*

sunnudagur, 20. júní 2021
Óðinn
13. júní 2008 07:00

Eimskipafélagið: Nú fara góð ráð að verða dýr

Það er ekki nema von að Óðni eins og líklega mörgum örðum kippi við þegar fyrirtæki sem keypt var fyrir aðeins tveimur árum og þá á líklega um 8-10 milljarða króna og ekki hafði heyrst að gengi sérstaklega illa er afskrifað á einu bretti eins og Eimskipafélagið hefur nú gert með Innovate Holding. Að vísu er unnið að sölu eigna fyrirtækisins en greinilegt að menn reikna ekki með að koma til baka með fullar hendur fjár úr þeirri söluferð.

Ekki batnar eiginfjárstaða Eimskipafélagsins við þetta og var hún raunar ekki sérstaklega beysin fyrir. Í lok fyrsta ársfjórðungs var eiginfjárhlutfall félagsins 19% eða um 420 milljónir evra en fer niður fyrir 16% við þessa afskrift. Í því sambandi horfa menn væntanlega einnig til þess að viðskiptavild og óefnislegar eignir Eimskipafélagsins voru færðar til bókar á 580 milljónir evra í uppgjörinu og voru þannig 160 milljónum meiri en sem nam eigin fé félagsins. 

Rekstur Eimskipafélagsins verður að óbreyttu afar erfiður í ár. Skuldabyrði félagsins er geysilega þung og má ætla að vaxtaberandi skuldir félagsins nemi um 1,4 milljörðum evra eða nærri 170 milljörðum króna. Fjármagnsliðir voru þannig neikvæðir um 57 milljónir evra á fyrsta fjórðungi en EBITDAhagnaðurinn var 39,7 milljónir evra og ljóst að fjármagnskostnaður verður áfram mikill. Miðað við útgefin tekjumarkmið í ár (1,9 milljarðar evra) að teknu tilliti til brotfalls áætlaðar tekna Innovate og gengisáhrifa má ætla að tekjur Eimskipafélagsins geti numið um 1,4 milljarði evra og EBIDTA-hagnaður um 160 milljónum evra. Það táknar að hlutfall vaxtaberandi skulda af EBIDTA-hagnaði slagar hátt í 9 sem er hátt. Skotið hefur verið á að tap Eimskipafélagsins í ár geti losað 100 milljónir evra.

Aðeins tvennt kemur til greina til þess að létta skuldastöðuna: að selja eignir eða afla félaginu aukins eigin fjár og hvorug leiðin er auðveld við núverandi aðstæður; illa eða ekkert hefur gengið að selja eignir Atlas og Versacold í Kanada og Óðinn treystir sér ekki til að dæma um hvort væntingar stjórnenda Eimskipafélagsins um skráningu félaganna á hlutabréfamarkað í Kanada séu raunhæfar.

Vegna aðstæðna á lánsfjármörkuðum horfa fjárfestar mun stífar til gjalddaga stórra lána skráðra fyrirtækja og Eimskipafélagið er þar engin undantekning en um átta milljarðar af lánum félagsins eru á gjalddaga í október í haust. Við þetta allt saman bætast svo áhyggjur af ábyrgðum sem Eimskipafélagið hefur gengið. Félagið er enn í ábyrgð fyrir 280 milljóna dala láni XL Leisure Group sem fallið er á gjalddaga en enn á eftir að endurfjármagna. Þá er Eimskipafélagið einnig í ábyrgð fyrir 180 milljóna dala láni Air Atlanta sem að vísu er ekki enn á gjalddaga. En hvernig sem á málin er litinn er ljóst að Eimskipafélagið stendur frammi fyrir ærnum vanda. 

 Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu eru lífeyrissjóðir á meðal kröfuhafa óveðtryggðra skulda Nýsis og munu vafalaust þurfa að afskrifa umtalsverðar upphæðir. Í ljósi þessara frétta er Óðinn ekki hissa á sögum sem honum bárust til eyrna að fasteignafélagið Landic Property hefði að mestu farið bónleið til búðar lífeyrissjóðanna fyrr á árinu. Þótt Nýsir og Landic Property séu að vísu gerólík félög og eignasöfn þeirra sömuleiðis er eitt stef þó keimlíkt: uppkaup með vaxandiskuldsetningu og lækkandi eiginfjárhlutfall. Tekið skal fram að eiginfjárhlutfall Landic Property var mun hærra en hjá Nýsi eða 15,6% um áramótin síðustu. Eigið fé Landic Property nam 773 milljónum evra en á þessum síðustu og verstu tímum höggva menn auðvitað eftir því að viðskiptavild og óefnislegar eignir voru færðar til bókar á 446 milljónir evra.

Og eins taka menn eftr að fjárskuldbingar sem Landic Property þarf að standa skil á í ár nema 1,1 milljarði evra eða 130 milljörðum króna. Í þessu ljósi er kannski ekki skrýtið þótt danskir farfuglar hafi kvakað því í eyra Óðins að Landic Property væri, þótt mjög leynt fari, byrjað að kanna hvernig landið liggur þar með mögulega sölu eigna í huga.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.