*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Leiðari
24. júlí 2018 11:29

Eignaréttur og jarðakaup

Það er sjálfsagt að gefa eignarhaldi bújarða gaum, en það væri rangt, óraunhæft og ástæðulaust að taka alfarið fyrir kaup útlendinga á íslenskum landareignum.

Haraldur Guðjónsson

Kaup útlendinga á bújörðum hafa verið til umfjöllunar og það gagnrýnt að heilu og hálfu sveitirnar geti safnast á fárra hendur. Áhyggjur þessar hafa m.a. verið ræddar í ríkisstjórn, en sveitarstjórnarráðherra vonast til þess að geta lagt fram frumvarp fyrir Alþingi nú í haust til þess að skakka leikinn.

Samkvæmt fasteignaskrá eru 7.670 skráðar jarðir á Íslandi. Þar af eru 384 jarðir að hluta eða öllu leyti í eigu fólks með lögheimili erlendis, tæplega 2.400 jarðir eru í eigu félaga eða fyrirtækja, nánast þriðjungur allra jarða. Eitthvað af þeim er í eigu útlendinga, en ekki liggur fyrir hve mikið. Loks á ríkið um 450 jarðir, en auk þeirra á ríkið gríðarmikið land, bæði í dreifbýli og þéttbýli.

Margar umræddra jarða eru laxveiðijarðir og veiðirétturinn það sem menn slægjast eftir, svo ýmsir hafa látið í ljós áhyggjur af því að jarðirnar leggist í eyði að öðru leyti. Það er hins vegar alls ekki sjálfgefið, því þar opnast ungum og atorkusömum bændum leið til þess að leigja jarðir, sem ella væru eða færu í eyði. Landeigendur vilja auðvitað ekki að jarðir þeirra grotni niður og fáir slá hendinni á móti aukinni rentu.

Það er sjálfsagt að gefa eignarhaldi bújarða gaum, en það væri rangt, óraunhæft og ástæðulaust að taka alfarið fyrir kaup útlendinga á íslenskum landareignum. Þá væri það fráleitt að leggja auknar kvaðir á erlenda jarðeigendur um nýtingu bújarða, líkt og Miðflokkurinn hefur lagt til. Standi pólitískur vilji til aukinna kvaða á eigendur jarða verða þær vitaskuld að gilda jafnt um alla óháð uppruna, ríkisfangs eða búsetu. Viðskiptablaðið varar hins vegar eindregið við slíkum freistingum; ætlaður vandi sveita landsins verður ekki leystur með vistarbandi nú frekar en fyrr.

Auðvitað kemur til greina að setja hömlur á stöku jarðarkaup ef til þess standa sérstakar, málefnalegar og lögmætar ástæður, svo sem almannahagsmunir, öryggisjónarmið, umhverfisvernd eða réttur annarra. Slíkar takmarkanir þurfa hins vegar að vera almennar og ná jafnt yfir Íslendinga sem útlendinga. Til þess standa nú þegar ýmis lög og heimildir, sennilegast rýmri en vera þyrfti. Í því samhengi er vert að minnast þess að Ísland er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), þar sem sú meginregla á að gilda, að landsbundin meðferð eigi almennt að gilda jafnt um íbúa og útlendinga.

Hagkvæm viðskipti með jarðnæði og virkur markaður með jarðir er veigamikill fyrir þróun og vöxt efnahagslífsins. Kaup og sala jarða, einnig þegar útlendingar eiga í hlut, eykur bæði framleiðni, aðgang að fjármagni, tækni og þekkingu, og stuðlar að betri nýtingu náttúruauðlinda og mannauðs. Allt örvar það þjóðarhag.

Það er hins vegar með þann markað sem aðra, að sérhver inngrip í hann eru til þess fallin að bjaga verðmætamat og auka sóun. Séu skorður settar á eignarhald á landi hérlendis er ekki aðeins verið að skerða rétt útlendinga til þess að eignast hér jarðir og þau hlunnindi sem fylgja, heldur einnig verið að ganga á eignarrétt þeirra, sem eiga jarðirnar fyrir. Þeir verða þá bundnir við mun minni kaupendahóp en ella, en með þeirri skertu eftirspurn segir sig sjálft að þeir geta ekki vænst sama verðs fyrir eign sína.

Eignarrétturinn er bundinn í stjórnarskrá og hann er ekki síður helgur en önnur mannréttindi. Ákvæði um frelsi borgaranna eru innantóm ef þeir mega ekki nýta eignir sínar eins og þeir helst kjósa, þar á meðal til kaupa og sölu á jörðum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is