*

mánudagur, 1. júní 2020
Huginn og muninn
14. mars 2020 10:02

Eflingaráhrifin

Síðast þegar Efling fór í verkfall varð Wow gjaldþrota og nú skall heimsfaraldur á af fullum þunga.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Eggert Jóhannesson

Um þriggja vikna löngu verkfalli Eflingar í borginni lauk aðfaranótt mánudags þegar nýir kjarasamningar voru undirritaðir. Hrafnarnir fagna því auðvitað að þessu verkfalli, sem bitnaði fyrst og síðast á foreldrum og forsjármönnum leikskólabarna, sé lokið.

Þegar samningar höfðu verið undirritaðir sendi Efling frá sér tilkynningu, þar sem hinn sósíalíski undirtónn ómaði sem aldrei fyrr. Talað var um „sögulegan“ sigur í kjaradeilunni. „Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni. Þá segir hún að Eflingarfélagar hjá borginni hafi „skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu“.

Ef þetta voru jafnmikil kaflaskil og formaðurinn telur þá furða hrafnarnir sig á því að aðrir verkalýðsforkólfar hafi ekki tekið í sama streng. BSRB gerði til að mynda fínan samning án þess að fara í verkfall og vera með sífelldar upphrópanir.

Hinn sósíalíski undirtónn í orðræðu Eflingar kemur ekki nokkrum manni á óvart, þar sem Sólveig Anna var í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, var í framkvæmdastjórn flokksins. Sósíalistaflokkurinn stefnir á framboð í næstu þingkosningum og þarf að lesa ummæli og tilkynningar forystumanna Eflingar í því ljósi.

Hrafnarnir vilja góðfúslega fara þess á leit við forystumenn Eflingar að fara ekki í verkfall bráðlega, aðallega af tillitsemi við ferðaþjónustuna í landinu. Þegar stéttarfélagið fór í verkfall í fyrra varð Wow air gjaldþrota og skrifað var undir kjarasamninga nokkrum dögum eftir það áfall. Núna skall kórónuheimsfaraldurinn og skrifað undir samninga í miðju havaríinu.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.