Í Viðskiptablaðinu í gær fjallaði Óðinn um ferðaþjónustuna og flugfélögin. Hér er á eftir eru tvö brot úr pistilinum en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Efnahagsleg hryðjuverk, flugfélögin Icelandair og Play

Ferðaþjónustan er enn að komast á fætur eftir lokanir stjórnvalda í nafni sóttvarna á árunum 2020-2022. Stuttu áður, eða vorið 2019, varð ferðaþjónustan fyrir þungu höggi með gjaldþroti Wow air.

Því eru aðgerðir Eflingar nú gegn afmörkuðum hópi fyrirtækja í ferðaþjónustu, auk eldsneytisflutningamanna, tilraun til efnahagslegs hryðjuverks.

Það þarf svo sem ekki að koma á óvart í ljósi þess að formaður Eflingar er svarinn kommúnisti, hlaut dóm fyrir árás á íslenska þinghúsið og hélt að eigin sögn lista yfir þá sem hún vildi drepa.

Aðeins pláss fyrir eitt flugfélag?

Flugleiðamenn héldu því fram ítrekað á árum áður að aðeins væri pláss fyrir eitt flugfélag á Íslandi. Það var grundvöllur sameiningar Flugfélags Íslands við Loftleiðir árið 1973.

Morgunblaðið fjallaði til dæmis um þessa skoðun félagsins í október 1990, í kjölfar gjaldþrots Arnarflugs. Þar héldu heimildarmenn blaðsins því fram að taprekstur Arnarflugs hafi varað lengi og ekki hafi verið rekstrargrundvöllur um langt skeið hjá félaginu.

Bogi Nils Bogason ítrekaði þetta sjónarmið Icelandair í lok árs 2020. Þar sagði hann í samtali við Markaðinn:

Það er mín skoðun að það sé engan veginn raunhæft að reka tvö flugfélög á Íslandi sem eru með Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð.

Óðinn ætlar ekki að þykjast vita hvort Icelandair-menn hafi rétt fyrir sér eða ekki. Reyndar hefur Bogi Nils síðar dregið ummælin til baka þó Óðinn efist þó um að hann hafi skipt um skoðun.

Óðinn vonar svo sannarlega að Icelandair-menn hafi rangt fyrir sér. Því það er fátt ömurlegra fyrir almenning en fákeppni, eða einokun.

Lágt eiginfjárhlutfall

Nýjasti keppninautur Icelandair birti afkomu sína fyrir árið 2022 fyrir skömmu. Play tapaði 6,6 milljörðum króna, eða 45,5 milljónum dala, á árinu. Eiginfjárhlutfallið var í ársbyrjun var 32,8% en endaði árið í 11,5%.

Ef ekki hefði komið til hlutafjáraukningar í nóvember, sem var ekki fyrirhuguð samkvæmt fjárfestingakynningu í aðdraganda skráningar félagsins, þá hefði eiginfjárhlutfallið verið 7,1% í árslok.

Óðni brá við tíðindin en rekstrarætlanir sem birtar voru fyrir skráningu á markað gerðu ráð fyrir hagnaði.

Óðni brá við tíðindin en rekstrarætlanir sem birtar voru fyrir skráningu á markað gerðu ráð fyrir hagnaði.

Vissulega var árið 2022 sérstakt ár. Olíuverðið rauk upp í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. En það eru engar nýjar fréttir að olíuverðið sveiflist. Stjórnendur Play segja að nú sé bjartara framundan. Í fjárfestakynningu með uppgjörinu segir að sala farmiða hafi gengið mjög vel í janúar.

Óðinn vonar það svo sannarlega og kenningar Icelandair-manna um eitt flugfélag verði afsannaðar með góðum rekstri beggja félaga.

Pistill Óðins birtist Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 16. febrúar 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.