Það er öllum fyrirtækjum mikilvægt að innleiða í menninguna drifið og kraftinn sem felst í dirfsku og ævintýraþrá til þess að halda árangurseldinum vakandi.

Að það sé alltaf áhersla á hvatningu í menningu fyrirtækisins, að þor sé til staðar til þess að stíga út fyrir þægindarammann því þar á vöxturinn sér stað. Þótt vel gangi í dag og grunnurinn sé sterkur geta aðstæður breyst yfir nótt.

Mikilvægur þáttur í að einbeita sér að vaxtarmiðuðum hugsunarhætti er að hafa hugann bæði við núverandi viðskiptavini og viðskiptavini morgundagsins. Markmiðið er að fá frekari innsýn í hvernig mögulegt er að vaxa enn frekar, þá kemur draumateymið til staðar: gögn og menning.

Tækifæri til að skapa

Að skapa sóknar- og árangursdrifna menningu snýst ekki bara um að leita að nýstárlegum hugmyndum. Það snýst um að einbeita sér að því að færa sig frá hinum hefðbundnu fyrirmyndum og aðferðum til vaxtar til að búa til nýja möguleika á markaði. Mörg dæmi eru um fyrirtæki sem hafa fjárfest í aðferðum, vinnulagi og tækni til þess að með stafrænum greiningaraðferðum geti þau nálgast nákvæm gögn um hegðun og óskir viðskiptavina. Hjálpar óneitanlega við að veita betri og réttari þjónustu og en sérstaklega áherslunni á að finna nýja möguleika til að halda sókninni áfram.

Vel má vera að allt sé í góðum farvegi og að eftir endurskoðun sé engin ástæða til breytinga. En ef sú er ekki raunin er vissara að setja vinnu af stað áður en það er orðið of seint, samkeppnin stingur þig af og tekur viðskiptavinina með sér.

Gögnum ber að fagna

Fyrirtæki verða að taka gögnum fagnandi og nota þau til að taka betri ákvarðanir og stundum til að hraða ákvarðanatöku. Allt starfsfólk þarf að hafa aðgang að réttum gögnum til að geta sinnt sínu starfi sem best, gögn í bland við reynslu og innsýn.

Það er ekki nóg að birta helling af gögnum, það þarf að vinna með þau og gera aðgengileg til þess að tryggja að fólk noti þau. Hafa starfsmenn auðvelt aðgengi að upplýsingum er snerta þeirra daglega starf? Er gagnanotkun innbyggð í verkflæði og vinnuferli? Er kunnátta til staðar til þess að túlka gögnin og koma þeim á form sem allir innan fyrirtækisins geta tengt við? Hvernig er tekið á móti því þegar t.d. niðurstöður kannana eru ekki nógu góðar; fer kynningin ofan í skúffu eða verða niðurstöðurnar að verkefnum? Stafrænt þroskuð fyrirtæki hafa starfsmenn þvert á starfsemina sem geta horft á gögn gagnrýnum augum og menningu sem tekur rýni fagnandi. Færi til að gera betur.

Allt þitt fólk spilar mikilvægt hlutverk sem styrkist einungis séu upplýsingar til staðar. Mikilvæg innsýn leynist víða og þekking er til staðar sem mikilvægt er að fara ekki á mis við. Þegar sýnin er á framtíðina þá horfir þú öðruvísi á hlutina og stillir miðið þannig af. Svo er náttúrulega hin magnaða stafræna umbreyting sem beinir athyglinni að nýjum leiðum til að leysa vandamál og hvernig mögulegt er að bera kennsl á framtíðarmarkaði.

Vöxtur er krefjandi

Það tekur á að vaxa og taka framförum. Það skiptir engu hversu vel undirbúinn viðkomandi er, hversu mikið af gögnum er til staðar eða hversu mikil trú er á markmiðunum – þetta verður alltaf áskorun. Vaxtarverkir er einmitt sú tilfinning sem ætti að fagna, vaxtarhugsunarháttur hjálpar til við að innleiða nýjungar og á sama tíma gætir þú komið auga á eitthvað alveg nýtt og óvænt sem samkeppnin hefur ekki séð fyrir.

Þegar framtíðarsýn er kynnt þarf að sýna fram á að hindranirnar sem standa í vegi fyrir að markmið náist séu yfirstíganlegar. Nú reynir á fyrirmyndir með leiðtogahæfileika til að skapa keppnisanda og samheldni sem skilar sér í betra liði. Stundum þarf að taka minni skref til að sanna árangur breytinganna.

Aldrei skal vanmeta styrkinn í sterkri liðsheild sem ætlar sér að koma, sjá og sigra. Sýn þarf að vera skýr, einföld og hnitmiðuð til að auðvelt sé að vinna eftir henni og tengja hana við markmið. Ekki eyða púðri í eitthvað sem skiptir ekki máli til lengri tíma litið. Að fara af stað án þess að hafa skýra framtíðarsýn eykur líkur á mistökum. Til að breytingarnar nái flugi verður að sameinast um drifkraft þvert á fyrirtækið og þar eru gögn og menning draumateymið.

Höfundur er forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum.