*

fimmtudagur, 29. október 2020
Óðinn
1. maí 2020 08:18

Efnahagsveiran breiðist út

Kapítalistar geta ekki gert þá kröfu að njóta ágóðans þegar vel gengur en láta aðra um að greiða tapið þegar illa gengur.

Haraldur Guðjónsson

Áhyggjurnar af heimsfaraldrinum fara minnkandi á Íslandi við gleðilegar fregnir, dag eftir dag, um að ný smit greinist varla. Það má þakka fyrir þann árangur, sem náðst hefur í baráttu við veiruna, en við skyldum þó einnig gæta okkar að hreykja okkur ekki um of af honum. Ísland er eftir sem áður í 27. sæti meðal ríkja heims þegar horft er til dauðsfalla af völdum Covid-19, að tilliti teknu til mannfjölda. Og svo er ekkert hægt að útiloka um að síðari bylgjur veirunnar verði skæðari.

                                                                          ***

En um leið og áhyggjurnar af heilbrigðisvandanum fara minnkandi, þá eykst uggurinn um efnahagsvandann, sem siglir í kjölfar faraldursins. Atvinnulífið hefur verið í nokkrum hægagangi til þessa, en það er um þessi mánaðamót, sem áhrif efnahagsáfallsins eru að koma fram af fullum þunga og þau eiga enn eftir að þyngjast. Mörg þúsund manns eru að missa vinnuna og ótal fyrirtæki berjast fyrir lífi sínu. Mörg þeirra nú þegar dauðadæmd. Slíkar fréttir verða fluttar fram á haust og vel er mögulegt að áhrifin verði enn langvinnari eftir því sem efnahagsveiran breiðist út og smitar fleiri þætti atvinnulífsins. Þetta er ekkert minna en skelfilegt ástand.

                                                                          ***

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag eru gríðarlega umfangsmiklar, en til marks um það er því haldið fram að Icelandair fái 6-9 milljarða króna vegna þeirra. Margir rekstraraðilar í ferðaþjónustu hafa tekið vel í þessar aðgerðir, þó vel megi efast um að þær hrökkvi til, að þær séu til nokkurs. En þegar menn eru komnir fram á brún hengiflugsins, þá er ekki hægt að álasa þeim fyrir að fagna hverju hálmstrái.

                                                                          ***

Fyrir tveimur vikum kom Kristófer Oliversson, formaður félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu, í Kastljós Ríkisútvarpsins. Þar sagði hann að ríkisstjórnin ætti að fara með hlutabótaleiðina í 90-100%. Í þættinum sagði Kristófer svo:

„Þú þarft að losna við, geta ýtt á undan eða losnað við vexti og verðbætur. Ýtt á undan afborgunum. Þú þarft að sleppa við fasteignagjöld og geta svona samið um það litla rafmagn og þann litla hita sem þú notar."

                                                                          ***

Þá kom Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður með mjög góða spurningu. Hún spurði hvort Kristófer vildi ekki að ríkið og sveitarfélög tæki þennan kostnað.

„Ég sé ekki aðra leið," svaraði Kristófer.

                                                                          ***

Óðinn fær ekki betur séð að en að Kristófer fari þarna fram á að skattgreiðendur eigi að greiða allan kostnað af rekstri fyrirtækis hans meðan óværan gengur yfir og meðan ferðamenn láta ekki á sér kræla í viðunandi mæli, sem vel getur varað í 1-3 ár. En kannski skattgreiðendur geti bara þakkað sínum sæla fyrir að Kristófer krefjist ekki að þeir ávaxti eigið féð sem liggur í hans rekstri.

                                                                          ***

Óðinn finnur mjög til með þeim sem eru í sömu eða svipaðri stöðu og Kristófer. En svona hugmyndir ganga auðvitað ekki upp. Kapítalistar geta ekki gert þá kröfu að njóta ágóðans þegar vel gengur en láta aðra um að greiða tapið þegar illa gengur. (Hafa menn ekkert lært af hruninu?!) Engu máli skiptir þótt það sé vegna náttúruhamfara eða farsótta.

                                                                          ***

Flugmenn í fjörutíuþúsund fetum

Félag íslenskra atvinnuflugmanna sendi frá sér tilkynningu í kjölfar gríðarlegra uppsagna á þriðjudag. Þar sagði m.a.:

Flugmenn Icelandair hafa staðið með fyrirtækinu í gegnum súrt og sætt og munu halda því áfram. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama, grípa inn í og tryggja áframhaldandi grundvöll reglulegra flugsamgangna milli Íslands og umheimsins.

                                                                          ***

Er félag atvinnuflugmanna þar að tala um sömu flugmennina og hafa æ ofan í æ tekið stjórnendur flugfélagsins í gíslingu með fráleitum launakröfum síðasta áratuginn? Og ekki aðeins stjórnendurna, heldur hótað þjóðinni allri slíkri gíslatöku með því að setja samgöngur til og frá landinu í uppnám?

                                                                          ***

Björgólfur Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, taldi rétt að senda öllum starfsmönnum félagsins bréf vorið 2014 vegna verkfalls flugmanna og yfirlýsinga stéttarfélags þeirra. Flugmenn höfðu borið saman laun stjórnenda Icelandair og flugmanna Icelandair og sagt stjórnendur hafa hækkað mun meira í launum en flugmenn. Þessu svaraði Björgólfur svo:

Grunnlaun stjórnenda hafa ekki hækkað umfram samningsbundnar launahækkanir á almennum markaði síðan ég tók við sem forstjóri félagsins. Rétt er að vekja á því athygli að stjórnendur afsöluðu sér samningsbundnum launahækkunum á árinu 2009 vegna bágrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Flugmenn félagsins voru jafnframt beðnir um að leggjast á árarnar árið 2009 með launalækkunum, þegar félagið var í lífróðri [feitletrun Óðins], en höfnuðu því. Launahækkanir stjórnenda eru þannig lægri en meðaltalslaunahækkanir flugmanna á sama tímabili.

