með sjálfbærum og arðbærum hætti. Fjórir heimsþekktir fræðimenn á sviði Ragnars flytja þar erindi, Trond Bjørndal, James Wilen, Gordon Munro og Rögnvaldur Hannesson. Að loknum erindunum verða umræður, en eftir að dr. Ragnar flytur lokaorð verður haldið til hátíðarmóttöku á Litla Torgi í Hámu við Háskólatorg.

* * *

Þá mun Háskólaútgáfan í haust gefa út afmælisrit til heiðurs Ragnari, sem nefnist Fish, Wealth and Welfare, og gefst áhugamönnum kostur á að skrá sig á Tabula Gratulatoria á vef rnh.is. Þar verða endurútgefnar í einu bindi tíu kunnustu vísindaritgerðir Ragnars, en auk þess hyggst Háskólaútgáfan gefa út fyrirlestrana á ráðstefnunni á morgun, ásamt fyrirlestrum á fyrri ráðstefnum RNH um auðlindanýtingu og fyrirkomulag fiskveiða.

* * *

Ragnar er í fremstu röð fræðimanna Háskóla Íslands, virtur á heimsvísu og ráðgjafi fjölda ríkisstjórna - innlendra sem erlendra - á sérsviði sínu, skynsamlegri hagnýtingu auðlinda sjávar. Hann átti þannig virkan þátt í að koma á fyrsta íslenska kvótakerfinu í síldveiðum og var stjórnvöldum einnig innan handar þegar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var komið á árið 1984 og endurbætt 1990.

* * *

Kvótakerfið

Dr. Ragnar lét sér þó ekki nægja fræðilega ráðgjöf í þeim efnum, heldur hefur hann með framúrskarandi hætti sinnt þeirri sjálfsögðu (en sjaldgæfu!) skyldu akademíkera að upplýsa almenning og skýra fræðin með þeim hætti að hver maður skilji. Fáir hafa þannig átt meiri þátt í að skapa breiða samstöðu um fiskveiðistjórnarkerfið. Þó að skoðanir á því séu vissulega enn skiptar, þá gagnrýnir það enginn fyrir að uppfylla ekki höfuðmarkmið sitt, að saman fari nærgætni við náttúruauðlindir og varanleg verðmætasköpun.

* * *

Það eitt og sér er ekki lítið afrek og ævistarf. Ekki þarf að tíunda hversu torsótt mönnum hefur reynst að koma á hyggilegri nýtingu náttúruauðlinda, ekki síst þeirra sem sóttar eru í almenning eins og hafið. Innsæi Ragnars var að þar færi best á að nota kosti markaðsskipulags eftir föngum, en eðli markaðarins er að nýta takmörkuð gæði með hagkvæmustum og arðbærustum hætti.

* * *

Með því tókst að leysa tvö vandamál á einu bretti, að koma í veg fyrir rányrkju og gera sjávarútveginn að sjálfbærri atvinnugrein, svo að verðmætasköpun og fiskverndarsjónarmið færu hönd í hönd. Það er enda svo að íslensk fiskveiðistjórnun þykir til fyrirmyndar um allan heim, sanngjörn og skilvirk, og nú er svo komið að kvótakerfi er notað við fjórðung allra fiskveiða jarðar.

* * *

Vönduð vísindastörf

Þennan árangur Ragnars má fyrst og síðast rekja til þess að hann er vandaður og vandvirkur vísindamaður. Skoðanir hans á fiskveiðistjórnun eru ekki grundvallaðar á lífsskoðunum eða kreddum, heldur fræðilegum og empirískum rökum: því sem bæði fræði og reynsla segja til um.

* * *

Niðurstaðan er sú að sjávarútvegur sé ekki frábrugðinn öðrum greinum eða athöfnum mannsins, að efnahagsskipulag á grundvelli eignarréttar gefi þar ævinlega besta raun, bæði hvað varðar beinan afrakstur og efnahagsábata, ábyrga sjálfbæra nýtingu og ráðstöfun verðmæta.

* * *

Þeim röksemdum kom Ragnar á framfæri með skýrum og skipulegum hætti, bæði við háskólasamfélagið, hagsmunaaðila og almenning. Þar standa sennilega þrír áfangar upp úr.

* * *

Fyrsta má nefna stóra alþjóðlega ráðstefnu, sem hann efndi til árið 1988 undir yfirskriftinni „Rights based fishing", en þar komu helstu fiskihagfræðingar heims saman hér á landi og ræddu fiskveiðar á grundvelli veiðiréttinda. Þar var hin almenna niðurstaða sú, að það væri sennilega ekki hægt að ná raungóðum árangri í fiskveiðistjórnun, sem ekki byggðust á réttindum, og þau réttindi væru í raun eignarréttindi. Sem aftur byggir á hinum gamalkunnu sannindum að menn fari betur með eigin eignir en það sem enginn á.

* * *

Í öðru lagi má nefna greinar sem hann skrifaði 1990 um fiskveiðistjórnun með lágmarksupplýsingum, en ritgerð í Canadian Journal of Economics árið 1990, Minimum Information Management in Fisheries vakti mikla athygli og jók honum fræðilega frægð um heim allan. Þar leiddi Ragnar rök að því, að flestar þær aðferðir, sem stungið hefði verið upp á til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum, krefðust meiri þekkingar en tiltæk væri. Hins vegar væri kerfi framseljanlegra aflakvóta tiltölulega einfalt í framkvæmd og líklegust til þess að menn notfærðu sér tiltæka þekkingu til hins ýtrasta, af ábyrgð og með minnstri áhættu, þar sem þeir bæru sjálfir kostnað af henni.

* * *

Í þriðja lagi skal upp telja tvær ýtarlegar skýrslur, sem Ragnar átti mestan þátt í að semja fyrir Alþjóðabankann og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) árin 2009 og 2017, kenndar við sokkna milljarða (Sunken Billions). Þar var bent á, að stórfenglegum verðmætum væri kastað á glæ í orðsins fyllstu merkingu, af því að úthafsveiðar væru víðast stundaðar með of miklum tilkostnaði. Var mat Ragnars, að árleg sóun í sjávarútvegi heims væri á bilinu 51 til 105 milljarðar Bandaríkjadala.

* * *

Hagfræði og hagsæld

Nám og starfsferill Ragnars við fræði og lögmál auðs og eklu tekur yfir liðlega hálfa öld, einmitt þann tíma sem íslenskt efnahagslíf hefur verið í örustum vexti. Hann lauk magistersgráðum í hagfræði annars vegar og hagmælingum hins vegar við London School of Economics á áttunda áratugnum, en hélt þaðan til University of British Columbia Vancouver í doktorsnám í auðlindahagfræði.

* * *

Þegar heim kom fékk Ragnar umsvifalaust stöðu við Háskóla Íslands, fyrst við stærðfræðideild, en síðar sem lektor við hagfræðideildina. Árið 1989 var Ragnar svo skipaður prófessor í fiskihagfræði við háskólann, þar sem hann er vinsæll kennari og fyrirlesari, skýr, rökvís og fundvís á kjarna málsins.

* * *

Óðinn óskar Ragnari til hamingju með stórafmælið og þakkar honum frábær störf í þágu fræðanna, en þó ekki síður framlag hans til lands og þjóðar, sem hafa í senn orðið til verndar og viðhalds náttúrunnar sem og aukinnar velsældar Íslendinga, byggða á þekkingu og hagfræðirannsóknum vísindalegrar aðferðar. Það mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.