*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Huginn og muninn
28. september 2019 10:07

Dýrkeypt greining

Hrafnarnir vona að greining Benedikts á upphafi stjórnarsamstarfsins verði honum ekki jafn dýrkeypt og greining hans á endalokum stjórnarinnar.

Benedikt Jóhannesson situr við skriftir þessa dagana.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir hafa gaman af ævisögum, sér í lagi þegar höfundur og aðalpersónan eru einn og sami maðurinn, en slíkar bókmenntaperlur taka Hrafnarnir saman í flokk bóka sem þeir kalla „eins og ég man það” í bókasafni sínu. 

Það var þeim því gleðiefni þegar Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrsti formaður Viðreisnar, greindi frá því að hann ynni nú að skráningu á ýmsu sögulegu efni og væri langt kominn með að skrifa frásögn af stjórnarmynduninni árið 2016- 17. 

Hrafnarnir vona að greining Benedikts á upphafi stjórnarsamstarfsins verði honum ekki jafn dýrkeypt og greining hans á endalokum stjórnarinnar. Hröfnunum er minnisstætt sjónvarpsviðtal þar sem Benedikt lét þau ummæli falla um uppreist æru-málið sem sprengdi ríkisstjórnar - samstarfið að málið „sem þótti svo stórt að það var ástæða til stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er“. 

Þessi orð ollu miklu fjaðrafoki innan Viðreisnar og komu flokksmenn saman á krísufundi til að ræða afglöp formannsins. Benedikt baðst afsökunar á að hafa látið orðin falla, en allt kom fyrir ekki. Fáeinum dögum síðar var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tekin við sem formaður flokksins.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.