Margir kaupa rafmagn. Einstaka framúrstefnulegur orkubóndi hefur þó sína eigin virkjun. Sumir nota vatn, aðrir sólina og enn aðrir vindinn. Lengi vel fór mest af orku bóndans til spillis. Ef hann notaði hana ekki þá og þegar hvarf hún eins og dögg fyrir sólu. Þetta hefur lengi verið vandamál, þ.e.a.s. hvað rafmagnið er með lítið geymsluþol. Þetta vandamál er hins vegar ekki jafn mikið og það var. Nú getur framúrstefnulegi orkubóndinn fengið sér eins konar heimabatterý (t.d. Tesla Power Wall) og þannig geymt umframorkuna og notað síðar.

En hvað ef að framúrstefnulegi orkubóndinn vildi gera meira en bara geyma hana fyrir sjálfan sig? Hvað ef hann vildi deila henni með öðrum? Vestanhafs er framúrstefnulegum orkubændum oft boðið upp á svokallað „net metering,“ þar sem þeir geta selt umfram orkuna sína aftur inn á kerfið í samstarfi við orkufyrirtækið sitt. Verðið fæst með samkomulagi milli bóndans og orkufyrirtækisins. Sumir hafa hins vegar lagst gegn þessu fyrirkomulagi á þeim forsemdum að orkubóndinn ætti að borga fyrir að fá að nota dreifikerfið. Það er að ýmsu að hyggja.

Hvað um það. Hér er pæling. Hvers vegna ætti verðið að ákveðast af samkomulagi bóndans og orkufyrirtækinu hans? Hver (og hvað) segir að framúrstefnulegi orkubóndinn megi ekki selja nágranna sínum umframorkuna? Ef að heimavirkjanir verða sífellt aðgengilegri og ódýrari hvers vegna ættu orkubændur ekki að fá að selja rafmagnið sitt hæstbjóðenda á frjálsum markaði? Góð gagnrök gegn slíkri fullyrðingu væri að „hobbýbændurnir“ hefðu hvorki þekkingu né getu að viðhalda flutningskerfinu á sama hátt og stórbændurnir.

Það þarf ýmislegt að gerast svo framúrstefnulegu orkubóndinn fái auka salt í grautinn í norðvestan tuttugu metrum með vindmyllunni sinni eða suðaustan tveimur með sólarsellunni. En þangað til; getur hann að minnsta kosti geymt hana.

Höfundur er hobbýbóndi.