Það var viðvarandi pólitísk ókyrrð sem ýtti Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum í stjórnarsamstarf á sínum tíma.

Samstarf þessara flokka á undanförnum árum hefur skilað margþráðum stöðugleika þó svo að mörg stefnumál ríkisstjórnarinnar séu gagnrýnisverð. Þá fyrst og fremst vaxandi ríkisumsvif á flestum sviðum.

Ríkisstjórnin endurnýjaði umboð sitt fyrir ríflega ári með nýjum málefnasamningi. Þrátt fyrir að flokkarnir eigi fátt sameiginlegt hefur traust á milli oddvita flokkanna gert þeim kleift að starfa saman og takast á við erfið úrlausnarefni á borð við heimsfaraldur og efnahagslegar afleiðingar útbreiðslu þeirrar veiru sem sögð var brögðótt og brellin.

Áskoranirnar fram undan eru einnig erfiðar ekki síst á efnahagssviðinu. Kjarasamningar þorra launþega á almenna markaðnum eru lausir og hin herskáa forysta verkalýðsins dregur ekki dul á hún vill láta sverfa til stáls.  Af kröfugerð verkalýðsfélaga á borð við Eflingu og VR má sjá að farið er fram á launahækkanir sem nema tugum prósenta þegar allt er talið til. Öllu skynsömu fólki er ljóst að atvinnulífið ræður ekki við slíkar hækkanir og því má vera ljóst að stjórnvöld muni á endanum þurfa að skera á hnútinn.

Við slíkar aðstæður skiptir sköpum að ríkisstjórnin standi traustum fótum. Það er því nánast óskiljanlegt af hverju öfl innan Sjálfstæðisflokksins telji þetta vera rétta tímann til þess að freista þess að fullnægja, að því er virðist, pólitískum metnaði Guðlaugar Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Óháð úrslitum formannskosningar milli Guðlaugs og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formann flokksins, er ljóst að niðurstaðan verður slæm og ekki í þágu heildarhagsmuna neinna. Stöðugleiki stjórnarsamstarfsins hvíli á náinni samvinnu og þess trausts sem ríkir á milli oddvita flokkanna. Bjarni hefur lýst því yfir að hann hverfi af sjónarsviði stjórnmálanna ef að hann hefur ekki betur í formannskjörinu. Verði það raunin er óhjákvæmileg að velta því fyrir sér framtíð ríkisstjórnarinnar. Þjóðin má ekki við pólitískri óvissu á þeim viðsjárverðu tímum sem nú ríkja í efnahagsmálum hennar. Slík óvissa yrði vatn á myllu stjórnarandstöðunnar. Í þessu samhengi er ákvörðun Guðlaugs og stuðingsfólks hans, hagsmunamat þeirra, í besta falli sérkennilegt. 

Að sama skapi má leiða líkum að sárin sem myndast í baráttu þessara tveggja fylkinga verði lengi að gróa hvernig sem úrslitin verða. Sagan kennir okkur það. Það veikir auðvitað Sjálfstæðisflokkinn og er ekki grundvöllur til nauðsynlegrar sóknar hans í landsmálunum.

Vafalaust má velta erindi Guðlaugs Þórs í formannsstól fyrir sér. Þegar hann tilkynnti um framboð sitt gerði hann gamalt slagorð Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni, stétt með stétt. „Við vorum aldrei yfirstétt með yfirstétt, eða millistétt með millistétt“ sagði hann. Það vekur furðu að Guðlaugur skuli með þessum hætti valdefla orðræðu hinnar róttæku forystu verkalýðshreyfingarinnar og pólitískra fylgihnatta hennar. Þetta fólk hefur dustað rykið af úr sér genginni orðræðu um hina viðvarandi baráttu öreiganna við hið grimma auðvald um arðránið og brauðið.

Orðræða um stéttaátök er hjákátleg í hagkerfi sem einkennist af miklum jöfnuði. Þannig má nefna að meðallaun fólks í fullu starfi í fyrra var 823 þúsund. Til þess að komast í flokk tekjuhæstu tíundarinnar þurfti um milljón í laun á mánuði eða nokkurn veginn það sem opinber starfsmaður með sérfræðimenntun fær greitt í laun. Í ljósi þess er fráleitt af borgaralega sinnuðum stjórnmálamanna að gefa úr sér gengnum frösum nýsósíalista á Íslandi vigt í umræðunni.

Guðlaugur Þór er öflugur stjórnmálamaður sem hefur skilað góðu verki. En tímasetning framboðs hans er afleit og í raun engum til gagns. Sjálfstæðisflokkurinn hefur vissulega séð bjartari daga þegar kemur að gengi í kosningum. Ljóst er að flokkurinn þarf að takast á við ímyndarvanda sem meðal annars felst að hann á undir högg að sækja hjá ungu fólki og kvenfólki. Framboð Guðlaugs er ekki liður í að leysa þann vanda og framboðið sjálft skapar fjölda vandamála án þess að leysa neitt.