Það eru spennandi tímar og í landslagi morgundagsins felast fjölmörg tækifæri. Tækifæri til að nálgast viðfangsefni fjórðu iðnbyltingarinnar með ferskum og skapandi hætti þannig að gæði aukist og verðmætasköpun eigi sér stað í sátt við náttúru og menn.

Þetta vita jafnréttisstjörnur sem hafa stigið fram á sjónarsviðið og sýnt einlægan jafnréttisvilja. Einstaklingar sem hafa skapað umræðuhefð og vita hve frelsandi jafnréttið er og fjölbreytileikinn mikilvægur þegar verið er að skapa sviðsmynd og leggja grunn að nánustu framtíð - öllum til hagsbóta.

Að taka sopa úr brunahana

En ef jafnrétti er sprelllifandi frelsandi afl sem gefur og gefur, af hverju er þá þörf fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu? Jú, vegna þess að jafnrétti hefur enn ekki verið náð og niðurstöður rannsókna sýna stöðnun og á köflum bakslag. Í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) er hópur 1.200 ólíkra kvenna um land allt sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi.

Þessar öflugu konur eru tilbúnar til að taka pláss, gera sig gildandi, vera hreyfiafl og vera hluti af MAN-eflandi félagsskap. Til að fara eftir lögum um jafnrétti, kjósa konur, versla við konur, ráða konur og mæla með konum þurfum við nefnilega að þekkja konur og þá kemur FKA til sögunnar. Það er tengslanetið sem er okkar auður í FKA. Líkt og líffæri með fjölbreytta fúnksjón sem saman mynda vel starfhæfan líkama þá erum við ólíkar en jafn góðar.

Hlutverk FKA er að efla tengslanet og styðja kvenleiðtoga til að sækja fram og sameina. FKA vinnur með aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að efla konur og koma þeim markvisst inn á radarinn með hreyfiaflsverkefnum. Þessar konur klappa ég upp á hverjum degi og efst í huga mér er þakklæti fyrir baráttu formæðra minna sem eru í mínum huga steypustyrktarjárn þrotlausrar baráttu fyrir jöfnum rétti. Nú þurfa allir að gíra sig upp fyrir jafnréttið og fagna fjölbreytileikanum.

Það gera skærustu jafnréttisstjörnurnar sem mikilvægt er að hvetja til góðra verka - aftur, áfram og af enn meiri krafti. Og ekki vanþörf á því þegar kemur að því að jafna hlut kynjanna blasa við svo mörg og stór verkefni að það mætti helst líkja við að ætla að taka sopa úr brunahana. Staðreyndir sýna að enn hallar verulega á konur og að kynin standa ekki jafnfætis þegar kemur að því að nýta sér jafnréttið.

Þetta er staðan þrátt fyrir að opinbert regluverk hafi sett á okkur kröfur og skyldur í jafnréttismálum til að tryggja rétt ólíkra hópa og allra kynja. Sem fyrr sitja fáar konur í efsta stjórnendalagi í íslensku atvinnulífi en góðu fréttirnar eru að nú má fara að líta jafnréttisglasið hálffullt en ekki hálftómt. Jafnrétti er nefnilega ákvörðun og ef fólk er vandamálið þá er það líka lausnin og það er mikið gleðiefni að vita til þess að það sé búið að skuldbinda þjóðina til að ná Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna og slá í gegn fyrir árið 2030.

Þetta segir okkur að pólitísk heilsa í landinu er í góðu standi og gefur vísbendingu um að það eigi að nálgast viðfangsefnin með heildrænum hætti. Það er því mjög mikilvægt að nú skapist einlæg og alger stemning fyrir fjölbreytileika í samfélaginu svo að við náum þessum markmiðum. Að við séum tilbúin að skapa okkur og endurskapa, aftur og aftur.

Infrastrúktúr framtíðarinnar

Þrátt fyrir að lagalegu misrétti hafi löngu verið útrýmt, konur hafi fyrir löngu jafnað metin við karla hvað varðar atvinnuþátttöku í íslensku samfélagi og hafi heldur betur sótt í sig veðrið er kemur að menntun, þá hefur fátt verið fljótlegt og þægilegt í þessu tilliti. Konur verða nú að fá fleiri sæti við borðið í ákvarðanatöku, hafa rödd við borðið og svo verða völdin að haldast þar eftir að þær hafa fengið sér sæti.

Við lifum mikla breytingatíma, þróunin er mikil og hröð og ólíkar raddir okkar þurfa að heyrast. Komið hefur til dæmis í ljós að gervigreind getur fest hefðir og menningu í sessi og eru mörg dæmi þess að hún geti gert upp á milli kynja, kynþátta og menningar. Það er raunveruleiki þarna úti sem sameinar konur og hann verður að taka með í reikninginn þegar verið er að hanna infrastrúktúr framtíðarinnar.

Breytingar koma alltaf við fólk og geta vakið miklar og sterkar tilfinningar, það er löngu vitað - og engin þörf á að stökkva í vörn. Við erum að ræða jafnrétti, jöfn tækifæri fyrir dætur okkar og syni. Orkuskiptin sem verða að eiga sér stað í fundarherbergjum til að nálgast stærstu áskoranir samtímans með ásættanlegum hætti. Ólíkar raddir verða að koma að borðinu þegar verið er að móta framtíðina fyrir okkur öll. Tökum samtalið - Það er aldrei of mikið jafnrétti!

Höfundur er framkvæmdastjóri FKA. Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.