*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
10. maí 2018 13:01

Draugagangur

Um daginn fögnuðu ýmsir af flokksbroddum Sósíalistaflokksins nýja 200 ára afmæli Karls Marx, mesta ógæfumanni heimspekinnar.

Aðsend mynd

Vofa gengur nú ljósum logum um Ísland - vofa sósíalismans. Sem er jafnvel enn athyglisverðara fyrir það undir lakinu er einn af draugum útrásarinnar innistæðulausu, arðræningja öreiganna, sem engu höfðu að glata nema laununum. Samkvæmt lögmálinu um endurtekningu sögunnar, fyrst sem harmleiks, svo sem farsa.

                        ***

Síðastliðinn laugardag fögnuðu ýmsir af flokksbroddum Sósíalistaflokksins nýja 200 ára afmæli Karls Marx, mesta ógæfumanni heimspekinnar, sem lagði hugmyndafræðilegan grunn að helstu helförum liðinnar aldar, sem enn sér raunar ekki fyrir endann á. Það létu sér margir læka, sum skoðanasystkin, en aðrir létu í veðri vaka að það væri krúttlegt að hylla gamla manninn.

                        ***

Kannski það sé hið magnaða við Marx — ekki morðæði og örbirgð, mannvonska og afmennskunartilburðir fylgismanna hans — að kenningar hans skuli enn eiga upp á pallborðið, hjá ýmsu annars málsmetandi fólki. Nú er það svo, að helsta raunverulegt framlag Marx til heimspekinnar var að benda á að menn ættu ekki að meta pólitískar kennisetningar eftir uppgefnum markmiðum, heldur afleiðingum þeirra. Að menn skyldu þekkja þær af ávöxtunum, líkt og annar trúarleiðtogi orðaði það. Samt er það svo, að marxistar eru um það bil einu hugmyndaboðberar heims, sem þverneita að bera minnstu ábyrgð á raunverulegum afleiðingum hugmyndanna.

                      ***

Lesandinn getur rétt ímyndað sér viðbrögðin ef einhver reyndi að stilla fasismanum upp með ámóta hætti, að sú hugmyndafræði væri nú ekki fullreynd og við mættum ekki dæma hana af ófullkominni viðleitni í stöku löndum á fjórða áratug liðinnar aldar. Samt láta margir það sér í léttu rúmi liggja hvernig sósíalisminn lukkaðist í Sovét eða Kína, Kampútseu eða Venesúela, alls staðar með fangabúðum og aftökusveitum, skorti og hungursneyð, alræði og yfirstétt. Eins og Karl Marx sagði raunar sjálfur fyrir um, að markmiðum kommúnismans yrði aðeins náð með byltingu og ógnarstjórn.

                      ***

Enn furðulegra er sjá fólk lýsa Marx sem fræðimanni og kenningum hans sem vísindalegum, margafsannaðar sem þær eru (að því marki sem þær geta lotið sönnunarreglum vísindanna). En kannski þar sé fundin skýringin á vinsældum Marx, að hugmyndir hans eru ekki kenningar, heldur trúarkredda. Hvað svo sem reynslan kennir, þá skiptir það hina trúuðu engu, því fyrirmyndarríkið og hrifningin bíða. Hinir vantrúuðu mega allir fara til helvítis. Eins og áður.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.