*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
3. febrúar 2020 07:03

Eftirlitsiðnaðurinn

„Við höfum algerlega misst stjórnina á eftirlitsiðnaðinum, sem fyrir löngu hefur belgst út handan hins gagnlega og góða.“

Haraldur Guðjónsson

Týr sá út undan sér að fjarskiptafyrirtækin eru ekki vel sátt við eftirlitsiðnaðinn í nýlegum umsögnum um drög að nýjum fjarskiptalögum. Hann getur á sinn hátt tekið undir aðfinnslur þeirra. En þó ekki, það þarf að ganga miklu lengra.

                                          ***

Varla þarf að stafa það ofan í lesendur Viðskiptablaðsins hvað eftirlitsiðnaðurinn hefur vaxið ört á undanförnum árum, reglugerðafarganið aukist og allar þessar frábæru stofnanir uppteknastar af því að auka ábyrgðarlausar valdheimildir sínar, fjárframlög úr ríkissjóði og fjölda starfsmanna. Kostnaðurinn sem aðrir bera af þessum völdum er hins vegar aldrei tekinn með í reikninginn.

                                          ***

Fjarskiptafyrirtækið Sýn leggur til að Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppniseftirlitið og fjölmiðlanefnd verði sameinuð. Það sé skilvirkara og tryggi skjótari málsmeðferð. Nefnt er dæmi um að það hafi í nær fimm ár beðið niðurstöðu samkeppnisyfirvalda um brýnt mál á þessum kvika markaði. Eins er nefnt að Fjölmiðlanefnd sé ekki vanda sínum vaxið, en að mati Týs er þar mjög vægt til orða tekið.

                                          ***

Það má vel taka undir þessar sameiningarhugmyndir, en um leið verður að huga betur að hlutverki eftirlitsstofnana. Það er alltof víðtækt nú þegar og ávinningurinn einatt óljós, sumt hreinasti óþarfi. Að sumu leyti er þó erfitt við að eiga, Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar þar að lútandi, ekki síst á vettvangi EES.

Þar kann hins vegar að vera ástæða til þess að kanna hvort Ísland sé ekki of þægt, að það hafi ekki látið reyna á undanþágur vegna smæðar landsins eða sérstakra aðstæðna. Nú eða eins og hvað varðar Fjölmiðlanefnd, sem að sumu leyti er reist á horfnum forsendum um ESB-aðlögun vegna uppgufaðrar aðildarumsóknar.

Og hvað mun þá um Persónuvernd í sinni endalausu en oft tilgangslausu útþenslustefnu? Að ekki sé minnst á GDPRóskapnaðinn, einhvers misheppnaðasta regluverks ESB, sem engu hefur skilað nema ómaki, útgjöldum og 18 skrilljónum kökusamþykktarglugga.

                                          ***

Nei, við höfum algerlega misst stjórnina á eftirlitsiðnaðinum, sem fyrir löngu hefur belgst út handan hins gagnlega og góða. Það dugir ekki að sameina einhverjar furðustofnanir og vona hið besta, það þarf að taka alla þessa fánýtu stjórnsýslu til gagngerrar endurskoðunar með hagsmuni fólksins og fyrirtækjanna í landinu í fyrirrúmi.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.