*

föstudagur, 17. september 2021
Huginn og muninn
14. nóvember 2020 14:05

Efasemdir Brynjars ómissandi

Hrafnarnir hafa meiri áhyggjur af þingmönnum sem ekki spyrja áleitinna spurninga vegna frelsisskerðandi aðgerða.

Hrafnarnir vildu ekki án efasemda Brynjars Níelssonar vera.
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, þingmaður, skrifaði grein í vikunni sem vakti hörð viðbrögð, en í henni líkir hann sóttvarnaaðgerðum við alræði og segist hættur að vera meðvirkur með samstöðunni. 

Hrafnarnir eru hugsi yfir þeim hörðu viðbrögðum sem gagnrýnin fær, þó að fyrirsjáanleg hafi verið. Það er gömul saga og ný að efasemdamönnum sé úthúðað fyrir að ganga gegn ríkjandi sjónarmiðum, en hrafnarnir vildu þó síður vera án þeirra.

Einhverjir hafa áhyggjur af því að á þingi sitji einstaklingur sem vinnur gegn samstöðu þjóðarinnar með gagnrýni á sóttvarnaaðgerðir. Hrafnarnir hafa aftur á móti meiri áhyggjur af þeim þingmönnum sem ekki eru gagnrýnir og spyrja áleitinna spurninga vegna aðgerða sem skerða frelsi einstaklinga með jafn íþyngjandi hætti og raun ber vitni.

Hver svo sem rétta leiðin í veirufaraldrinum er, hlýtur það að vera umhugsunarvert hve sjálfsagt það þykir nú um mundir að fólk afsali sér frelsi sínu, án þess að svigrúm sé gefið til þess að staldra við og velta því upp hvort tilgangurinn helgi meðalið.

Engum dylst flækjustigið við mat á forsendum og áhrifum sóttvarnaaðgerða. Það er ekki hlutverk sóttvarnalæknis að meta hvort tilgangurinn helgi meðalið þegar einnig er litið til efnahagslegra og félagslegra afleiðinga þeirra aðgerða sem hann boðar.

Þrátt fyrir það hafa sóttvarnasjónarmið nær ein ráðið ferðinni og því sem næst ekkert umburðarlyndi er fyrir spurningum, gagnrýni og efasemdum sem ganga gegn ríkjandi sjónarmiðum.

Hið frjálsa lýðræðissamfélag getur verið fallvalt. Það er nauðsynlegt að eiga málefnalega og gagnrýna umræðu um allar hliðar frelsisskerðandi aðgerða.

Án efasemdamanna er hætt við að við fljótum í blindni að feigðarósi handhafa sannleikans, eins og sannleikurinn er skilgreindur á hverjum tíma.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.