Samkvæmt nýrri talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eykst uppbygging íbúðarhúsnæðis mest í Hafnarfirði á milli tímabila í landinu öllu.  Það er í samræmi við fyrirætlanir okkar um hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á komandi árum og mikla íbúafjölgun sem því fylgir.

Lögð hefur verið áhersla undanfarin ár og misseri á að úthluta lóðum hratt og vel undir fjölbreytt húsnæði eftir stíflu í úthlutun sem varð um tíma vegna kæruferils á flutningi raflína um nýjustu uppbyggingarhverfi bæjarins. Áætla má að sú töf sem varð á lóðaúthlutunum af þeim sökum hafi kostað bæjarfélagið mörg hundruð milljónir króna í formi ýmissa tekna sem ella hefðu fengist.

Kröftug uppbygging íbúða á sér því nú stað í Hafnarfirði. Auk nýrra hverfa sem rísa hratt er byggð að þéttast og þannig að skapast mjög fjölbreyttir búsetumöguleikar í bænum. Auk þessa er gríðarleg uppbygging á nýjum atvinnusvæðum bæjarins að eiga sér stað og ekkert lát á eftirspurn eftir lóðum þar.

Skipulagsferli of tímafrekt

Fyrir þau sem eru að koma inn á húsnæðismarkað skiptir sköpum að framboð sé á góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það kallar á heildarendurskoðun byggingarreglugerðar og einföldun á henni svo ná megi fram skilvirkari íbúða- og innviðauppbyggingu og draga úr kostnaði. Einfaldara regluverk styttir framkvæmdatíma sem við eðlilegar aðstæður ætti að skila sér í lægra íbúðaverði.

Við getum einfaldað stjórnsýslu og regluverk á skipulagssviði og stytt skipulagsferlið án þess að draga úr gæðum bygginga.

Núverandi skipulagskerfi er of þungt í vöfum og tímafrekt og þar af leiðandi bæði hamlandi og dýrt. Fyrir utan nokkurra mánaða auglýsinga- og umsagnarferill skipulags getur í lok ferils komið til kæru á aðal- eða deiliskipulagstillögu. Komi til þess tefur það mál óháð því hvort athugasemdir við tillöguna hafi komið fram á fyrri stigum og getur kæruferlið tekið nokkur ár. Þegar mjög ríkur vilji er til að standa í vegi fyrir uppbyggingu má svo kæra framkvæmdaleyfi viðkomandi eins og gerðist til dæmis í Hafnarfirði vegna fyrirhugaðs flutnings raflína í stóru hverfi eins og að ofan er lýst. Augljóslega leiða slíkar tafir til mikils kostnaðarauka.

Sveigjanlegri reglugerðir á Norðurlöndum

Starfshópur á vegum ríkisins um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti fyrir nokkru áhugaverðar hugmyndir um hvernig aðilar geti unnið saman að því að tryggja húsnæðisöryggi landsmanna. Hópinn skipuðu fulltrúar ríkisins, sveitarfélaga, stéttarfélaga og hagsmunasamtaka. Stjórnsýslustigin hafa nú gert með sér samkomulag sem byggir að miklu leyti á tillögum starfshópsins þar sem lögð er áhersla á langtímaáætlanagerð í húsnæðismálum fyrir landið allt, áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins, húsnæðisstuðning, leigumarkaðinn og síðast en ekki síst skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum.

Þessu síðastnefnda þarf að fylgja vel eftir. Við getum einfaldað stjórnsýslu og regluverk á skipulagssviði og stytt skipulagsferlið án þess að draga úr gæðum bygginga. Benda má á að annars staðar á Norðurlöndum eru byggingarreglugerðir mun sveigjanlegri en hér á landi.  Til að uppfylla þörf fyrir fjölgun íbúða og ýmissa innviða á komandi árum munu skref til einföldunar skipta miklu máli. Núverandi skipan kallar á mikla sóun á tíma, orku og fjármunum.

Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 3. nóvember 2022.