Fyrirsögnin er ekki nafn á nýrri Tinnabók heldur fyrirbæri sem gæti skipt okkur máli. Það eru nefnilega ýmsir sem fussa og sveia yfir tilraunum mínum til þess að sannfæra almenning um mikilvægi orkuskipta og bættrar orkunýtni í samgöngum. Mjög algeng gagnrýni er t.d. að rafbílar séu of dýrir og fráleitt að nota almannafé til að niðurgreiða þá. Tæknilega séð eru þeir reyndar ekki niðurgreiddir en þeir njóta vissulega skattaafsláttar, sem þýðir minni tekjur í sameiginlegan ríkissjóð.

Vandamálið er hinsvegar að núverandi ökutæki nota ósjálfbæra, mengandi og loftlagsbreytandi olíu og það gengur ekki til lengdar. Rafbílar eru góð tækni sem leyst gætu málið að miklu leyti og flestir greiningaraðilar spá því að heildarkostnaður, þ.e. kaup auk reksturs rafbíla, verði ódýrari en á hefðbundnum bílum innan nokkurra ára.

Ekki nóg með það, þá telja margir sérfræðingar að rafbílar hafi alla burði til að verða ódýrari í framleiðslu en bensínbílar óháð rekstrarkostnaði. En hér kemur að lásnum í kerfinu. Þetta mun EKKI gerast nema framleiðsla rafbíla og þar með kaup stóraukist í millitíðinni. Til þess að ódýri rafbíllinn verði til í framtíðinni þurfa sem sagt einhverjir að kaupa dýrari rafbíla í dag.

Reynslukúrfan

Í nútíma framleiðslufræðum hefur hin svokallaða reynslukúrfa (experience curve) orðið sífellt skýrari. Hún lýsir þeirri staðreynd að þegar vara fer í framleiðslu, hrynur framleiðslukostnaður í hlutfalli við framleiðslumagn. Eða á mannamáli, eftir því sem framleiðslan eykst, tekst mönnum stöðugt að fínpússa framleiðsluna og lækka kostnað. Þetta gerist þó ekki nema með reynslunni þ.e. menn finna ekki bara lausnir og vankanta á teikniborðinu heldur líka í sjálfri framleiðslulínunni.

Eftir því sem framleiðslan er meiri, verða lausnirnar í framleiðslulínunni betri og saman leiðir þetta til kostnaðarlækkunar. En hver er þá lásinn? Jú, til að auka framleiðslu og fá þar með kostnaðarlækkunina, þarf að selja dýrari vöru á markaði fyrst um sinn. Oft leysist lásinn af sjálfu sér t.d. þegar framleiðsluvaran er glæný tækni eða þjónusta sem ekki er fyrir á markaði. Farsímar voru t.d. óhemju dýrir fyrst í stað en voru þá glæný þjónusta og nóg var til af efnuðu fólki til að kaupa fyrstu símana sem að lokum leiddu til miklu mun ódýrari og betri síma.

Munurinn á farsíma og rafbíl er hinsvegar sá að farsímar buðu upp á nýja og öðruvísi þjónustu meðan rafbílar flytja bara fólk á milli A og B, nákvæmlega eins og ódýrari bensínbílar gera nú þegar. Hundruð milljóna bensínbíla hafa verið framleidd í gegnum tíðina sem hafa því talsvert forskot þegar kemur að reynslukúrfunni títtnefndu.
Hverjir eiga að niðurgreiða?

Heimsbyggðin hefur keyrt hagkerfi sín á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti í um tvær aldir og nú stefnir í óefni varðandi loftlagsbreytingar og mengun. Þar að auki er jarðefnaeldsneytisauðlindin takmörkuð og mjög misskipt á meðal þjóða. Sú staðreynd hefur valdið miklum átökum í gegnum tíðina. En nú glittir heldur betur í jákvæðar breytingar enda sólar- og vindorka orðin ódýrari kostur en kol og gas víða um heim. Sólarsellur hafa t.d. lækkað um 80% í kostnaði á síðustu 10 árum. En hvernig komust sellurnar í gegnum lásinn? Svarið er einfalt, með miklum styrkjum og niðurgreiðslum.

Sólarselluframleiðendur hafa sem sagt fengið tækifæri til að framleiða og selja sólarsellur í nógu miklu magni til að ná fram kostnaðarlækkun í gegnum reynslukúrfuna. Segja má að þar hafi Þjóðverjar og Kínverjar farið fremstir í flokki og nýtt almannafé til að ná þessum mikilvæga árangri. Málið er að allir njóta svo ávaxtanna. Sólarsella á hjólhýsi á Íslandi í dag er sem sagt miklu ódýrari en ella þökk sé skattborgurum í Þýskalandi og Kína.

Því miður fyrir hörðustu bókstafstrúarmenn til hægri og vinstri, þá virðist talsvert af mikilvægustu framfarasporum mannkyns í tæknimálum vera afsprengi blöndu af glerharðri samkeppni í frjálsu umhverfi og stuðningi með almannafé þegar mest liggur við.

Metnaðarleysi

Ótrúlega margir úrtölumenn hér heima segja að rafbíllinn sé ekki tímabær enda sé hann enn háður opinberum stuðningi og bæta svo við að kannski megi skoða þetta eftir 5 til 10 ár. Ef öll heimsbyggðin hefði sömu viðhorf kæmi ódýri rafbíllinn líklega aldrei og orkulausnir eins og sólarsellur og vindmyllur væru enn bara á tilraunastofum. Norðmenn hafa aðra skoðun og þar eru peningar settir í rafbíla, ekki til að framleiða bíla heldur til að skapa markað fyrir framleiðendur. Þessi markaður í Noregi, sem tekið hefur við dýrum rafbílum, hefur hjálpað heilmikið til að brjóta lásinn.

Nú er spurning hvort Ísland vill vera þjóð meðal þjóða og taka ábyrgð á sameiginlegum umhverfisvandamálum heims og leggja sitt að mörkum. Eða er kannski bara best fyrir Ísland að sitja hjá og láta aðra taka ábyrgðina á því að leysa lásinn fyrir okkur? Eða hvað?

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.