Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um niðurfellingu á tollum á innflutningi frá Úkraínu.

Hrafnarnir tóku eftir að Bændasamtökin, undir forystu Vigdísar Häsler, brugðust skjótt við og sendu inn umsögn um frumvarpið. Í umsögninni er lögð mikil áhersla á að niðurfellingin nái einungis til þeirra landbúnaðarafurða sem hafa áður verið fluttar inn frá Úkraínu. Hröfnunum þótti þessi krafa Bændasamtakanna áhugaverð þar sem skýrt er tekið fram í greinargerð frumvarpsins að innflutningur á landbúnaðarafurðum frá Úkraínu er hverfandi og var enginn í fyrra.

Annars virðist hröfnunum frumvarpið vera hálfgerð dygðaskreyting. Innflutningur frá Úkraínu í fyrra nam um 500 milljónum króna og eins og Samtök verslunar og þjónustu benda á í umsögn sinni þá mun samþykki þess ekki greiða fyrir viðskiptum við Úkraínu á erfiðum tímum nema ákvæðum 14. gr. bókunar við fríverslunarsamnings EFTA og Úkraínu um beinan flutning verði tímabundið vikið til hliðar.

Huginn og muninn er skoðanadálkur en þessi birtist íViðskiptablaðinu 16. júní 2022.