*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Týr
7. mars 2020 16:10

Efling getur ekki eða vill ekki semja

Furðulegt ákall Sólveigar Önnu um opinberar kappræður bendir til þess að hún hugsi meira um kastljós fjölmiðla en að ná samningum.

Eyþór Árnason

Kjaradeilur Eflingar og Reykjavíkurborgar hafa verið mikið í fréttum síðustu daga og ekki að ástæðulausu. Þar ræðir um kjör hinna lægstlaunuðu, verkfallsaðgerðir snerta tugþúsundir Reykvíkinga með beinum hætti, en síðan verður ekki komist hjá að nefna hitt, að sá farvegur, sem viðræðurnar hafa ratað í, hefur vakið furðu alls almennings.

                                          ***

Tý þykir það helvíti hart að þurfa — hér í sínum eigin húsum — að bera blak af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Framganga hans í þessum kjaraviðræðum hefur kannski ekki verið öll á eina leið, en í samanburði við viðsemjendurna í forystu Eflingar virðist hann sem sanngirnin, sáttfýsin og skynsemin holdi klædd.

                                          ***

En það er auðvitað enginn samanburður. Á sínum tíma óttuðust margir að byltingarsinnaðir kommúnistar aftur úr myrkrum liðinnar aldar kæmust til valda í verkalýðshreyfingunni. Sá ótti hefur ekki reynst ástæðulaus, því það verður ekki annað séð en að það sé orðið sjálfstætt markmið Sólveigar Önnu Jónsdóttur og klíku hennar að valda sem mestum usla og umróti og grafa undan þeim stöðugleika á vinnumarkaði sem þó hafði náðst á þessum uggvænlegu tímum. Sennilega með pólitísk markmið feðraveldisins í Sósíalistaflokknum í huga, sem nú hyggur gott til glóðarinnar.

                                          ***

Það er þó alls ekki víst að þar að baki búi slík vélráð. Enginn skyldi útiloka heimsku, reynsluskort og skeytingarleysi í því samhengi. Af orðum Sólveigar Önnu er t.d. ljóst að hún telur sig ekki þurfa að hirða mikið um kjör karlkyns umbjóðenda sinna í Eflingu, hugur hennar allur er hjá verkakonum. En er þá kannski tímabært að kljúfa félagið aftur í Verkamannafélagið Dagsbrún og Verkakvennafélagið Framsókn? Hún gæti þá leitt Framsókn en guðfaðirinn Gunnar Smári Egilsson er vanur því að stýra Dagsbrún allt til alræðis öreiganna.

                                          ***

Um hyggindi Eflingarforystunnar í samningaviðræðunum er óþarfi að ræða, hún virðist telja að eftirgjöfin eigi öll að koma frá hinum, en kannski reynsluleysið sé verst. Furðulegt ákall Sólveigar Önnu á Facebook um opinberar kappræður og birtingu á samningagögnum bendir til þess að hún hugsi meira um kastljós fjölmiðla en það að ná samningum. Á trausti og trúnaði samningsaðila hefur hún engan áhuga. Hverjar eru þá líkurnar á því að um semjist? Eða að það sé markmið Eflingarklíkunnar að semja yfirleitt?

Týr er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.