Hin ágæta setning Wills Ferrells í kvikmyndinni Zoolander, „I feel like I'm taking crazy pills,“ kom upp í huga endahnútsritara um daginn, þegar hann lagði leið sína í matvöruverslun til dagvöruinnkaupa. Við honum blasti heilt bretti af vinsælum íþróttadrykk, þar sem búið var að opna hvern einasta pakka og líma miða á hverja einustu flösku. Á miðanum voru á íslensku nánast sömu innihaldslýsingar og prentaðar voru á umbúðirnar sjálfar á ensku.

Einhvern tímann hefur eitthvað farið úrskeiðis í þeirri atburðarás sem leitt hefur til þessa fyrirkomulags, gæti maður haldið. Af hverju í ósköpunum ætti seljandi vöru að leggja í þann kostnað og fyrirhöfn sem fylgja æfingum af þessu tagi? Svarið er að sjálfsögðu einfalt: Hann hefur engan áhuga á því, enda gengur góður rekstur ekki út á að finna upp óþarfa kostnaðarliði.

Þessi kostnaður lendir auðvitað á endanum á íslenskum almenningi og kemur þeim verst sem minnst hafa á milli handanna.

Íþyngjandi kröfur um endurmerkingu matvæla eiga rót sína að rekja til Evrópuregluverks um merkingar matvara og efnavara. Kröfurnar eru margþættar og kostnaðarsamar. Samkvæmt mati Samtaka verslunar og þjónustu er óhætt að telja að kostnaður vegna endurmerkinga nemi allt að 350-450 milljónum króna árlega. Þessi kostnaður lendir auðvitað á endanum á íslenskum almenningi og kemur þeim verst sem minnst hafa á milli handanna.

Fyrir nokkrum misserum var lögð fram reglugerð með þeirri sjálfsögðu breytingu að hægt væri að uppfylla endurmerkingarkröfur með rafrænum lausnum, en hún náði ekki fram að ganga. Nú, þegar verðbólgan þrengir að pyngjum landsmanna, ættu löggjafinn og framkvæmdavaldið, í samvinnu við verslunina í landinu, að gera aðra tilraun til að afnema eða minnka þennan kostnaðarlið og bæta með því kjör almennings. Verkalýðsfélög ættu jafnvel að slást í hópinn og gera kröfu þessa efnis í næstu kjarasamningum, enda bitnar þetta regluverk verst á skjólstæðingum þeirra.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023.