Ýmis tölfræði varðandi konur í fyrirtækjarekstri sem birt hefur verið að undanförnu dregur upp áhugaverða mynd. Í nýlegu blaði frá Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki 2019 kemur fram að 12% framkvæmdstjóra framúrskarandi fyrirtækja eru konur. Í skýrslu sem Reykjavik Economics gerði fyrir Íslandsbanka kemur fram að konur stofnuðu tæplega þriðjung fyrirtækja á árunum 2005-2019. Engar konur eru forstjórar fyrirtækja í Kauphöllinni og hlutfall kvenna í stjórnum framúrskarandi fyrirtækja er frá 20-32% eftir stærð fyrirtækja. Svona mætti lengja telja upp ýmsa tölfræði varðandi konur í viðskiptum. Í stuttu máli má segja að fáar konur eru í stjórnunarstöðum, stjórnum og í forsvari fyrirtækja hvort sem þau eru lítil eða stór.

Þessi tölfræði rímar við reynslu okkar hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Til okkar leita færri konur en karlar með hugmyndir um fyrirtæki eða í leit að fjármagni fyrir verkefni sín. Það er því ánægjulegt að Nordic Innovation hefur, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina, ákveðið að greina þátttöku kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi og mun á næstunni hrinda í framkvæmd úttekt á tölfræði á stöðu frumkvöðlakvenna og þátttöku kvenna í nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Norðurlöndin þurfa fleiri frumkvöðla sem stofna fyrirtæki sem vaxa, skapa ný störf og þróa sjálfbært samfélag. Þrátt fyrir að oft sé litið til Norðurlandanna sem alþjóðlegrar fyrirmyndar þegar kemur að jafnrétti kynjanna, er svigrúm til úrbóta þegar kemur að frumkvöðlastarfi kvenna og þátttöku þeirra í stofnun og stjórnun fyrirtækja.

Staðreyndin er sú að næstum jafn margar konur og karlar vilja gerast frumkvöðlar. Engu að síður er hlutur kvenkyns frumkvöðla á Norðurlöndunum lítill og konur eiga erfiðara með að finna fjármagn fyrir fyrirtæki sín en karlar. Þannig er sköpunargleði kvenna og frumkvöðlastarfsemi vannýtt uppspretta hagvaxtar og atvinnusköpunar sem ætti að þróa frekar. Ef við eflum ekki nýsköpunarþátttöku kvenna missum við frá okkur þekkingu og kraft sem annars myndi gagnast samfélaginu í heild sinni. Það er því ekki einkamál kvenna að þær séu ekki jafnir þátttakendur í ákveðnum hluta samfélagsins.

Nordic Women Entrepreneurship er norrænt samstarf sem miðar að því að hvetja konur á Norðurlöndunum til að stofna eigin fyrirtæki, skapa störf og auka með því hagvöxt. Nordic Innovation mun leiða verkefnið með því að tengja saman þátttakendur í frumkvöðlastarfi til að miðla þekkingu og stuðla að þróun norrænna verkefna um kvenkyns frumkvöðlastarf. Til að öðlast betri skilning á þróun, hindrunum og tækifærum kvenkyns frumkvöðlastarfs þarf að afla fyrirliggjandi tölfræðilegra gagna um kvenkyns frumkvöðla á Norðurlöndunum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinna fyrir hönd Íslands að verkefninu með Nordic Innovation og er það von okkar að við sjáum meiri þátttöku kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi framtíðarinnar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunarmála, hefur sýnt málinu mikinn áhuga og vilja til að finna leiðir til aukinnar þátttöku kvenna í nýsköpun. Samfélagið í heild nýtur góðs af því þegar mannauður, menntun og reynsla er nýtt með sem bestum hætti fyrir samfélagið, umhverfið og framtíðina.

Höfundur er framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.