*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Lára Björg Björnsdóttir
24. október 2013 14:39

Ég hata þig Meistaramánuður

Einn meginhryllingurinn við svona átak er að það er sjálfkrafa gert ráð fyrir því að allir séu með.

Vitiði hvað kom fyrir mig um daginn? Viljiði vita það? Ég var send í fitumælingu með vinnustaðnum. Og útkoman? Fituprósentan er vel yfir 30 prósent og ég er með nær enga vöðva, samkvæmt mælingartækjunum er ég á fimmtugsaldri í lífaldri, með smjör í æðum, er lág í vökva og á, svona miðað við útkomuna í heild, líklega 3 mánuði eftir ólifaða.

Ég var alveg sátt með mig þangað til ég var send í fitumælinguna. Bara í góðum fíling. Mér fannst ég svo fín, þannig lagað, ekkert frábær en þið vitið, maður reynir að halda haus. En hausinn er ekki hátt uppi þessa dagana. Ekki eftir fitumælinguna. Þökk sé ákveðnu átaki sem heitir Meistaramánuður.

Fyrir ykkur sem eruð svo heppin að búa í helli eða neðanjarðarbyrgi þá er október sumsé tileinkaður „meistaranum í okkur“. Fólk tekur mataræðið í gegn, „neitar sér“ um eðlilega hluti eins og brauð og nammi og fer svo út að djöflast eitthvað.

Einn meginhryllingurinn við svona átak er að það er sjálfkrafa gert ráð fyrir því að allir séu með. Öll þjóðin á að húrrast í fjörið. Það er auðvelt að ímynda sér hvers konar vítiskvalir svona mánuður ber með sér fyrir partípúpera eins og mig sem forðast miðbæinn á 17. júní, Menningarnótt og Þorláksmessu. Þjóðarfitumæling er bara eitthvað sem ég get ekki skrifað undir.

Ég fór samt í fjandans mælinguna með vinnustaðnum. Ég gerði það þegar ég sá að örlítið hik mitt við tilboði um fitumælingu vakti svipuð viðbrögð og að ég hefði kastað táragasi inn í barnaafmæli. Svo, af því að ég vil ekki vera partíspillir, fúli hundurinn eða týpan sem nennir engu, þá lét ég tilleiðast. En aldrei aftur.

Það sem er síðan svo sorglegt við allt þetta hópefli eru raunir aumingja fólksins sem neitar sér um hlutina sem veita því ánægju. Ég á litla frænku sem hét því að horfa ekki á Kardashian allan mánuðinn því einhver sagði henni að þættirnir væru drasl. Kardashian drasl? Hafiði vitað aðrar eins ofsóknir?

Hvernig væri nú bara að horfast í augu við staðreyndir og kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Afhverju heitir þetta helvíti ekki bara Pyntingamánuður? Píslarvottamánuður? Einkaþjálfarar-pönkast-í-lýðnum-mánuður? Munkamánuður? Börðu munkarnir á Spáni sig ekki með ól þúsund sinnum á rassinn í einhverjum mánuðinum til að friða Guð og menn?

Fyrirgefiði en er Meistaramánuður eitthvað annað en þetta? Því segi ég: Nú er mál að linni. Hættum þessu og fáum okkur ristað brauð.

Og bara eitt að lokum hérna: Þið getið tekið þennan Meistaramánuð og troðið honum.

 

Pistill Láru Bjargar Björnsdóttur birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.