*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Týr
11. desember 2021 18:03

Dýrt spaug hjá RÚV

Allir vita að það þarf auðvitað sex manna teymi ríkisstarfsmanna til að skrifa þriggja mínútna brandaraseríu í hverri viku.

Skjáskot

Týr tók eftir því að Gísli Marteinn Baldursson, skemmtikraftur á Ríkissjónvarpinu, sá nýlega ástæðu til að hrósa sérstaklega handritshöfundum að bröndurum sínum í vikulegum spjallþætti sínum. Eins og Týr hefur áður fjallað um er hluti þáttarins, sem sýndur er á einum besta útsendingartíma í línulegri dagskrá, iðulega nýttur til að skjóta á þá sem skilgreina sig til hægri í stjórnmálum. Bergsteinn Sigurðsson, annar starfsmaður RÚV, er aðalhöfundur og nýtur aðstoðar Gísla Marteins og fjögurra annarra starfsmanna RÚV. Allir vita að það þarf auðvitað sex manna teymi ríkisstarfsmanna til að skrifa þriggja mínútna brandaraseríu í hverri viku, sem yfirleitt vekur mikla lukku... á twitter.

* * *

Nú er Týr ekki hörundsár fyrir hönd hægrisins. Sjálfstæðisflokkurinn, svona ef við gefum okkur að hann sé hægri flokkurinn hér á landi, á heiðurinn af því að ala þá nöðru við brjóst sér sem Ríkisútvarpið er og aðrir flokkar eða stjórnmálamenn hafa lítið sem ekkert aðhafst til að koma böndum á ótemjuna.

* * *

Hægri menn þurfa bara, líkt og aðrir, að greiða útvarpsgjaldið sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom á fót á því herrans ári 2007. Tekjur RÚV af þessari skattheimtu eru um 4,5 milljarðar á ári og munu hækka enn frekar á næsta ári þegar Bjarni Benediktsson verður búinn að hækka útvarpsgjaldið enn frekar. Þetta eru stjarnfræðilegar upphæðir þegar kemur að rekstri íslenskra fjölmiðla. Brandarateymi Vikunnar er ekki ókeypis.

* * *

Stjórnmálamenn tala mikið um mikilvægi einkarekinna fjölmiðla en hafa lítið gert til að bæta rekstur þeirra. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hefur þó í annað sinn lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs. Týr myndi helst vilja leggja útvarpsgjaldið niður, en fagnar öllum tillögum sem koma fram til að minnka báknið í Efstaleiti og styðja frekar við aðra fjölmiðla. Þannig væri líka hægt að mæla hið raunverulega traust landsmanna til RÚV.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.