*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
23. maí 2017 13:19

Ef og hefði skattar

Ríkissjóður er eini aðilinn sem reiknar sér ríkidæmi í Excel í dag.

Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýju G. Harðardóttur má ætla að tekjur ríkisins hefðu numið tæpum 2,6 milljörðum króna árið 2015 ef lagður hefði verið á svokallaður komuskattur, 1.500 kr. á hvern flugmiða. Áætlaðar tekjur ríkisins hefðu verið um 3,5 milljarðar árið 2016 og líkast um um 4,2 milljarðar króna í ár. Samkvæmt þessum rökum mætti ætla að ríkið hafi orðið af um 10,3 milljörðum króna, með því að leggja ekki á umræddan komuskatt.

***

En er þetta svona einfalt? 

***

Í fyrirspurn Oddnýjar er spurt hverjar tekjur ríkisins hefðu orðið ef komugjald að upphæð 1.500 krónum hefði verið innheimt af hverjum flugfarþega sem kom til landsins á árunum 2015 til 2016 og hverjum flugfarþega sem kæmi hingað til lands árið 2017, miðað við áætlanir um fjölda flugfarþega.

***

Hér er algeng rökvilla þegar kemur að skattheimtu. Hvorki Oddný né fjármálaráðuneytið gera ráð fyrir mannlegri hegðun við þessa undarlegu framlagningu. Þegar skattar breytast - hækka eða lækka - breytast hvatarnir sem hafa áhrif á mannlega hegðun. Sé lagður aukaskattur á ákveðna vöru hækkar útselt verð á vörunni og þar með má ætla að eftirspurn eftir henni minnki. Fjármálaráðuneytið gerir aldrei ráð fyrir mannlegri hegðun þegar kemur að skattaútreikningum, sama hver stýrir því hverju sinni. Hið opinbera telur nóg að slá tölur upp í Excel. Ef við leggjum x% skatt á ákveðna vöru eða þjónustu fáum við svona miklar tekjur. Því var stundum slegið upp í gríni eftir hrun að margir hefðu orðið ríkir í Excel þó svo að veruleikinn væri allt annar. Í dag er ríkið eini aðilinn sem reiknar sér tekjur í Excel og bíður svo eftir tekjunum líkt og lottóvinningi. 

***

Hér er um lítið dæmi að ræða, og í stóra samhenginu eru 1.500 krónur ekki stór hluti af miðaverði til Íslands. Ómögulegt er að segja til um hver áhrif slíkrar gjaldtöku hefðu orðið, en á jaðrinum hefur hver einasta króna áhrif. Það er engin leið að segja til um hversu mikil áhrifin hefðu orðið, en það er heldur engin leið að segja til um hvað ef og hefði skattar hefðu mögulega kannski einhvern veginn gefið ríkinu svo og svo miklar tekjur. Allur slíkur málflutningur er í raun fáránlegur og það er í ótrúlegt að ráðuneytið láta teyma sig út í slíka vitleysu. 

***

Ef og hefði pælingar eiga ekki heima í skattaútreikningi, hvað þá aftur í tímann. Menn geta alltaf áætlað að einhver breyting á skattkerfinu gefi ríkinu ákveðnar tekjur fram í tímann, þó með þeim fyrirvara að skattgreiðendur breyti ekki hegðun sinni við breytta skattaálagningu. 

Stikkorð: Ríkissjóður Skattar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.