Við erum baráttuglöð þjóð og við stöndum saman þegar gefur á bátinn, þó við tökumst oft á um hitt og þetta. Þetta kemur vel í ljós þegar við tökum þátt í landsleikjum í íþróttum og þegar við glímum við náttúruöflin.

En nýleg grein í bresku tímariti vakti mig til umhugsunar um þetta. Þar var viðtal við James Dyson sem stýrir samnefndu fyrirtæki sem framleiðir meðal annars ryksugur. Dyson greinir frá verkefni sem ráðist var í 2017 og gekk út á að þróa rafmagnsbíl.

Á seinni hluta 2019 var ákveðið að hætta við þetta verkefni, sem kostað hefur gríðarlega fjármuni. Aðspurðir segja forsvarsmenn Dyson að betra sé að viðurkenna ósigur núna heldur en að halda áfram og kasta frekari fjármunum í vonlaust verkefni. Litið er á sérhvert verkefni sem tækifæri til að læra eitthvað nýtt og öll sú reynsla og þekking sem verður til í einu verkefni mun styðja við önnur verkefni í framtíðinni.

Vitnað er í tvo þekkta fræðimenn sem fjallað hafa um það hvenær beri að hætta við verkefni. Harold Kerzner hefur tilgreint nokkrar meginástæður.

  • Ekki er hægt að ná markmiðum verkefnisins og það virðist ekki heldur munu skila neinum verðmætum á sviði hugverkaréttar.
  • Meginforsendur hafa breyst, til dæmis markaðsaðstæður.
  • Útkoma verkefnisins getur orðið úrelt fyrr en ætlað var.
  • Kostnaður hefur aukist og/ eða tímaáætlanir hafa farið mjög úr skorðum.
  • Tæknilegir örðugleikar virðast óyfirstíganlegir.
  • Vandamálið sem verið er að leysa er of flókið til að fyrirtækið nái utan um það.
  • Fólk með nauðsynlega grunnþekkingu er ekki lengur aðgengilegt.
  • Lausafjárvandamál, til dæmis vegna aðstæðna sem eru verkefninu óviðkomandi.
  • Grunnbreytingar hafa orðið á stefnu fyrirtækisins.

Darren Dalcher prófessor hefur kennt í MPM náminu um árabil. Hann segir það algengt vandamál að þegar fyrirtæki hafa varið miklu fé í verkefni þá virðist það auðveldari ákvörðun að eyða aðeins meira fé til að styðja fyrri ákvarðanir. Einnig séu menn oft hræddir við að glata virðingu með því að viðurkenna mistök. Loks sé það tilhneiging að vera bjartsýnn, en bjartsýnin skekkir oft mat á kringumstæðum og leiðir til óskynsamlegra ákvarðana.

Þessi fróðleikur frá Kerzner og Dalcher á vissulega við í íslensku samhengi. Það er ekki auðvelt fyrir okkur að gefast upp. Í verkefnum getur það orðið til þess að kostnaðarsöm mistök leiða til miklu meiri kostnaðar. Til dæmis ef búið er að grafa grunn þá er tilhneigingin sú að gefast ekki upp, halda áfram og byggja húsið. Hér getur þessi fallegi eiginleiki - að gefast ekki upp - snúist upp í andhverfu sína, ef bílförmum af nýjum peningum er mokað í botnlausa holu á eftir peningum sem eru þegar tapaðir.

Við eigum auðvitað mörg dæmi um þetta, en til gamans langar mig að nefna tvö verkefni sem gengu bæði út á að reisa kísilmálmverksmiðjur. Fyrra dæmið er frá Reyðarfirði en þar stóð til að reisa slíka verksmiðju seint á síðustu öld og á árabilinu 1982-1986 var 185 m.kr. varið til undirbúnings þess verkefnis ( sjá frétt í Mbl. 12. júlí 1988 ).

Þetta svarar til 818 m.kr. á verðlagi í desember 2019. Verkefnið var langt komið, en á undirbúningstímanum lækkaði verð afurðar á heimsmarkaði og ákvörðun var loks tekin um að hætta við. Þetta var án vafa rétt ákvörðun því arðsemin var þar með að engu orðin og ákvörðun um halda því áfram hefði jafngilt ákvörðun um að tapa miklu meira fé.

Hitt verkefnið er önnur kísilmálmvinnsla, að þessu sinni í Helguvík á Reykjanesi. Samantekt frétta má finna á slóðinni ( http:// world.is/news/unitedsilicon/ ). Verksmiðjan var byggð í Helguvík og gangsett haustið 2016, en rekstri hennar var hætt haustið 2017, vegna mikilla erfiðleika í rekstri og margvíslegra tæknilegra vandamála, til viðbótar við vel þekkt og mjög sveiflukennt markaðsumhverfi fyrir afurðina.

Í Helguvík hafa bankar og lífeyrissjóðir tapað gríðarlegum fjármunum og þegar horft er til baka finnst mörgum að betra hefði verið að hætta við á fyrri stigum, jafnvel þó nokkru fé hefði þá þegar verið varið í undirbúning og athuganir. Lesendur geta kannski kíkt á upptalningu Kerzners og Dalchers hér að ofan og mátað ábendingar þeirra við þessi tvö sambærilegu verkefni á Íslandi, sem upp komu með 25 ára millibili og þróuðust með ólíkum hætti.

Þessi sannindi lifnuðu við í huga mínum þegar ég hlustaði á frábært erindi Grétu Maríu Grétarsdóttur í boði MPM námsins við HR og Viðskiptablaðsins föstudaginn 17. janúar. Gréta María talaði um listina að mistakast. Hún stýrir Krónunni og nær frábærum árangri í erfiðri samkeppni og krefjandi rekstrarumhverfi. Ekki síst tengdi ég við fyrirsögnina. Gréta María reynir að byggja upp þá menningu í fyrirtæki sínu að óttast ekki mistök.

Allir gera mistök og ekki má hræðast þau heldur ber að hvetja fólk til að stíga fram og viðurkenna mistök, til að allir megi þá læra af þeim. Lykilorðið í skilaboðum Grétu Maríu held ég að sé menning. Hún byggir upp menningu í fyrirtæki sínu þar sem ekki er refsað fyrir að greina frá mistökum, fólk er hvatt til að stíga fram og greina frá ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Um leið er þetta menning sem hvetur fólk til að vera uppátækjasamt og hafa frumkvæði og vera óhrætt með að koma með nýjar hugmyndir.

Við ættum að taka viðhorf Grétu Maríu til fyrirmyndar. Karlinn sem vitnað er til í fyrirsögn þessa pistils hafði rangt fyrir sér. Betra er að bogna en brotna.

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.