*

laugardagur, 25. september 2021
Huginn og muninn
31. júlí 2021 11:05

Eftiráspekingarnir

Stjórnarandstaðan keppist við að segjast hafa varað við afléttingu sömu sóttvarnartakmarkana og hún fagnaði innilega fyrir mánuði.

Helga Vala Helgadóttir.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir hafa skemmt sér konunglega við að fylgjast með tilraunum stjórnarandstöðunnar síðustu daga til að slá Íslandsmet í eftiráskýringum varðandi sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Slá þær jafnvel við eftiráspekinni um söluferli Íslandsbanka. Nú keppast stjórnarandstöðuþingmenn við að segjast hafa varað við afléttingu sömu sóttvarnartakmarkana og þeir fögnuðu innilega fyrir mánuði.

Það var erfitt að skilja þingmenn Samfylkingarinnar þannig að þeir legðust gegn afléttingu þá. „Já þetta gerðum við saman og megum sko vera stolt,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, við tímamótin í lok júní.

Guðmundur Andri Thorsson, annar þingmanna Samfylkingarinnar, fann afléttingunni flest til foráttu í grein á Vísi í vikunni, mánuði eftir að hann birti færslu á Facebook um sama mál undir yfirskriftinni: „Og svo kom sólin upp“ þar sem hann þakkaði þjóðinni fyrir árangurinn. Er að undra að illa gangi hjá Loga Einarssyni að auka fylgið?

Í lok júní höfðu raunar flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar lítið um þetta stóra hagsmunamál þjóðarinnar að segja en þeim mun meiri áhuga á niðurstöðu eftirlitsnefndar með störfum lögreglunnar hvað varðar hina landsfrægu sölusýningu í Ásmundarsal á Þorláksmessu.

Stjórnarandstaðan kallar nú eftir framtíðarsýn um sóttvarnamálin án þess að leggja neitt fram sjálf. Flokkarnir eiga að heita í kosningabaráttu og ættu að vera í kjörstöðu til að útskýra hvernig þeir sjá fyrir sér tilhögun þessara mála sem og annarra næstu árin.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.