Í þeim samtölum sem ég hef átt við forráðamenn FÍA þá vísa þeir iðulega til ríkulegra launahækkana sem ég, forstjóri Icelandair Group, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group og framkvæmdastjóri Icelandair hafa fengið á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá að frá árinu 2009, sem er fyrsta heila starfsár okkar allra í núverandi stöðum, hafa heildarlaun okkar hækkað um 21,2% á fjórum árum, undirritaður hefur hækkað um 12,4%, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group um 40,6% og framkvæmdastjóri Icelandair um 10,6%. Þetta er hækkun heildarlauna milli áranna 2009 og 2013 með hlunnindum og kaupaukum - þar sem allar greiðslur eru taldar. Á sama tímabili hafa meðalheildarlaun flugmanna hækkað mun meira samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Launavísitala samkvæmt Hagstofu Íslands hefur hækkað um 38,5% á sama tíma. Hluti launa stjórnenda er vegna kaupauka sem munu ganga til baka ef reksturinn fer á verri veg.

Í bréfinu kom fram að á árinu 2013 störfuðu að meðaltali 1.503 starfsmenn hjá Icelandair ehf. í 1.381 stöðugildi. Af 100 launahæstu starfsmönnum félagsins voru 92 flugmenn.

                                                                          ***

Góð ábending

Í viðtali á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á þriðjudag var viðtal við Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur starfandi formann Flugfreyjufélagsins. Þar sagði:

„Menntunarstig flugfreyja hjá Icelandair er mjög hátt, og eru margar til dæmis hjúkrunarfræðingar," segir Guðlaug Líney sem bendir á að ekki sé hægt að reka flugfélag án flugáhafna.

                                                                          ***

Það hefur lengið verið bent á að Icelandair bjóði svo góð laun og fríðindi að vel menntað fólk sækist eftir því að vinna sem flugfreyjur og hafi hreinsað hjúkrunarfræðinga út af spítölunum. Velta má fyrir sér hvort hjúkrunarfræðingar séu ekki einfaldlega ofmenntaðir í starfi flugfreyju þó að sjálfsögðu hljóti menntunin stundum að nýtast.

                                                                          ***

En Óðinn skilur ekki ábendingu starfandi formannsins um að ekki sé hægt að reka flugfélag án flugáhafna. Það er einmitt mikilvæg forsenda fyrir rekstri flugfélags þegar enginn ferðast að hafa ekki áhafnir sem borga þarf laun. En vonandi rætist úr því sem fyrst.

                                                                          ***

Enn ein vond hugmynd Ágústs

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur verið duglegur undanfarið að fá hugmyndir. Flestar, ef ekki allar, hafa þær verið vondar.

                                                                          ***

Í gær velti Ágúst upp þeirri spurningu á Facebook, sem vitnað var til á vef Ríkisútvarpsins, hvort ríkið ætti ekki að eignast hlut í Icelandair. Óðinn veltir stundum hinu og þessu fyrir sér og spyr sig spurninga, oftar en ekki í sturtu. En þær eru ekki fréttnæmar.

„Í ljósi mikilvægi fyrirtækisins velti ég fyrir mér hvort ekki sé rétt að ríkið eignist hreinlega ráðandi hlut í félaginu. Bjargi félaginu svo ég tali nú bara mannamál, en þannig að almenningur eignist eitthvað á móti ríkisstuðningnum."

                                                                          ***

Jafnframt sagði Ágúst að við stæðum frammi fyrir neyðarástandi líkt og í bankahruninu, en þá hafi þjóðin einmitt yfirtekið bankana. Það þótti honum fyllilega sambærilegt við að nú væri Icelandair, lífæð okkar í samgöngum við umheiminn, að falla.

                                                                          ***

Þetta er rangt að fjölmörgu leyti, en Viðskiptablaðið er lítið blað og hefur ekki rými til þess að tíunda allt það sem Ágúst Ólafur Ágústsson hefur rangt fyrir sér um. Nefnum því aðeins þrennt um þetta:

                                                                          ***

Í fyrsta lagi er meginreglan sú að ríkið er afar lélegur rekstraraðili. Bestu dæmin um það eru skólarnir og spítalarnir.

                                                                          ***

Í öðru lagi tók ríkið ekki yfir rekstur bankanna í hruninu. Kröfuhafarnir eignuðust bankana en ríkið lagði öllum viðskiptabönkunum þremur til hlutfjárframlag. Í Arion banka var það 13%. Í Íslandsbanka var hlutafjárframlagið fljótlega endurgreitt og átti ríkið því aðeins 5%. Aðeins í tilfelli Landsbanka var um verulegan eignarhlut að ræða, eða 81,33%. Það var þjóðaröryggismál, gert til þess að viðhalda fjármálakerfi í landinu, en til þess var enginn annar bær.

                                                                          ***

Í þriðja lagi er ekki nokkur einasta nauðsyn að Íslendingar eigi flugfélag, ekkert frekar en Frakkar framleiði bíla, Bandaríkjamenn farþegaflugvélar eða Norðmenn ost. En ef það er þörf á samgöngum til og frá landinu, eins og Óðinn telur að muni þrátt fyrir allt verða raunin, og ef ferðamenn munu vilja koma til Íslands aftur og áfram, sem varla leikur meiri vafi á, þá munu finnast flugfélög til þess að fljúga hingað og héðan.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.