*

mánudagur, 25. október 2021
Örn Arnarson
20. september 2021 07:05

Eignaskattur, misskilningur á Rotary-fundi og fjármálalæsi VR

Það er látið í veðri vaka að stóreignaskatturinn svokallaði verði einungis lagður á ofurríka fjármálafakíra og ríkisbubba.

Það var lærdómsríkt að fylgjast með Silfrinu á sunnudag fyrir rúmri viku. Í þættinum mættu frambjóðendur flokkanna og ræddu við þáttastjórnandann um kosningamálin. Allir sem þátt tóku í umræðunum, þar með talinn þáttastjórnandinn, virtust vera meira og minna sammála um að helsta verkefni stjórnmálanna um þessar mundir væri að skattleggja alla þessa tugi milljarða króna sem á víst vera að finna í hagkerfinu og væru engum til gagns nema stjórnmálamönnum með góðan ásetning.

                                                                         ***

Ólíkt því sem gerðist fyrir síðustu alþingiskosningar hefur enginn fjölmiðill reiknað út hvaða skattatillögur einstakra flokka koma til með að skila í raun og veru og því síður kannað áhrif skattlagningarinnar á einstaka þjóðfélagshópa og atvinnugeira. Fyrir kosningarnar 2017 gekk Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, fram með góðu fordæmi og birti úttekt á útgjaldaáformum þeirra flokka sem þá voru í framboði. Niðurstaðan var afgerandi: Þær skattahækkanir sem voru boðaðar stóðu engan veginn undir þeirri útgjaldaraukningu sem stefnt var að ráðast í. Úttekt Markaðarins hafði töluverð áhrif á kosningabaráttuna eftir að hún birtist enda gaf hún tilefni til að spyrja frambjóðendur markvissari og greinarbetri spurningar.

Því miður hafa fjölmiðlar ekki enn fetað þessa leið fyrir kosningarnar þann 25. september. Vissulega hefur verið fjallað um einstaka skattatillögur en sú umfjöllun hefur í besta falli verið yfirborðskennd. Sá skattur sem mest hefur verið rætt um er boðaður stóreignaskattur Samfylkingarinnar. Vafalaust er það tákn hins sósíalíska tíðaranda sem sagður er ríkja á landinu að menn eru farnir að kalla hlutina réttum nöfnum. Síðast þegar Samfylkingin lagði slíkan skatt á fyrir um áratug var hann kallaður auðlegðarskattur.

Hvað um það. Fjölmiðlar, þá helst Morgunblaðið, hafa eitthvað fjallað um hvort þessi skattheimta gæti stangast á við stjórnarskrá og er þá vísað til niðurstöðu hæstaréttardóms sem féll þegar auðlegðarskatturinn var lagður á. En það eru fleiri fletir á málinu sem full ástæða er til að fjölmiðlar fjalli um. Ekki síst vegna þess fjölda sem sem mun þurfa að greiða skattinn ef hann kemst til framkvæmdar að loknum kosningum.

Það er látið í veðri vaka að stóreignaskatturinn svokallaði verði einungis lagður á ofurríka fjármálafakíra og ríkisbubba sem kunna ekki aura sinna tal. Það er skiljanlegt að fólk sé spennt fyrir slíkri skattlagningu. Staðreynd málsins er hins vegar sú að útfærslu skattsins samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar svipar til auðlegðarskattsins sem var lagður á árunum 2010 til 2014. Tillögurnar gera ráð fyrir að einstaklingar og hjón sem eiga 200 milljónir í hreina eign greiði skattinn. Að því gefnu að skatturinn muni miðast við fasteignamat og markaðsvirði skráðra hlutabréfa ásamt öðrum eignum er ljóst að mun fleiri en þeir allra ríkustu munu greiða skattinn. Ljóst er að fjöldi fólks sem á til að mynda skuldlaust húsnæði og einhvern sparnað að lokinni þátttöku á vinnumarkaði mun greiða skattinn.

Miðað við reynsluna af auðlegðarskattinum á sínum tíma er furðulegt að fjölmiðlar reyni ekki að skýra þetta með greinarbetri hætti. Ekki síst í ljósi þess að málefni eldri borgara eru fyrirferðarmikil í aðdraganda þessara kosninga eins og annarra undanfarna áratugi.

Á útmánuðum 2012 birti Íslandsbanki úttekt á áhrifum auðlegðarskattsins. Samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra greiddu um 6 þúsund heimili skattinn meðan hann var við lýði. Eins og segir í umfjöllun Morgunblaðsins um úttektina þá var umtalsverður fjöldi greiðenda auðlegðarskattsins tekjulágir eldri borgarar og dæmi hafi verið um að eldri borgarar hafi þurft að selja ofan af sér húsið til að standa í skilum á auðlegðarskattinum. Skoðun Íslandsbanka leiddi í ljós að 37% greiðenda skattsins voru 65 ára og eldri og 22% greiðenda 75 ára og eldri. Það sem er kannski mest sláandi við úttekt bankans er að tveir þriðju greiðenda skattsins höfðu þá árstekjur undir fimm milljónum króna og þar af leiðandi takmarkað svigrúm til að standa skil á skattinum án þess að selja frá sér eignir.

