*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Örn Arnarson
7. júní 2021 07:03

Eindreginn vilji til sniðgöngu gróðurelda

Ekki hefur farið fram hlutafjárútboð undanfarin ár án þess að leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi reynt að bregða fyrir því fæti.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, var til útvarps í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag í síðustu viku ásamt Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins og einum af varaforsetum ASÍ. Umræðan var barátta ASÍ fyrir að landsmenn sniðgangi hið nýstofnaða flugfélag Play.

Stefán benti á áhugaverða staðreynd sem fjölmiðlar mættu gjarnan gefa meiri gaum. Staðreyndin er að ekki hefur farið hlutafjárútboð hér á landi á undanförnum árum án þess að helstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi reynt að bregða fyrir því fæti. Flestum er í fersku minni framganga verkalýðsleiðtoga á borð við Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair í fyrra en hann lék sama leik á dögunum fyrir vel lukkað útboð Síldarvinnslunnar. Sem kunnugt er þá stefnir Play að skráningu á First North-markaðinn í sumar en eins og áður segir hefur ASÍ með Drífu Snædal, forseta samtakanna, í fararbroddi hvatt landsmenn til þess að eiga ekki í viðskiptum við flugfélagið.

Nú er stefnt að því að ljúka hlutafjárútboði Íslandsbanka og skráningu í Kauphöllina fyrir lok þessa mánaðar. Fjárfestar hljóta að bíða spenntir eftir að leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar segi hug sinn varðandi þau áform öll. Ekki síst í ljósi þess að gengi hlutabréfa Icelandair hefur hækkað um tæp 60% og Síldarvinnslunnar um tæp 9% frá að þeir vöruðu við fjárfestingum í þeim. Þó er rétt að geta þess að fjárfesting í hlutabréfum er áhættusöm og ávöxtun í fortíð er ekki ávísun á áframhaldandi vöxt.

                                                                             ***

Það verður að teljast sérstakt þegar fjölmiðill leitar formlegra leiða til að komast að því hvernig heimildaöflun annarra fjölmiðla er háttað. Kjarninn sagði frá því á dögunum að hann hefði krafið sjávarútvegsráðuneytið um að fá aðgang að gögnum um samskipti ráðuneytisins við blaðamenn Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Tengist málið skýrslu sem ráðuneytið gaf út í maímánuði og fjallar um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi. Fréttablaðið og Morgunblaðið sögðu fréttir af innihaldi skýrslunnar sama dag og skýrslan kom formlega út. Efni hennar sætti engum stórtíðindum og það er óneitanlega sérstakt að einhver fjölmiðill telji það rannsóknarefni að aðrir fjölmiðlar hafi komist yfir innihaldið á undan öðrum.

                                                                             ***

Fjölmiðlar hafa sagt frá því að atvinnurekendur eigi erfitt með að manna laus störf þrátt fyrir að atvinnuleysi mælist enn mikið. Tæplega 18 þúsund manns eru nú án atvinnu. Mest hefur farið fyrir kvörtunum þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtæki í þessum efnum en mikið atvinnuleysi má að stórum hluta rekja til samdráttar í greininni eftir að öllu var skellt í lás og slá eftir að kórónuveiran lét á sér kræla. Forstjóri Vinnumálastofnunar staðfesti einnig í fjölmiðlum að eitthvað væri um að fólk kysi fremur að vera á atvinnuleysisbótum þó að vinnu sé að fá. Þannig sagði hún frá því að stofnunin hefði síðustu tvo mánuði svipt hátt í fjögur hundruð manns atvinnuleysisbótum sökum þess að þau höfnuðu störfum sem stóð þeim til boða.

