Umræðan um loftslagsvána hefur fengið vængi undanfarna mánuði. Hana ber að taka mjög alvarlega. Til að ná markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda eru flestir sammála um að mannkynið þurfi að breyta hegðunar- og neyslumynstri sínu verulega. Þetta sameiginlega viðfangsefni heimsbyggðarinnar þarf að nálgast með yfirvegun og á heildstæðan hátt. Geðshræring, hræðsluáróður, vanhugsaðar og fljótfærnislegar upphrópanir auka ekki skilning á vandanum.

Flugsamgöngur hafa fengið einna mestu athyglina í umræðunni um loftslagsvána og eru nú úthrópaðar sem mesti umhverfisskaðvaldurinn. Hugtakið „flugskömm“ hefur verið áberandi að undanförnu og er þar gefið í skyn að fólk skammist sín, eða eigi í það minnsta að hundskammast sín fyrir að stíga upp í flugvél.

Tískuskömm

Athyglin er bæði áhugaverð og umhugsunarverð, ekki síst í því ljósi að flugsamgöngur í heiminum bera einungis ábyrgð á 2,5-3% af útblæstri koltvíoxíðs (Co2). Til samanburðar ber framleiðsla úr textíl þar af á tískufatnaði ábyrgð á um 10% af Co2. Ég hef ekki enn heyrt nokkurn mann tala um „tískuskömm“. Það heyrast hins vegar háværar raddir um það að draga þurfi verulega úr flugsamgöngum og að fólk eigi að hætta að fljúga „að óþörfu“.

Þá kemur upp spurningin um hver ætlar að sitja í dómarasætinu og ákveða hvaða ferðir fólks flokkast sem óþarfi og hverjar ekki. Þegar verið er að grípa til aðgerða til að draga úr útblæstri koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda, þá getum við ekki hugsað hverja aðgerð fyrir sig sem einangrað fyrirbæri án afleiðinga, heldur verðum við að hugsa um áhrifin sem hún hefur á aðra mikilvæga þætti. Þar hljótum við að þurfa að beita einfaldri kostnaðarog ábatagreiningu; hugsa um hvar við náum fram sem mestum ávinningi með sem minnstri skerðingu á farsæld þjóða. Um 58% allra ferðalaga um heiminn eru með flugi. Um það bil 10% starfa í heiminum eru í ferðaþjónustu. Í sumum löndum heimsins er hlutfallið miklu hærra og til eru þjóðir, sem eiga allt sitt undir þjónustu við ferðamenn. Takmörkun á flugsamgöngum hefði gríðarleg áhrif á ferðaþjónustu út um allan heim. Þess vegna verja flugvélaframleiðendur og flugrekendur nú háum upphæðum til rannsókna og aðgerða sem ætlað er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af flugi.

„Heimskt er heimaalið barn“

Ferðaþjónusta hefur vissulega ýmis neikvæð áhrif á umhverfið eins og allar atvinnugreinar hafa, en jákvæð áhrif hennar, jafnt á umhverfi, efnahag og samfélög þjóða, vega miklu þyngra. Það er ekki alltaf augljóst, en oft á tíðum þá á það fjármagn sem ráðstafað er í heiminum til umhverfisverndar, landræktar og verndun dýra- og fuglategunda í útrýmingarhættu, uppruna sinn í vösum ferðamanna. Ferðaþjónusta hefur verið það hreyfiafl, sem hefur skilað hvað mestum árangri í baráttunni gegn fátækt í heiminum. Hún hefur búið til tækifæri þar sem engin voru fyrir og ýtt undir hagvöxt bæði í þróuðum og vanþróuðum ríkjum heimsins.

„Heimskt er heimaalið barn“ eru orð að sönnu. Ljóst er að ferðir manna á milli landa, hvort sem er til náms, viðskipta eða skemmtunar hafa víkkað sjóndeildarhringinn og greitt fyrir auknum skilningi á milli menningarheima, aukið umburðarlyndi, dregið úr fordómum og flýtt fyrir framþróun á öllum sviðum – s.s vísindum, tækni, og listum. Ekki skal svo vanmeta lýðheilsugildi ferðalaga. Flestum finnst gaman og gefandi að ferðast. Sjá nýja staði, anda að sér framandi menningu og snúa svo endurnærðir til hverdagsleikans. Án ferðalaga væri léttleiki tilverunnar minni. Það er einmitt aðalástæðan fyrir örum vexti atvinnugreinarinnar undanfarna áratugi – ferðalög gefa lífinu innihald og gildi. Þar eiga rafræn samskipti og sýndarveruleiki engan séns. Því er vert að velta því fyrir sér hvernig takmörkun flugsamgangna kæmi út í kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir heimsbyggðina í heild samanborið við aðrar færar leiðir til að draga úr útblæstri.

Lífæð íslenskrar ferðaþjónustu

Ísland er eitt þeirra landa í heiminum, sem á sífellt meira undir ferðaþjónustu og ekki óvarlegt að áætla að bæði hagur og farsæld Íslendinga í framtíðinni verði sterklega tengd framgangi atvinnugreinarinnar. Vert er að minna á að ferðaþjónusta er sterkasta tækifærið sem við eigum þegar kemur að byggðafestu í landinu. Flug er lífæð ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðaþjónusta þrífst á náttúru og hreinleika landsins og greinin er sér fullmeðvituð um það. Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi munu ekki skorast undan ábyrgð sinni og eru löngu farin að huga að ábyrgum rekstri í öllu tilliti. Þau átta sig á að sjálfbærni er óaðskiljanlegur þáttur í framtíð áfangastaðarins Íslands. Á flestum vígstöðvum er verið að þróa nýjar aðferðir og lausnir og vel er fylgst með nýjum möguleikum og nýrri tækni, sem gera fyrirtækjum kleift að starfa við kolefnishlutleysi.

Stjórnvöld og ferðaþjónustan hafa sett sér markmið fram til ársins 2030 um að verða „leiðandi í sjálfbærni“ og það er til vitnis um það að greinin tekur fulla ábyrgð á sjálfri sér til framtíðar. Það er því í þessu eins og öðru, mikilvægt að horfa alltaf á heildarmyndina.

Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.