Ætla má að töluverður fjöldi eigi mikla hagsmuni að því að vita hver yrði nákvæm útfærsla á boðuðum stóreignaskatti áður en gengið er til kosninga og er það hlutverk fjölmiðla að kalla eftir henni. Skatturinn er boðaður með þeim formerkjum að skattleggja eigi hina ofurríku. Reynslan af auðlegðarskattinum á síðasta áratug bendir ekki til að það verði reynslan. Rétt eins og þeir sem fylgdust með fjölda þeirra sem voru skráðir í hópinn Íslendingar í Barcelona á árunum 2010 til 2014 vita, þá geta þeir sem raunverulega standa undir skattheimtunni auðveldlega komist hjá stóreignaskattinum. Eftir situr í súpunni umtalsverður fjöldi venjulegs fólks sem á einhverjar eignir eftir að hafa staðið í skilum á öllum sköttum og gjöldum eftir áratuga þátttöku á atvinnumarkaði.

                                                                         ***

Undarlegum fréttum á forsíðu Fréttablaðsins fjölgar. Fimmtudaginn 9. september er þeirri stórfrétt slengt á forsíðu að Þorsteinn Pálsson, pistlahöfundur blaðsins, hafi sagt í vikulegri grein sinni í blaðinu að efnahagsviðsnúningurinn á Íslandi vegna heimsfaraldursins væri veikari en í flestum ríkjum Evrópu. Þorsteinn hafði þessar upplýsingar úr erindi sem Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, hélt í einhverjum Rotary-klúbbi á höfuðborgarsvæðinu vikuna áður.

Reyndar vísaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þessari túlkun Þorsteins á bug í sömu forsíðufrétt. Daginn eftir birtist svo aðsend grein frá Má þar sem að hann tók í sama streng og sagði Þorstein hafa misskilið erindi sitt.

Það að misskilningur vikulegs pistlahöfundar á hagtölum sem eru öllum aðgengilegar sé tilefni burðarfréttar á forsíðu vekur upp áleitnar spurningar um fréttamatið á ritstjórn blaðsins.

                                                                         ***

Meira af misskilningi og rangtúlkunum. Á föstudaginn birtu margir fjölmiðlar fréttatilkynningu um ályktun stjórnar VR um álagningu íslenskra banka á útlán þeirra. Flestir fjölmiðlar gerðu sér mat úr eftirfarandi fullyrðingu í fréttatilkynningunni:

„Þarna má sjá að meðalvextir útlána bankanna eru 5,22% á móti aðeins 1% meðalvöxtum innlána sem gerir mismun uppá heil 4,22 prósentustig. Það er nú þokkaleg álagning og satt að segja myndu nú flestir segja að verslun sem kaupi mjólkurlítra á 100 kr. en seldi á 522 kr. væri með ofurálagningu og lái okkur því hver sem vill ef við köllum þetta þá að sama skapi okurvexti eða a.m.k. ofurálagningu."  

Það er fremur vandræðalegt að fjölmiðlar taki þennan málflutning upp enda ætti flestum sæmilega fjármálalæsum mönnum það vera ljóst að þarna er verið að reikna muninn á óbundnum innlánsvöxtum og útlánsvöxtum á fasteignalánum til langs tíma. Eins og flestir vita fjármagna bankarnir fasteignalánveitingar sínar með útgáfu á löngum sértryggðum skuldabréfum. Bankarnir hafa að undanförnu verið að gefa út slík bréf til fimm ára með 3,6-3,7% vöxtum.

Vilji menn fylgjast með þróun vaxtamunar í íslensku bankakerfi er hægt að lesa fjármálastöðugleikaskýrslur Seðlabankans. Í síðustu skýrslu kemur eftirfarandi fram:

Lægra vaxtastig og minna svigrúm til að lækka vexti á fjármögnun KMB hefur leitt til þess að vaxtamunur hefur minnkað. Á síðasta ári var vaxtamunur heildareigna KMB 2,56%. Lækkaði hann um 0,15 prósentur á árinu og um 0,32 prósentur á síðustu tveimur árum.

„Lægra vaxtastig og minna svigrúm til að lækka vexti á fjármögnun KMB (kerfislega mikilvægra banka) hefur leitt til þess að vaxtamunur hefur minnkað. Á síðasta ári var vaxtamunur heildareigna KMB 2,256%. Lækkaði hann um 0,15 prósentur á árinu og um 0,32 prósentur á síðustu tveimur árum."

Aðeins einn fjölmiðill, Fréttablaðið, kannaði hvort eitthvað væri að baki stórkallalegu orðalagi yfirlýsingar stjórnar VR og komst að því að sjálfsögðu að svo var ekki.

En það er í raun fréttaefni að stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingar sem eru skrifaðar af jafn yfirgripsmikilli vanþekkingu.

                                                                         ***

Ríkisútvarpið hefur allar götur verið sér á báti þegar kemur að fréttaskýringum um efnahagsmál. Á þriðjudag birtist á vef RÚV fréttaskýring sem fjallar um að hátt heimsmarkaðsverð á áli hafi jákvæð áhrif á rekstur álvera á Íslandi. Fyrirsögn fréttaskýringarinnar var: Hátt álverð jákvætt fyrir álver hér á landi. Hver hefði séð það fyrir?

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.