Á miðvikudagskvöld flutti Rúnar Snær Reynisson fréttamaður á Ríkisútvarpinu okkur stórtíðindi.

Samkvæmt fréttinni þá brýtur Hálslón Kárahnjúkavirkjunar á hverju ári um tvo til þrjá metra af friðlandinu í Kringilsárrana - sem er að sögn Rúnars gróðurvin á hálendinu og griðland hreindýra.

Rúnar Snær hóf fréttina á því að sýna Kárahnjúkasvæðið og upplýsti okkur um þetta:

„Bygging Kárahnjúkavirkjunar er ein umdeildasta framkvæmd Íslandssögunnar enda umhverfisáhrifin mikil. Hálslón þekur 57 ferkílómetra lands þegar það er fullt.“

Kringilsárrani hlýtur að vera einstakur staður fyrst það er „gróðurvin á hálendinu og griðland hreindýra.“ En skoðum málið aðeins betur. Við skulum fletta upp í árbók Ferðafélags Íslands frá 1987, áður en þessi skelfilega og umdeilda virkjun var byggð. Þar segir um Kringilsárrana:

Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar…

Þetta er þungur dómur yfir þessari gróðurvin Rúnars Snæs. Höfundur árbókarinnar, þessi sem árið 1987 taldi að á Kringilsárrana væri ekkert merkilegt að sjá, heitir Hjörleifur Guttormsson umhverfisverndarsinni.

Það kom vissulega fram í ekkifréttinni að Landsvirkjun og Landgræðslan væru að bregðast við þessu, m.a. með varnargarði. Ekki nóg með það heldur hækkar landið mikið rétt innan við landbrotið og því er þar náttúrulegur varnargarður. Að auki er friðlandið 63.720.000 fermetar að stærð - 63,7 milljónir fermetra! Um hvað var fréttin þá eiginlega?

Er ekki kominn tími til að fréttastofa Ríkisútvarpsins opni útvarpstækið og heyri hvað er að gerast í löndunum sem við berum okkur saman við? Tengi jafnvel internetið og skoði erlendrar fréttasíður sem mark er takandi á?

Það er nefnilega verið að stórauka kolaframleiðslu og kolabrennslu í Evrópu og víðar um heim vegna vanhugsaðra ákvarðana í orkumálum. Mengunin frá kolum er gríðarleg. Hún er tvöfalt meiri en frá jarðgasi. Hún er hundruðföld á við mengun frá virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun.

Í vetur notuðust sjávarútvegsfyrirtæki og varmaveitur í sveitarfélögum á Íslandi gríðarlegt magn af olíu vegna þess að vatnabúskapur Landsvirkjunar var lélegur. Ástæðan var sú að endalausar tafir hafa verið á byggingu nýrra virkjanna vegna andstöðu umhverfisflokkanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Með Ríkisútvarpið í broddi fylkingar.

Af hverju er Ríkisútvarpið ekki heldur að upplýsa um hvaða kostir eru í boði á Íslandi til að framleiða hreina og ódýra orku - með hlutlausum hætti eins og því er skylt samkvæmt lögum. Ríkisútvarpið kostar saklausa skattborgara 14 milljónir á dag – um 5 milljarða á ári.

Hvernig getur Ríkisútvarpið boðið upp á svona slakan fréttaflutning?