Fleiri fletir eru á þessu máli sem vert væri að skoða. Eins og margir muna varð uppi hávær umræða um hækkun atvinnuleysisbóta í fyrrasumar. Þá töluðu bæði ASÍ og svo Samfylkingin fyrir hækkun bótanna vegna mikils atvinnuleysis sökum útbreiðslu kórónuveirunnar og báðar hreyfingarnar auglýstu þessa skoðun með myndböndum á samfélagsmiðlum. Þá varð einnig uppi fótur og fit þegar hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins vogaði sér að benda á að orsakasamhengi gæti verið á milli upphæðar atvinnuleysisbóta og atvinnuþátttöku. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti einnig yfir áhyggjum yfir þessu í Kastljósviðtali í ágúst í fyrra. Sú skoðun féll í grýttan jarðveg - ekki síst hjá fréttastofu RÚV sem eyddi næstu dögum í að leita uppi viðmælendur sem voru á öndverðu meiði við SA og fjármálaráðherra. Einn þeirra var Guðrún Johnsen, hagfræðingur og starfsmaður VR. Hún fullyrti að ekkert samband væri á milli atvinnuleysisbóta, eða upphæðar atvinnuleysistrygginga, og atvinnuleysis.

Þær fréttir sem berast af atvinnumarkaðnum gefa fullt tilefni til áframhalds á umræðum um hvort ofangreind tengsl séu til staðar eða ekki og hvað ræður því að sumir kjósa enn sem komið er að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og störfum fjölgar.

                                                                             ***

BSRB kynnti nýverið könnun sem samtökin, ásamt Rúnari Vilhjálmssyni, prófessors í félagsfræði, létu gera á afstöðu landsmanna til ólíkra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt framsetningu BSRB og prófessorsins er niðurstaða könnunarinnar afdráttarlaus: Mikill meirihluti landsmanna hafnar alfarið einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Flestir fjölmiðlar endurómuðu þetta í fréttum af könnuninni. Vandinn er hins vegar sá að niðurstaða könnunarinnar er ekki jafn afdráttarlaus og BSRB fullyrðir. Það sést um leið og niðurstöður könnunarinnar, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, eru skoðaðar.

Morgunblaðið var eini fjölmiðillinn sem kveikti á perunni og skoðaði könnunina ofan í kjölinn. Á laugardag fyrir rúmri viku birti blaðið ágæta fréttaskýringu þar sem sýnt er að niðurstaða könnunarinnar sýni fyrst og fremst afdráttarlausan stuðning landsmanna við blandaðan rekstur einkageirans annars vegar og hins opinbera hins vegar í heilbrigðiskerfinu. Í fréttinni er rætt við Þórarin Guðnason, formann Læknafélags Reykjavíkur, um niðurstöðurnar. Hann bendir á að þrátt fyrir að könnunin sýni að meirihluti landsmanna vilji að hið opinbera reki sjúkrahús virðist mikil sátt um að einkaaðilar komi að rekstri annarrar heilbrigðisstarfsemi. Þórarinn segir einnig að ályktanirnar sem aðstandendur könnunarinnar dragi af henni séu í besta falli hæpnar og í versta falli rangar.

                                                                             ***

Ályktunarhæfni er góðum fréttamönnum nauðsynleg. Vandaðir fréttamenn treysta ekki eigin ályktunarhæfni eingöngu heldur leitast eftir staðfestingu sérfræðinga þegar þá grunar að eitthvert orsakasamhengi sé að baki miklum tíðindum. Frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins á dögunum er glæsilegur minnisvarði um ofangreint. Fyrirsögn fréttarinnar var: Votviðri dregur úr hættu á gróðureldum. Fréttin hefst svo á fullyrðingu: „Útlit er fyrir að lægðir gangi yfir landið næstu daga og talsverðri rigningu er spáð á sunnanverðu landinu um helgina sem dregur úr hættu á gróðureldum." Til þess að lesandinn velkist ekki í vafa þá er sérfræðingur kallaður til staðfestingar en fréttin heldur áfram á þessum orðum: Óli Þór Árnason veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands staðfestir þetta í samtali við fréttastofu auk þess sem hann hvetur ferðalanga til varkárni. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.